Fara í efni

Umsókn um stöðuleyfi

Málsnúmer 2008026

Vakta málsnúmer

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 5. fundur - 03.09.2020

Gestur Hólm f.h. Ýsuheiði ehf sækir um stöðuleyfi dags. 17.08.2020 fyrir timburhúsi á óbyggðum byggingareit við Frúarstíg 1 í Stykkishólmi.
Skv. upplýsingum umsækjanda er húsið 3,33 m x 6,8 m, samtals 22,6 m2. Hæð 2,96 m með sökkli.
Skv. a-, og b-lið, greinar 2.6.1 í byggingarreglugerð er tilgreint að stöðuleyfi skuli sækja um vegna lausafjármuna s.s. hjólhýsa, gáma, báta, torgsöluhúsa, frístundahúsa í smíðum (til flutnings) og stórra samkomutjalda. Þegar um er að ræða mannvirki á lóð sem verður varanlega skeytt við jörðu telst það vera fasteign í skilningi laga og gildir um slíkt önnur málsmeðferð en stöðuleyfi.

Skv. grein 2.3.5 í byggingarreglugerð gilda eftirfarandi reglur um minniháttar framkvæmdir undanþegar byggingarleyfi, enda sé um að ræða framkvæmdir í samræmi við deiliskipulag.

H-liður, viðbyggingar.
Heimilt er að byggja eina viðbyggingu við mannvirki ef viðbygging er innan byggingarreits, flatarmál viðbyggingar er að hámarki 40 m2, viðbyggingin er á einni hæð. Um er að ræða svokallaða tilkynningarskylda framkvæmd.

I-liður, lítið hús á lóð.
Heimilt er að byggja eitt hús s.s. gestahús, bílskúr (viðbygging eða stakstæður), vinnustofu o.þ.h., á lóð þar sem þegar er til staðar íbúðarhús, húsið sé innan byggingarreits, flatarmál að hámarki 40 m2, mesta hæð þaks er 3,5 m frá yfirborði jarðar, auk ákvæða um brunamótstöðu.
Um er að ræða svokallaða tilkynningarskylda framkvæmd.

Í gildi er deiliskipulag fyrir lóðina Frúarstíg 1 sbr. „Stykkishólmur ? Miðbær“, reitur F.
Skv. deiliskipulaginu er óbyggður byggingarreitur á lóðinni, þar sem heimilt er að byggja viðbyggingu á einni hæð, við íbúðarhúsið að Frúarstíg 1. Stærð byggingarreits er um 6 x 9 m, samtals 54 m2.

Skv. skilmálum í greinargerð deiliskipulagsins fyrir reit F, segir um viðbyggingu við Frúarstíg 1, að vegghæð skuli að hámarki vera 3,0 m og mænishæð að hámarki 6m. Ennfremur segir að viðbygging skuli klædd í samræmi við núverandi hús, skuli hafa sama þakhalla og núverandi hús og við gluggasetningu skuli gætt samræmis við núverandi hús.

Í ljósi þess að stöðuleyfi gilda einungis fyrir lausafjármuni af tiltekinni gerð, en gilda ekki fyrir viðbyggingar eða stök hús sem ætlunin er að staðsetja varanlega á lóð er erindi um veitingu stöðuleyfis hafnað.
Er umsækjanda bent á að rétt málsmeðferð vegna erindisins er eftir atvikum byggingarleyfi eða svokölluð tilkynnt framkvæmd, eftir eðli fyrirhugaðra framkvæmda, en uppdrættir af húsinu liggja ekki fyrir með umsókn.
Hinsvegar verður ekki séð að húsið sem óskað hefur verið stöðuleyfis fyrir, sé í samræmi við skilmála deiliskipulags fyrir Frúarstíg 1 og því er ekki mögulegt að veita byggingarleyfi eða leyfi á grundvelli tilkynntrar framkvæmdar.

Erindi hafnað.
Getum við bætt efni síðunnar?