Klifurveggur í Stykkishólmi

Klifurveggur í Stykkishólmi

Í sumar var greint frá því að unnið væri að því að koma upp klifurvegg í íþróttamiðstöðinni. Þeirri framkvæmd er nú lokið og hefur glæsilegur veggur verið tekinn í notkun. Kristján Sveinsson, í samstarfi við Stykkishólmsbæ, sótti um styrk í uppbyggingasjóð Vesturlands og hlaut þaðan styrk í verkefnið upp á 500.000 kr. 

Veggurinn er 8 metrar að hæð og skemmtileg viðbót í það fjölbreytilega íþróttastarf sem unnið er í Stykkishólmi. Á veggnum eru margar miserfiðar klifurleiðir og hentar hann því bæði byrjendum og lengra komnum en klifurleiðirnar eru skilgreindar eftir litum á gripunum. Lítið mál er svo að færa gripin til á veggnum og búa þannig til nýjar leiðir og breyta til annað slagið.

Áhugasömum klifrurum er bent á að hægt er að kaupa aðgang að íþróttasalnum og spreyta sig á veggnum. Leyfilegt er að klifra í ákveðna hæð án þess að vera í línu en ekki er leyfilegt að vera í línu nema hafa hlotið þjálfun til þess eða vera með leiðbeinanda. Reglur klifurveggsins eru aðgengilegar í íþróttahúsinu.

Einnig er stefnt að því að bjóða upp á opna daga þar sem áhugasamir geta prófað að klifra undir leiðsögn síðar í þessum mánuði. Verður það auglýst nánar þegar nær dregur.

Á myndunum hér að neðan má sjá klifurvegginn verða til.