Fara í efni

Sjávarútvegsstefna og frumvarp til laga um sjávarútveg

Málsnúmer 2312008

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 20. fundur - 14.12.2023

Lögð fram drög að tillögu til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu, drög að frumvarpi til laga um sjávarútveg og tillögur um útfærslu á innviðaleið, ásamt minnisblaði um skel- og rækjubætur, en eitt af nýmælum frumvarpsins er að skel- og rækjubætur verði skertar um 25% á ári á 4 ára tímabili og úthlutun bóta verði hætt 31. desember 2028.
Bæjarstjórn Stykkishólms hefur ávallt lagt þunga áherslu á mikilvægi skelbóta fyrir atvinnulífið í Stykkishólmi og þar með samfélagið í heild. Það blasir við að um er að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir atvinnulífið og fyrirtækin öll sem reka útgerð og fiskvinnslu í Stykkishólmi og nýta þær aflaheimildir sem hafa fylgt skelbótunum. Með þessum áformum sem felast í frumvarpinu er með tiltölulega litlum fyrirvara gert ráð fyrir að svipta skelútgerðir aflaheimildum og þar með skerða varanlega rekstrargrundvöll fyrirtækjanna. Sjávarútvegur hefur um árabil verið hryggjarstykkið í atvinnulífi Stykkishólms og stærsti hluti núverandi útsvarstekna sveitarfélagsins koma frá fyrirtækjum sem byggja rekstrargrunn sinn á skelbótum. Í Stykkishólmi hafa skelbætur þannig skipt sköpum fyrir byggðafestu og með því skerða varanlega rekstrargrundvöll handhafa skelbóta með þeim hætti sem lagt er til með frumvarpinu er á sama tíma verið að skerða varanlega rekstrargrundvöll sveitarfélagsins og þar með samfélagsins í Stykkishólmi. Bæjarstjórn leggur því þunga áherslu á mikilvægi þess að fallið verði frá þeim áformum sem frumvarpið felur í sér hvað varðandi skelbætur.

Vert er að minna á það að ákvörðun um skelbæturnar var byggð á þeirri staðreynd að útgerðarfyrirtækin sem fengu skelbætur þegar skelin hætti að veiðast höfðu verið látin skila inn aflaheimildum í bolfiski á móti aflaheimildunum í hörpudiski þegar kvótakerfið var lögfest. Þær aflaheimildir í bolfiski sem skelbátarnir skiluðu inn gengu inn í heildar aflamarks pottinn. Niðurfelling skelbótanna er því hrein eigna upptaka verði hún að veruleika. Þá er vert að minna á að skelbæturnar voru 2190 tonn þegar úthlutun þeirra hófst árið 2003 en hefur verið skorin verulega niður á tímabilinu og eru fyrir núverandi fiskveiðiár 1008 tonn.

Til máls tóku:HH og LÁH

Bæjarráð - 23. fundur - 20.06.2024

Sturla Böðvarsson og Eggert Halldórsson koma inn á fund
Lögð fram gögn vegna skel- og rækjubóta og stöðu þeirra mála sem tengjast tillögum sem settar eru fram í skýrslunni Auðlindin okkar-Sjálfbær sjávarútvegur og eru til meðferðar hjá matvælaráðuneytinu. Á fund bæjarráðs koma fulltrúar þeirra útgerða sem hafa aflaheimildir til veiða á hörpudiski í Breiðafirði til að fylgja málinu eftir.
Bæjarráð minnir á að bæjarstjórn Stykkishólms hafur ávallt lagt þunga áherslu á mikilvægi skelbóta fyrir atvinnulífið í Stykkishólmi og þar með samfélagið í heild. Bæjarráð vísar til fyrri ályktana bæjarstjórnar þess efnis, síðast á bæjarstjórnarfundi 15. desember 2023.

Bæjarráð vill taka fram að talsmenn útgerða við Breiðafjörð, sem hafa nýtt skelbætur, hafa sent forsætisráðherra og matvælaráðherra erindi um að fyrirtækin fái fulla heimild til þess að nýta skelbæturnar áfram svo sem verið hefur. Jafnframt hafa talsmenn fyrirtækjanna sent inn lögfræðiálit sem sýnir með skýrum hætti að verði skelbætur felldar niður bóta laust er um eignaupptöku að ræða. Í því sambandi ítrekar bæjarráð afstöðu sveitarfélagsins að verði skelbæturnar felldar niður mun það skaða mjög starfsemi fyrirtækja í Stykkishólmi sem fara með 82.85% skelbótanna. Mundi það valda miklum samdrætti í atvinnulífinu í Stykkishólmi sem er með öllu óásættanlegt.

Bæjarráð hvetur matvælaráðherra og þingmenn kjördæmisins til þess að leita allra leiða til þess að tryggja að skelbæturnar verði veittar áfram eða gerðar upp með því að fyrirtækin fái sinn hlut í skelbótunum og geti nýtt hann við veiðar á bolfiski svo sem verið hefur.
Sturla Böðvarsson og Eggert Halldórsson fóru af fundi.

Bæjarstjórn - 26. fundur - 27.06.2024

Lögð fram gögn vegna skel- og rækjubóta og stöðu þeirra mála sem tengjast tillögum sem settar eru fram í skýrslunni Auðlindin okkar-Sjálfbær sjávarútvegur og eru til meðferðar hjá matvælaráðuneytinu.Lögð fram til staðfesting í bæjarstjórn eftirfarandi ályktun 23. fundar bæjarráðs:Bæjarráð minnir á að bæjarstjórn Stykkishólms hafur ávallt lagt þunga áherslu á mikilvægi skelbóta fyrir atvinnulífið í Stykkishólmi og þar með samfélagið í heild. Bæjarráð vísar til fyrri ályktana bæjarstjórnar þess efnis, síðast á bæjarstjórnarfundi 15. desember 2023.Bæjarráð vill taka fram að talsmenn útgerða við Breiðafjörð, sem hafa nýtt skelbætur, hafa sent forsætisráðherra og matvælaráðherra erindi um að fyrirtækin fái fulla heimild til þess að nýta skelbæturnar áfram svo sem verið hefur. Jafnframt hafa talsmenn fyrirtækjanna sent inn lögfræðiálit sem sýnir með skýrum hætti að verði skelbætur felldar niður bóta laust er um eignaupptöku að ræða. Í því sambandi ítrekar bæjarráð afstöðu sveitarfélagsins að verði skelbæturnar felldar niður mun það skaða mjög starfsemi fyrirtækja í Stykkishólmi sem fara með 82.85% skelbótanna. Mundi það valda miklum samdrætti í atvinnulífinu í Stykkishólmi sem er með öllu óásættanlegt.Bæjarráð hvetur matvælaráðherra og þingmenn kjördæmisins til þess að leita allra leiða til þess að tryggja að skelbæturnar verði veittar áfram eða gerðar upp með því að fyrirtækin fái sinn hlut í skelbótunum og geti nýtt hann við veiðar á bolfiski svo sem verið hefur.
Bæjarstjórn staðfestir ályktun bæjarráðs og leggur þunga áherslu á mikilvægi málsins.
Getum við bætt efni síðunnar?