Upplýsingar
Stærra letur
Minna letur
Listi
Listi
27. maí 2016

Kæru skólavinir

 

Þá er senn komið að lokum þessa skemmtilega skólaárs sem hefur í raun bara brunað áfram.  Ég hélt lengi vel að hraðinn ætti bara við mig, sem fullorðinn mann og búinn að standa hér vaktina síðan 1984, já erum við ekki að tala um 32 ár.  Nei sannarlega finnst þeim yngri einnig tíminn hafa flogið og það segir okkur að hér hefur bara verið oftast gaman að vinna bæði hjá nemendum sem og okkur hinum eldri.

 

Þessa vikuna erum við að leggja lokahönd á skólalokin.  Nemendur fara heim með sín listaverk úr listgreinastofum. Svo fjölbreytt og skemmtileg eru þessi verkefni, sem segir okkur hve listrænir nemendur okkar eru og um leið hve fjölbreyttir og öflugir listgreinakennarar skólans eru og þannig mun það verða áfram.

 

Prófin og námsmatið hefur tekið mikið rými og vonum við innilega að nemendur hafi gert sitt besta og þannig náð settum markmiðum sínum þetta skólaárið. Endanlegar niðurstöður munu síðan liggja fyrir á skólaslitum okkar.

 

Síðasti fundur skólaráðs var þriðjudaginn 24. maí.  Fundurinn gekk vel og vísa ég á fundargerð á heimasíðu. Ég vil þakka fulltrúum í ráðinu fyrir skemmtilega fundi og um leið  heiðarlega samræðu.  Fulltrúar í skólaráði eru kjörnir til tveggja ára í senn og því kemur fólk og fer í þessu mikilvæga ráði.  Næsti fundur skólaráðs verður boðaður á haustdögum af nýráðnum skólastjóra sem er formaður ráðsins hverju sinni.

 

Nú er lokið heimsókn okkar hóps til Lyshöjskolen í Kolding.  Hópurinn er í Arhus á leiðinni heim. Ég vil óska okkur öllum til hamingju með þetta skemmtilega og gefandi samstarfsverkefni.

 

Það er alveg ljóst af bréfum og símtölum okkar fólks sem og vina okkar í Lyshöj að heimsókn þessi var til fyrirmyndar og allir þættir samstarfsins að virka. Aðstoðarskólastjóri Lyshöj bað um góðar kveðjur til allra í Stykkishólmi því þeir eru mjög meðvitaðir um að slík verkefni eru ekki leyst með þessum myndarskap nema að allt skólasamfélagið sé með .

 

Við erum  að tala um rúmlega  20 ára samstarf og á hverju ári hafa verið u.þ.b. 20 nemendur +/ - , umsjónarkennarar sem og mismargir foreldrar – köllum við þetta ekki vinarbæjarsamstarf af bestu tegund ?

 

Við fengum í heimsókn FRIÐARHLAUPARA 2016 í gær, fimmtudag. Vegna prófa hjá eldri nemendum voru okkar fulltrúar að þessu sinni  nemendur úr  1. – 5. bekk.  Notaleg stund sem við áttum í íþróttasalnum þar sem að vindur var aðeins of mikill til að vera úti – það hefði aldrei logað á friðarkyndlinum.  Ég hvet foreldra til að heimsækja fridarhlaup.is . Þar munu koma margar skemmtilegar myndir sem teknar voru og segja allt sem að segja þarf.

 

Mjög spennandi vinnudagar verða í næstu viku og þeir sannarlega töluvert öðruvísi.  Kennararnir Gunni Gunn og Trausti fara með fluguhnýtingavalið upp í Helgafellssveit og athuga hvort að flugurnar sem að nemendur hafa verið að búa til undir handleiðslu GG séu eitthvað að virka.

 

Öllum öðrum nemendum sem og starfsfólki hefur verið raðað í hópa þar sem að unnin verða hin ýmsu kærleiksverkefni.  Það er alveg á kláru að íbúar Stykkishólms og Helgafellssveitar munu fá að kynnast afrakstri þessarar vinnu með einhverjum hætti – látið ykkur hlakka !         ( sjá dagskrá KÆRLEIKSDAGA  á heimasíðu okkar )

 

Skólaslit verða síðan í Stykkishólmskirkju fimmtudaginn 2. júní kl. 18.00.  Hátíðarstund þar sem að í aðalhlutverkum verða væntanlegir nemendur okkar í 1. bekk að hausti sem og útskriftarnemendur  í 10. bekk.  Ég hvet foreldra þeirra yngstu að muna eftir þessari hátíðarstund sem og öllum öðrum foreldrum grunnskólanema.

 

Kæru vinir,

Hafið það gott um helgina. Látum okkur hlakka til síðustu viku skólaársins með BROS á vör.

 

Gunnar Svanlaugsson, skólastjóri

26. maí 2016

Grunnskólinn vill þakka Bónus og Póstinum fyrir mjög gott samstarf í vetur. Þrír nemendur í sérdeild hafa farið þrisvar í viku í starfsnám með stuðningsfulltrúa og hefur það gengið mjög vel. Næsta vetur eigum við von á að bakaríið bætist í hópinn og ef einhverjir fleiri hefðu áhuga eru þeir vinsamlega beðnir um að hafa samband við okkur.

 

 

26. maí 2016

Í morgun enduðu hlauparar Friðarhlaupsins hlaup sitt um Vesturland hér í Stykkishólmi. Þeir hittu nemendur 1. - 5. bekkjar og fóru með þeim í leiki og leyfðu öllum að halda á friðarkyndlinum.

 

 Friðarhlaupið (Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run) er alþjóðlegt kyndilboðhlaup. Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli. Sem tákn um þessa viðleitni bera hlaupararnir logandi kyndil, sem berst manna á milli í þúsundum byggðarlaga í yfir hundrað löndum. Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólitískan málstað.  Markmið hlaupsins er einfaldlega að auka meðvitund um að friður, vinátta og skilningur hefst í hjarta hvers og eins.

Friðarhlaupið hófst árið 1987 með þátttöku rúmlega 40 landa og var haldið annað hvert ár fram undir árþúsundamótin 2000, en síðustu árin hefur hlaupið verið haldið árlega.  Rúmlega 140 lönd hafa tekið þátt frá upphafi og flest löndin taka þátt árlega.

 

26. maí 2016

Auglýsum eftir íslenskukennara frá og með næsta skólaári.  Um er að ræða kennslu á mið- og efsta stigi.

 

Allar frekari upplýsingar gefa Gunnar Svanlaugsson, skólastjóri og Berglind Axelsdóttir, aðstoðarskólastjóri í síma 433-8177

 

skólastjóri

25. maí 2016

HÉR má sjá auglýsinguna stærri. 

Grunnskólinn í Stykkishólmi - Borgarbraut 6 - 340 Stykkishólmi - Sími 4338177 - Fax 4381045 - grunnskoli@stykk.is