Fara í efni

Tillaga um íbúakosningu vegna útsýnisstaðar í Súgandisey

Málsnúmer 2105008

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 401. fundur - 26.08.2021

Theódóra Matthíasdóttir óskar eftir því að afgreiðsla bæjarráðs um tillögu að íbúakosningu vegna útsýnisstaðar í Súgandisey verði tekin til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Á 627. fundi bæjarráðs var lögð fram tillaga frá Okkar Stykkishólmi þar sem lagt var til að gerð yrði skoðanakönnun eða íbúakosning um fyrirhugaðan útsýnisstað í Súgandisey, Fjöreggið.

Formaður bæjarráðs lagði fram breytingartillögu þar sem talið var að vegna COVID-19 hafi hugsanlega skort á upplýsingagjöf til íbúa vegna verkefnisins og var bæjarstjóra því falið að vekja aftur athygli á verkefninu á heimasíðu bæjarins og þeirri málsmeðferð sem það hefur fengið á vegum bæjarins. Jafnframt var minnt á í breytingartillögunni að bæjarstjórn samþykkti samhljóða vorið 2019 að fela bæjarstjóra að vinna áfram að því að setja útsýnispall á þessum stað þar sem nú er fyrirhugað að setja Fjöregg í samræmi við tillögu umhverfis- og náttúruverndarnefndar. Hefur verkefnið verið í vinnslu frá þeim tíma og fengið tvisvar styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða, samtals nærri 30 millj. kr. styrk til verkefnisins, verið einróma samþykkt í bæjarstjórn og bæjarráði þegar verkefnið hefur komið til afgreiðslu og verið á dagskrá fastanefnda sveitarfélagsins margsinnis á þessum tíma þar sem tekið hefur verið jákvætt í verkefnið eða engar athugasemdir gerðar, þ.m.t. umhverfis- og náttúruverndarnefnd, skipulags- og byggingarnefnd og safna- og menningarmálanefnd. Í þessum nefndum sitja, ásamt aðal- og varamönnum í bæjarstjórn, um 50 íbúar í Stykkishólmi.

Bæjarráð samþykkti breytingartillöguna samhljóða.
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs með fimm atkvæðum L- og H-lista gegn tveimur atkvæðum O-lista.

Til máls tóku:HH,EF,JBJ,LÁH og SIM

Bókun O-lista:
Á 397. fundi bæjarstjórnar Stykkishólms þann 29. mars var tekið fyrir „heildarskipulag áningarsvæðis og útsýnisstaðar í Stykkishólmi".
Lagt var til við bæjarstjórn að „fela bæjarstjóra að setja af stað vinnu við gerð deiliskipulags við Súgandisey ..., ásamt því að hefja undirbúning að útsýnissvæði í samræmi við fyrirliggjandi gögn." Í bókun fulltrúa Okkar Stykkishólms undir þessu máli kemur meðal annars fram: „Undirrituð taka jákvætt í að hafin verði vinna við gerð deiliskipulags fyrir Súgandisey. Hvað varðar undirbúning að útsýnissvæði geta undirrituð ekki tekið afstöðu til einstakra framkvæmda í Súgandisey að svo stöddu þar sem ekki liggur fyrir kostnaðaráætlun.
Undirrituð benda jafnframt á mikilvægi þess að forgangsraða framkvæmdum í Súgandisey samkvæmt deiliskipulagi og setja nauðsynlega innviði, svo sem göngustíga og öryggisrið í forgang.“
Í kjölfar mikillar umræðu um Fjöreggið í samfélaginu, lögðu fulltrúar Okkar Stykkshólms fram eftirfarandi tillögu á bæjarráðsfundi nr. 627 þann 6. maí.
„Fulltrúar Okkar Stykkishólms leggja til að gerð verði skoðanakönnun eða íbúakosning um fyrirhugaðan útsýnisstað í Súgandisey (Eggið)?.
Tillagan var ekki samþykkt. Í stað þess samþykkti bæjarráð breytingartillögu þar sem bæjarstjóra var falið að kynna hugmyndina betur fyrir bæjarbúum. Í afgreiðslu bæjarráðs kemur fram að verkefnið hafi verið einróma samþykkt þegar það hafi verið tekið til afgreiðslu í bæjarstjórn. Með vísan í bókun fulltrúa Okkar Stykkishólms á bæjarstjórnarfundi nr. 397, sem sjá má hér að ofan, stenst sú fullyrðing ekki.
Bæjarstjóri fullyrti auk þess að kostnaðaráætlun fyrir verkefnið hafi þegar verið kynnt en einungis hefur verið birt frumkostnaðaráætlun. Ómögulegt er að taka afstöðu til verkefnisins byggða á þeim forsendum.
Undirrituð telja að dregist hafi úr hófi að taka afgreiðslu bæjarráðs fyrir í bæjarstjórn. Í verkefnum sem þessum er mikilvægt að bæjarfulltrúar leiti þeirra leiða sem meirihluti íbúa eru sáttir við.

Okkar Stykkishólmur,
Haukur Garðarsson
Erla Friðriksson
Getum við bætt efni síðunnar?