Minningarskjöldur um Guðmund Kristinsson afhjúpaður

Minningarskjöldur um Guðmund Kristinsson afhjúpaður

Á aðra miljón króna safnaðist til minningar um Guðmund Kristinsson, um er að ræða frjáls framlög sem gefin voru slökkviliðinu til kaupa á tækjum í minningu Guðmundar. Þetta kom fram í ávarpi Álfgeirs Marinóssonar, slökkviliðsstjóra,  við athöfn í slökkviliðsstöðinni í gær. Í athöfninni var afhjúpaður skjöldur til minningar um Guðmund ásamt því að tækin sem keypt voru fyrir gjafaféð voru kynnt.

Í ávarpi Álfgeirs kom fram að rétt þótti að kaupa tæki sem nýtast til lífsbjargar. Keypt voru tvö loftpúðasett, lág- og háþrýstisett, púðana má nota til að lyfta þungum hlutum á borð við bíla og rútur. Að lokinni minningarathöfninni var slökkvistöðin opin öllum í tilefni dagsins, en einn-einn-tveir dagurinn var haldinn hátíðlegur víða um land í gær. Þá var nýji búnaðurinn prófaður þegar viðbragðsaðilar björguðu gervimanni undan bíl eins og sjá má á myndum hér að neðan.