Fara í efni

Bæjarhátíðir

Jónsmessuhátíð á Dönskum dögum

Danskir dagar er bæjarhátíð sem hefur verið haldin í ágústmánuði frá árinu 1994 og er með elstu bæjarhátíðum landsins. Fyrsta bæjarhátíðin var þá hugsuð til að lengja ferðamannatímann en í dag hefur hátíðin hins vegar fest sig í sessi sem einskonar átthagamót Hólmara og brottfluttir eru duglegir að sækja bæinn heim. Danskir dagar minna á dönsk tengsl bæjarins, en fyrr á öldum var verslun í höndum Dana og því hefur löngum verið haldið fram að hér sé töluð danska á sunnudögum. Hátíðin verður hér eftir haldin í lok júní annað hvert ár á móti Norðurljósahátíðinni.

 

Norðurljósahátíð

Menningarhátíðin Norðurljósin var fyrst haldin árið 2010 og hefur verið haldin annað hvert ár síðan. Menningarhátíðin er yfirleitt haldin í október eða nóvember og lífgar upp á dimma vetrardaga þar sem bæjarbúum og gestum gefst tækifæri til að gleðjast saman og njóta menningarviðburða. Hátíðin er að mestu helguð tónlist, leiklist og myndlist.

 

Júlíana – hátíð sögu og bóka

Hátíðin er einstaklingsframtak og var sett á legg 2013. Hún er helguð bókmenntum, inniheldur bókmenntatengda viðburði og er í nánu samstarfi við Grunnskólann í Stykkishólmi. Hátíðin er nefnd eftir Júlíönu Jónsdóttur, skáldkonu sem bjó í Stykkishólmi um tíma og var fyrst íslenskra kvenna til að gefa út skáldrit á Íslandi. Hátíðin er haldin í byrjun árs og mikil aðsókn íslenskra rithöfunda hefur verið á hátíðina.

 

Skeljahátíð

Hátíðin var fyrst haldin 2020. Veitingastaðirnir spila stóra rullu á hátíðinni og kappkosta við að sýna allt það besta sem matarkistan Breiðafjörður hefur uppá að bjóða.

Getum við bætt efni síðunnar?