Fara í efni

Fjarvinna

STAÐSETTU ÞIG Í STYKKISHÓLMI

STÖRF ÁN STAÐSETNINGAR

Stykkishólmur er kjörin staðsetning fyrir þá sem stunda störf án staðsetningar. Bærinn er tilvalinn staður jafnt fyrir fjölskyldufólk og aðra. Félags- og menningarlíf blómstrar. Mikið íþróttastarf er starfrækt í bænum sem þekktur er fyrir árangur sinn í körfubolta. Golfvöllurinn í Stykkishólmi býður upp á einstakt útsýni yfir eyjar Breiðafjarðar. Í og við bæinn er fjöldinn allur af fallegum gönguleiðum um óspillta og töfrandi náttúru sem einkennir Snæfellsnesið.

Sterkir innviðir eru lykilforsenda þeirrar fólksfjölgunar og uppbyggingar sem átt hefur sér stað í Stykkishólmi síðustu ár. Í Stykkishólmi er boðið upp á leikskóla fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Grunnskólaþjónusta er fyllilega samkeppnishæf við það sem best gerist annars staðar. Tónlistarskóli og lúðrasveit hafa lengi spilað lykilhlutverk í menningarsögu bæjarins og fá nemendur skólans ósjaldan tækifæri til að koma opinberlega fram. Framhaldsskóli er í Grundarfirði, sem er í 30 mínútna akstursfjarlægð frá Stykkishólmi. Heilsugæslustöð og sjúkrahús er í Stykkishólmi.

Í Stykkishólmi er starfrækt Bónus lágvöruverslun sem býður sama verð og á höfuðborgarsvæðinu. Í bænum er einnig byggingavöruverslun, líkamsrækt, hárgreiðslustofa, snyrtistofa og hágæða matsölustaðir svo fátt eitt sé nefnt.

Orku- og hitaveitukostnaður er sambærilegur því sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu.

Afþreyingu skortir ekki en í Hólminum er m.a. starfsrækt ungmennafélag, golfklúbbur, Lionsklúbbar, kvenfélag og hestamannafélag. Aðstaða er góð fyrir hestamenn og frístundabændur með sauðfé.

Láttu Hólminn heilla þig.

 

ÁRNASETUR Í STYKKISHÓLMI

                                                         

Skrifstofu- og frumkvöðlasetrið Árnasetur, að Aðalgötu 10 í Stykkishólmi, opnaði þann 24. maí 2021. Nafnið vísar til og heiðrar minningu Árna Helgasonar sem vann á árum sínum mikið frumkvöðlastarf Stykkishólmsbæ til heilla.

Suðureyjar ehf. leigja til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og frumkvöðla snyrtilega starfsaðstöðu að Aðalgötu 10 með aðgang að ljósleiðaratengingu og góðri fundar- og kaffiaðstöðu, Þannig hafa þeir sem þar starfa félagsskap og stuðning hver af öðrum. Húsnæðið mætir t.d. fullkomlega þörfum fyrirtækja og stofnana sem auglýsa störf án staðsetningar.

Í stjórn Suðureyja ehf. eiga sæti Sigþór Einarsson, formaður, Steinunn Helgadóttir og Sigríður Jóhannesdóttir. Fyrirspurnum er beint á netfangið sei@icelease.is

Stykkishólmur

                                         

Getum við bætt efni síðunnar?