Umhverfismál

Umhverfismál í öndvegi

Umhverfismál eru mál málanna í Stykkishólmi. Árið 2003 fékk Höfnin í Stykkishólmi Bláfánann og var það í fyrsta skipti að höfn fékk Bláfánann á Íslandi. Grænfánanum var flaggað í Leikskóla Stykkishólms og við yngri deildir Grunnskólans vorið 2007 og í janúar 2008 hófust íbúar handa við að flokka allt sorp. Árið 2008 fékk Stykkishólmur ásamt öðrum sveitarfélögum á Snæfellsnesi umhverfisvottun og hefur hún verið endurnýjuð á hverju ári síðan þá.

Hvað er EarthCheck?

Mynd af sveitarfélagi

Vottunarsamtökin EC3 Global eru áströlsk samtök sem sjá um vottun samfélaga og ferðaþjónustuaðila og geta veitt þeim umhverfismerki. Samtök þessi hafa umsjón með EarthCheck vottunarkerfinu, sem byggir á hugmyndafræði Dagskrár 21 um ábyrga stjórnun og sjálfbæra þróun og var sett á fót með stuðningi Alþjóða ferðamálaráðsins og Alþjóða ferðamálasamtakanna árið 1994. Í upphafi gekk vottunarkerfið undir nafninu Green Globe en fyrri hluta árs 2010 varð breyting á og kerfið tók upp merki EarthCheck. EarthCheck umhverfismerkið er notað á ferðaþjónustufyrirtæki og ferðaáfangastaði sem vilja stuðla að sjálfbærri þróun. Merkið nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar, enda hafa samtökin vottað aðila í yfir 50 þjóðlöndum í öllum heimsálfum. Erlendis er því um þekkt og traust umhverfismerki að ræða.

EC3 Global eru enn sem komið er einu vottunarsamtökin í heiminum sem votta samfélög. Vottunarkerfið felur í sér að samtökin setja viðmið fyrir samfélagið í heild og því er í raun um trúverðugri leið til umhverfisúrbóta að ræða en felst í til dæmis Staðardagskrárvinnu og vottun samkvæmt ISO 14001 staðli. Í þeim verkefnum setur viðkomandi aðili sér sjálfur viðmið og segir þátttaka því lítið til um frammistöðu í samanburði við aðra aðila, þótt hún sé jákvæð. Með vottunarkerfinu veita samtökin samfélögum ramma til þess að mæla frammistöðu sína og vinna að stöðugum úrbótum í umhverfis- og samfélagsmálum.

Undirbúningur fyrir EarthCheck (þá Green Globe) hófst á Snæfellsnesi árið 2002. Sveitarfélögin fimm og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull gengu formlega inn í Green Globe ferlið í maí árið 2003 og náðu fyrst viðmiðum Green Globe í október 2004. Viðmiðum var náð á ný næstu árin og loks náðist formleg vottun frá Green Globe árið 2008. Þá var Snæfellsnes fjórða samfélagið í heiminum til þess að ná slíkri vottun og það fyrsta í Evrópu. Vottunin var endurnýjuð vorið 2010 og þá undir merkjum EarthCheck. Nánari upplýsingar um EarthCheck vottunina sem Stykkishólmsbær er aðili að er að finna á www.nesvottun.is.

 

Bláfáninn

Mynd af sveitarfélagi

Föstudaginn 13. júní 2003 afhenti Landvernd smábátahöfninni í Stykkishólmi Bláfánann við hátíðlega athöfn. Smábátahöfnin í Stykkishólmi var fyrsta höfnin til að hljóta þessa alþjóðlegu viðurkenningu hér á landi. 

Bláfáninn er alþjóðlegt merki fyrir hafnir sem uppfylla ströng skilyrði í umhverfis- og öryggismálum og hefur þann tilgang að stuðla að verndun umhverfis smábátahafna og baðstranda. Smábátahöfnum er veittur Bláfáninn hafi þær lagt sig fram um að vernda umhverfið, bæta öryggismál og aðstöðu í höfninni og veita fræðslu um náttúruna og umhverfisvernd. Þessi viðleitni á að treysta verndun umhverfis hafnarinnar og alla þá þjónustu sem höfnin býður upp á og vera öllum þeim sem nota eða heimsækja höfnina til hagsbóta.

