Hátt í hundrað manns mættu á íbúafund í gær

Hátt í hundrað manns mættu á íbúafund í gær

Hátt í hundrað manns mættu á íbúafund um fyrirhugaða rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi á vegum kanadíska fyrirtækisins Acadian Seaplants í gærkvöldi. Stykkishólmsbær á nú í viðræðum við fyrirtækið varðandi frekari framvindu í þeim málum, líkt og ráðgjafarnefnd vegna málsins lagði til í skýrslu sinni.

Jakob Björgvin, bæjarstjóri, setti fundinn í Amtsbókasafninu í Stykkishólmi í gær en svo tók við boltanum JP Deveau, forstjóri Acadian Seaplants, sem sagði frá fyrirtækinu sjálfu og framtíðaráformum þess við Breiðafjörð. Þá kom einnig fram Raul Ugarte, yfirmaður auðlindarannsókna hjá Acadian, sem greindi frá sínum rannsóknum og hlutverki innan fyrirtækisins. Einnig komu fram Dr. Karl Gunnarsson og Lilja Gunnarsdóttir og sögðu frá rannsóknum sínum á klóþangi við Breiðafjörð og áhrifum þangtekju á lífríkið.

Á meðan fundinum stóð gafst viðstöddum tækifæri til að senda inn fyrirspurnir í gegnum síma sem var svo varpað upp á skjá og svarað í lok fundar auk þess sem opið var fyrir umræður og spurningar að því loknu. Aðspurður um störf reiknaði forstjóri Acadian með u.þ.b. 30 störfum, 20 í afurðarmiðstöðinni og 10 vettvangsstörf, eftir að fyrsta áfanga verkefnisins væri náð. Fyrirtækið kynnti einnig helstu staðsetningu sem er til skoðunar hjá þeim nú en þeir hafa hug á að staðsetja miðstöðina við Kallhamra, suðvestan flugvallar, fjarri íbúabyggð og koma þar upp bryggju svo þangið þurfi ekki að flytja með bílum að miðstöðinni.

Í erindi Dr. Karls Gunnarssonar, frá Hafrannsóknarstofnun, kom fram að óhætt ætti að vera að slá 40 þúsund tonn af klóþangi á ári sem er u.þ.b. 4% af heilarmagni klóþangs í Breiðafirði og tók hann jafnframt fram að þessi tala væri af varfærni fremur lægri en ella. Karl sagði frá tveimur aðferðum sem notaðar hafa verið til að áætla magn klóþangs í Beiðafirði og gera báðar aðferðir ráð fyrir yfir einni miljón tonna af klóþangi í firðinum. Á fundinum kom fram að Acadian Seaplants reikni með að vinna allt að 20 þúsund tonn af þangi á ári, sem er sama magn og Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum hefur forgang að samkvæmt lögum frá alþingi.