Fara í efni

Reitarvegur 8 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 2009050

Vakta málsnúmer

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 8. fundur - 28.10.2020

Húsfélagið að Reitarvegi 8 sækir um heimild til að breyta nýtingu hússins í íbúðir.

Lóðin að Reitarvegi 8 er iðnaðar- og athafnalóð og skv. þinglýstum lóðarleigusamningi er stærð hennar tilgreind 2.183,8 m2.
Skv. gildandi deiliskipulagi fyrir Reitarveg 8 er lóðin 2.195m2 að stærð.
Í gildi er þinglýstur lóðarleigusamningur frá árinu 2018 og þinglýst eignaskiptayfirlýsing frá árinu 1986.

Á lóðinni eru 6 matshlutar þ.e. 01, 02, 03, 04, 05 og 06 og eru allir skráðir sem vörugeymsla. Sjö fasteignir eru á lóðinni, hver með sitt fasteignanúmer, en á matshluta 01, eru tvær fasteignir vegna kjallara í suðvesturenda.
Húsið skiptist í hæð og ris, þar sem hver eignarhluti hefur sér inngang, en í suðvestur enda er kjallari sem aðeins er innangengt í utanfrá.
Útveggir og plötur eru úr steinsteypu, útveggir pússaðir en gaflar klæddir báruklæðningu. Þak er mænisþak með hefðbundinni uppbyggingu ofaná sperrur. Húsið er að mestu óeinangrað. Innveggir milli eignarhluta eru flestir steyptir, nema tveir. Byggðir hafa verið kvistir á húsið skv. síðustu samþykktu aðaluppdráttum.

Sótt er um heimild til að breyta nýtingu hússins í íbúðir. Útveggir verða einangraðir að innanverðu og þak einangrað. Einnig er sótt um breytingar á útliti hússins þ.e. breytingu á glugga- og hurðasetningu.
Þrjár óháðar flóttaleiðir eru frá hverri íbúð, af efri hæð er flóttaleið annarsvegar út á svalir og hins vegar niður stiga. Tvær flóttaleiðir eru frá neðri hæðum íbúða þ.e. um aðalhurð og svalahurð. Gengið verður frá lóð með 12 bílastæðum framan við hús.
Með erindinu fylgdu aðaluppdrættir útgefnir dags. 25.09.2020 frá Glámu Kím arkitektum og fjalla þeir um alla ytri skel hússins og eina af íbúðum hússins, íbúð 0102, en gerð verður grein fyrir öðrum íbúðum hússins af öðrum hönnuði og falla þær íbúðir undir hans ábyrgð.

Skv. skráningartöflu sem fylgdi aðaluppdráttum er flatarmál hússins 1.133 m2 að stærð og 3.401,9 m3 að brúttórúmmáli. Matshlutum hússins verður fækkað úr 6 í 1 og verður húsið allt matshluti 01. Í skráningartöflu er skráning eigna 0102 gerð skv. teikningum Glámu Kím arkitekta dags. 25.09.2020, en skráning annarra eigna í matshlutanum er gerð skv. teikningum Rerum dags. 24.06.2020.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Reitarveg 8 kemur fram að möguleiki sé að breyta notkun á lóðinni fyrir fjölbýlishús með 6 íbúðum eða í hreinlega atvinnustarfsemi á neðri hæð og íbúðir á efri hæð. Ef breyting verður á notkun, gildir breytingin fyrir alla lóðina og allar einingar hússins skilgreindar eins, þó mismunandi skilgreind hrein atvinnustarfsemi sé á neðri hæðum hússins.
Um er að ræða framkvæmd sem er í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins og því er ekki þörf á að leita samþykkis skipulagsnefndar vegna málsins sbr. grein 2.3.4, kafla 2.3 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Skv. c-lið greinar 2.4.1 í byggingarreglugerð skal með umsókn um byggingarleyfi leggja fram samþykki meðeiganda hússins.
Skv. 27. grein fjöleignahúsalaga nr. 26/1994 þurfa allir eigendur að samþykkja breytingar á hagnýtingu séreignar.

Í gildi er þinglýst eignaskiptayfirlýsing frá 1986 þar sem kemur fram prósentuskipting / hlutfallstölur eigna í húsinu. Þessi eignaskiptayfirlýsing er komin til ára sinna og gefur ekki glögga mynd af réttum hlutfallstölum í húsinu. Gera þarf grein fyrir réttum hlutfallstölum í húsinu með nýrri eignaskiptayfirlýsingu. Þó er rétt að geta þess að skv. 5. grein reglugerðar nr. 910/2000 „um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna ofl. í fjöleignahúsum", eru einföld fjöleignahús svo sem samtengd raðhús, undanþegin gerð eignaskiptayfirlýsingar, þegar skipting húss og réttarstaða eigenda liggur ljós fyrir.

Byggingaráform samþykkt með fyrirvara um að lögð verði fram hjá byggingarfulltrúa, yfirlýsing meðeigenda hússins um samþykki vegna fyrirhugaðra framkvæmda svo sem varðandi breytingar hússins, skráningum í Þjóðskrá (fækkun matshluta) og að gerð verði ný eignaskiptayfirlýsing.
Einnig þarf að breyta skráningum um stærð lóðar í lóðarleigusamningi og hjá Þjóðskrá Íslands.

Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.

Byggingarleyfi verður gefið út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4 í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum og að uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
Getum við bætt efni síðunnar?