Það eru alþjóðasamtökin Foundation for Enviromental Education, sem Landvernd á aðild að, sem standa að baki þessu merki. Stykkishólmshöfn hefur hlotið þessa viðurkenningu og flaggað Bláfánanum á hverju ári síðan 2003.

Grænfáninn

Mynd af sveitarfélagi

Í maí 2006 gekk Leikskólinn í Stykkishólmi til liðs við verkefnið ,,Skólar á grænni grein” og þann 30. maí 2007 var Grænfáninn afhentur af aðilum frá Landvernd. Leikskólinn í Stykkishólmi hefur í skólastefnu sinni áætlun sem miðar að því að auka menntun og þekkingu og efla virðingu fyrir náttúru og umhverfi lands og hafs. Leikskólinn vill stuðla að góðri umgengni og sjálfbærri nýtingu allra auðlinda og vinna gegn hvers konar mengun og umhverfisspjöllum. Leikskólinn fékk fánann afhentan í annað sinn 4. nóvember 2010. Umhverfisstefnu leikskólans ásamt dagbókabrotum má sjá á http://stykkisholmur.is/leikskolinn/umhverfisstefna/

Í október 2006 varð Í október 2006 varð Grunnskólinn í Stykkishólmi „Skóli á grænni grein“. Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö; stofna umhverfisnefnd skólans, meta stöðu umhverfismála í skólanum, gera áætlun um aðgerðir og markmið til umhverfisbóta í skólanum, sinna stöðugu eftirliti og endurmati á umhverfismálum í skólanum, fræða nemendur um umhverfismál, kynna stefnu sína út á við og fá aðra með,setja skólanum formlega umhverfisstefnu. Þegar þessi skref hafa verið stigin geta skólarnir sótt um að fá Grænfánann.

Vorið 2007 afhenti fulltrúi Landverndar yngri deildum grunnskólans Grænfánann við hátíðlega athöfn á Skólastígnum. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Við færslu yngri deildar grunnskólans að Borgarbraut haustið 2009 var ákveðið að sækja að nýju um Grænfánann og við skólaslitin vorið 2010 var skólanum afhentur fáninn að nýju.

Sorpflokkun

Mynd af sveitarfélagi

Flokkun heimilissorps hófst í svokallað þriggjatunnukerfi árið 2008.  Íslenska gámafélagið og Stykkishólmsbær gerðu samning um þessháttar flokkun í desember 2007 og víðtæk kynning átti sér stað í bæjarfélaginu fyrstu daga ársins 2008.  Í janúr 2008 voru öll heimli komin með þrjár sorptunnur. Þannig varð Stykkishólmur fyrsta sveitarfélag landsins til að taka upp almenna sorpflokkun.

Burðarplastpokalaus Stykkishólmur

Mynd af sveitarfélagi
Á undanförnum árum og mánuðum hefur umræða um skaðsemi plasts stóraukist meðal almennings, en plast getur valdið mjög neikvæðum áhrifum á heilsu og umhverfi. Lengi hefur verið vitað um þörf þess að draga úr notkun plasts í heiminum en þróunin hefur því miður verði þveröfug.

Umhverfishópur Stykkishólms fékk í ársbyrjun 2014 styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að ráðast í tilraunaverkefni sem felur í sér að gera Stykkishólm að burðarplastpokalausu sveitarfélagi. Verkefnið er unnið í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands, Landvernd, Umís/Environice og Stykkishólmsbæ. 

Undirbúningur verkefnisins hófst vorið 2014. Hann fól m.a. í sér samráð við verslanaeigendur og Íslenska gámafélagið og leit að mismunandi gerðum poka sem geta leyst burðarplastpokana af hólmi í öllum þeim fjölbreyttu hlutverkum sem slíkir pokar hafa gegnt hingað til, bæði við innkaup og förgun úrgangs. 12. september 2014 var verkefninu ýtt úr vör með kveðjuveislu fyrir plastpokana víða um Stykkishólm. Nánast allir viðkomustaðir í Stykkishólmi sem bjóða upp á þjónustu af einhverju tagi bjóða nú upp á fjölnota burðarpoka undir vörur.