Bærinn og sagan

Bærinn og sagan

Mynd af sveitarfélagi

Stykkishólmur hefur á síðustu árum orðið að einum vinsælasta áfanga- og áningarstað landsins. Þar kemur margt til, ef til vill vegur þar þungt metnaður bæjarbúa fyrir að varðveita umhverfi sitt og sögu svo komandi kynslóðir fái notið þeirra á sama hátt og við gerum nú. Sú hugsun endurspeglast hvað best í miðbæ Stykkishólms sem óhætt er að vísa til sem safns gamalla húsa. Stykkishólmsbær fékk Skipulagsverðlaunin 2008, sem veitt eru af Skipulagsfræðifélagi Íslands, fyrir deiliskipulag miðbæjar, stefnu og framfylgd hennar og eru bæjarbúar ákaflega stoltir og þakklátir fyrir þá viðurkenningu.

 
Umhverfisvottun

Umhverfismál eru í hávegum höfð í Stykkishólmi og hefur sveitarfélagið fyrst allra á Íslandi innleitt flokkun á öllu heimilissorpi þ.m.t. moltugerð lífræns úrgangs frá heimilum bæjarins. Að auki hafa öll sveitarfélögin á Snæfellsnesi sameiginlega fengið umhverfisvottun frá Earth Check og er það í fyrsta skipti á heimsvísu sem slík er gert. Árið 2019 var vottunin svo endurnýjuð í 10. sinn og er svæðið því með Platínu-vottun.
 
Fjölbreytt afþreying

Mikil áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu þjónustu í Stykkishólmi sem nýtist ferðamönnum vel. Glæsileg sundlaugaraðstaða var tekin í notkun árið 1999. Meðal þess sem þar er boðið upp á er 25 metra útisundlaug, risarennibraut, innisundlaug og heitir og kaldir pottar með sérstaklega vottuðu vatni vegna eiginleika þess við að vinna á ýmsum húðsjúkdómum. Þá hefur golfvöllurinn, sem staðsettur er við tjaldsvæðið, verið endurgerður undanfarin ár og er nú orðinn einn af glæsilegustu 9 holu völlum landsins. Ferjan Baldur siglir yfir Breiðafjörð milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey, eyjarinnar þar sem tíminn stendur í stað. Daglega eru skoðunarferðir um Breiðafjarðareyjarnar óteljandi þar sem náttúran og fuglalíf er skoðað. Í ferðunum er m.a. plógur dreginn upp og farþegum gefinn kostur á að smakka á því sem matarkista fjarðarins gefur af sér. Þessi upplifun gerir heimsókn í Stykkishólm ógleymanlega.
 
Eldur og ís

Andstæðurnar í íslenskri náttúru eru sérkenni landsins og þær áhrifamestu eru eldur og ís. Í Stykkishólmi eru tvö glæsileg söfn þar sem þessum efnum eru gerð góð skil. Annars vegar er það Vatnasafn/Library of water, sem er innsetningarverk bandarísku listakonunnar Roni Horn. Þar á hæsta punkti Stykkishólms með útsýni til allra átta hefur gömlu bókasafnsbyggingunni verið breytt í safn vatns, orða og veðurfrásagna. Safnið prýða m.a. 24 glersúlur með vatni úr helstu jöklum landsins.
 
Hins vegar er það Eldfjallasafn sem er opið daglega á sumrin. Safnið er mjög fjölbreytt þar sem m.a. er alþjóðasafn af listaverkum, fornum og nýjum, sem sýna eldgos. Einnig munir, forngripir, minjar og steintegundir úr einstöku safni Haraldar Sigurðssonar prófessors sem hefur stundað eldfjallarannsóknir í yfir 40 ár um allan heim. Í Eldfjallasafni eru kynningar eða erindi flutt af Haraldi á íslensku og ensku, um eldgos og áhrif þeirra ásamt fræðslu um jarðfræði sem hentar fólki og nemendum með litla eða enga þekkingu á þessu sviði. Á vegum Eldfjallasafnsins er boðið er upp á fræðsluferðir umhverfis Snæfellsnes. Í ferðunum verður skoðuð ótrúleg jarðfræðifjölbreytni svæðisins undir handleiðslu Haraldar Sigurðssonar. Ferðin er ekki aðeins kynnisferð, heldur skipulögð þannig að hún skilur eftir heilsteypta mynd af jarðfræði og landmótun í lok ferðarinnar hjá hverjum þátttakanda. Nánari upplýsingar má nálgast á www.eldfjallasafn.is og safn@eldfjallasafn.is
 
Norska húsið

Byggðasafn Snæfellinga, sem nefnist Norska húsið, er staðsett í Stykkishólmi og er þangað bæði skemmtilegt og fróðlegt að koma. Í safninu er fastasýning á heimili Árna Thorlacius eins og talið er að það hafi verið á seinni hluta 19. aldar. Í risinu er opin safngeymsla og falleg krambúð er á fyrstu hæð hússins. Sýningar á fyrstu hæð hússins eru breytilegar en tengjast menningu, sögu og listum svæðisins.
 
Menning

Þrátt fyrir að íbúar Stykkishólms séu einungis 1150 þá þrífst þar blómlegt íþrótta- og menningarlíf. Bærinn er orðinn þekktur sem körfuboltabær, þar sem lið þeirra Snæfell hefur náð frábærum árangri undanfarin ár. Yfir sumarmánuðina er boðið upp á tónleika í Stykkishólmskirkju og koma þar fram ýmsir góðir tónlistarmenn bæði íslenskir og erlendir.
 
Matur

Fyrir þá sem una góðum mat og vilja láta kitla bragðlaukana þá eru allnokkrir veitingastaðir í Stykkishólmi sem bjóða upp á fjölreytt úrval rétta, auk þess sem gott bakarí er í bænum. Þeir sem hins vegar kjósa að matreiða sjálfir geta keypt aðföngin í Bónus sem er með verslun á staðnum.
 
Gisting

Fjölbreytnin er mikil í Stykkishólmi þegar kemur að möguleikum til gistingar og ættu allir að finna eitthvað sem hæfir þeirra þörfum. Nýtt og glæsilegt þjónustuhús við tjaldsvæðið var tekið í notkun sumarið 2009 og samhliða því hefur öll aðstaða verið bætt til muna fyrir húsbíla, hjól- og fellihýsi. Til að mæta þörfum gesta enn frekar hefur verið komið upp þráðlausri nettenginu á tjaldsvæði og í miðbæ Stykkishólms. Auk tjaldsvæðisins eru farfuglaheimili, hótel, orlofshús og heimagistingar.