Fara í efni

Hættuástand þjóðvega á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2502019

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 30. fundur - 20.02.2025

Bágborið ástand þjóðvega á Snæfellsnesi tekið til umræðu og lagt fram minnisblað bæjarstjóra. Einnig er lagt fram erindi sveitarstjórna á Vesturlandi til forsætisráðherra þar sem óskað er eftir neyðarfundi og skipan viðbragðshóps vegna ástandsins.
Með vísan til fyrirliggjandi gagna felur bæjarráð bæjarstjóra að fylgja málinu fast eftir.

Bæjarstjórn - 33. fundur - 27.02.2025

Bágborið ástand þjóðvega á Snæfellsnesi tekið til umræðu og lagt fram minnisblað bæjarstjóra. Einnig er lagt fram erindi sveitarstjórna á Vesturlandi til forsætisráðherra þar sem óskað er eftir neyðarfundi og skipan viðbragðshóps vegna ástandsins.



Með vísan til fyrirliggjandi gagna fól bæjarráð, á 30. fundi sínum, bæjarstjóra að fylgja málinu fast eftir.



Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu bæjarráð og samþykkir samhljóða neðangreinda ályktun:

Bæjarstjórn Stykkishólms ítrekar að viðhald og ástand Snæfellsnesvegar nr. 54, Stykkishólmsvegar nr. 58 og Vestfjarðarvegar nr. 60 er langt frá því að vera boðlegt. Sveitarfélögin á Vesturlandi hafa ítrekað rætt við stjórnvöld vegamála um afar slæmt ástand vega á Vesturlandi og þá sérstaklega á Snæfellsnesvegi 54, Stykkishólmsvegi 58 og Vestfjarðarvegi 60 um Dalabyggð. Þrátt fyrir kröfur um úrbætur hefur lítið sem ekkert gerst.

Um langt skeið hafa vegirnir verið holóttir og yfirborð óslétt sem hefur leitt til þess að Vegagerðin hefur sett upp tilmæli um lækkun hámarkshraða niður í 70 eða jafnvel 50 á ákveðnum stöðum. Undanfarið hafa miklar bikblæðingar bætt gráu ofan á svart og Vegagerðin lýst yfir neyðarástandi vegna stöðunnar. Vegirnir eru hættulegir og bikblæðingarnar hafa leitt til þess að fjöldi íbúa sem þurfa að fara um þessa vegi hafa orðið fyrir tjóni. Sama má segja um fjölmarga flutningabíla.

Bæjarstjórn bendir á að íbúar búi í raun við skert athafna- og ferðafrelsi á Snæfellsnesi og í Dölum í ljósi stöðunnar, sem er algjörlega óviðunandi ástand. Þá er óboðleg sú staða sem birtist í upphaflegum drögum að samgönguáætlun þar sem Vesturland er skilið eftir hvað varðar fjárveitingar til stofnvega. Við þessu þarf að bregðast strax og leiðrétta þann mismun sem þar birtist.
Bæjarstjórn bendir einnig á að núverandi verðskrá Breiðafjarðarferjunnar Baldurs vinnur ekki að því að minnka umferð um bágborna og holótta vegi á Vestfjörðum og Vesturlandi heldur þvert á móti, en ólíkt því sem áður var er nú óhagstæðara fyrir flutningsaðila að nota ferjuna en að keyra flutningabíla með tengivagn landleiðina. Þessu fylgir einfaldlega meira slit á ónýtum vegum af völdum þungaflutninga. Bæjarstjórn bendir á að nauðsynlegt sé því að endurskoða verðskrá vegna flutningabíla í ferjunni til þess að minnka álag og slit á vegum.

Bæjarstjórn lýsir því yfir að það ríkir neyðar- og ófremdarástand á ofangreindum vegum sem getur ekki beðið eftir nýrri samgönguáætlun. Nauðsynlegt sé að ráðast í verulegar endurbætur á þessum vegum strax. Bæjarstjórn krefst þess, í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er, að nú þegar verði veitt fjármagni til að hefja megi endurbætur og uppbygginu á framangreindum vegum þannig að hefja megi framkvæmdir á árinu 2025.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd (SH) - 5. fundur - 10.04.2025

Bágborið ástand þjóðvega á Snæfellsnesi tekið fyrir á 33. fundi bæjarstjórnar, 27. febrúar sl. Lögð er fram ályktun bæjarstjórnar vegna hættuástands þjóðvega á Snæfellsnesi.
Lagt fram til kynningar.
Getum við bætt efni síðunnar?