Fara í efni

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd (SH)

5. fundur 10. apríl 2025 kl. 16:30 í fundarsal á 3. hæð
Nefndarmenn
  • Ásmundur Sigurjón Guðmundsson formaður
  • Böðvar Sturluson aðalmaður
  • Lárus Ástmar Hannesson (LÁH) aðalmaður
  • Theódóra Matthíasdóttir aðalmaður
  • Viktoría Líf Ingibergsdóttir aðalmaður
  • Arnar Geir Diego Ævarsson aðalmaður
  • Heiðrún Höskuldsdóttir (HHÖ)
Fundargerð ritaði: Ásmundur S. Guðmundsson formaður
Dagskrá

1.Hættuástand þjóðvega á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2502019Vakta málsnúmer

Bágborið ástand þjóðvega á Snæfellsnesi tekið fyrir á 33. fundi bæjarstjórnar, 27. febrúar sl. Lögð er fram ályktun bæjarstjórnar vegna hættuástands þjóðvega á Snæfellsnesi.
Lagt fram til kynningar.

2.Agustsonreitur - skipulagsbreyting

Málsnúmer 2302009Vakta málsnúmer

Lagðar eru fram umsagnir og athugasemdir eftir kynningu vinnslutillögu fyrir Agustsonreit. Vinnslutillaga aðalskipulagsbreytingar í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga og deiliskipulagstillögu í samræmi við 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga, var í kynningu frá 7. febrúar til og með 7. mars sl. Tillögur bárust frá lögbundnum umsagnaraðilum og frá íbúum í nágrenni skipulagssvæðisins. Athugasemdir og umsagnir og drög að svörum voru kynntar fyrir nefndarmönnum skipulagsnefndar á 28. fundi nefndarinnar.
Lagt fram til kynningar.

3.Kallhamar og Hamraendar - Skipulagsáætlanir (ASK br. og DSK)

Málsnúmer 2206035Vakta málsnúmer

Lögð fram skipulagsgögn vegna vinnu við ný deiliskipulög fyrir Kallhamar og Hamraenda. Skipulagsnefnd óskaði, á 25. fundi sínum, eftir því að skipulagshönnuður og VSÓ ráðgjöf ljúki við skipulagsgögn, þ.m.t. greinargerð og umhverfisskýrslu, í samræmi við umræður á fundinum. Bæjarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á 27. fundi sínum. Skipulagshönnuður kom til fundar og gerði grein fyrir fyrirliggjandi vinnu skipulagshönnuðar og VSÓ á 26. fundi skipulagsnefndar. Nefndin taldi þær áherslur sem fram komu í þeim gögnum sem lágu fyrir fundinum og þau áform sem kynnt voru fyrir nefndinni í samræmi við áherslur nefndarinnar. Lögð eru fram uppfærð skipulagsgögn, í samræmi við framangreint. Skipulagsnefnd samþykkti, á 27. fundi sínum, að kynna fyrirliggjandi vinnslutillögur að deiliskipulagi fyrir annars vegar Hamraenda og hins vegar Kallhamar, sbr. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga, samhliða því að kynnt verði vinnslutillaga að breytingu á Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 vegna stækkunar athafnarsvæðis við Hamraenda og grænna iðngarða við Kallhamar, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga Bæjarráð staðfesti, á 30. fundi sínum, afgreiðslu skipulagsnefndar og vísaði málinu til afgreiðslu í bæjarstjórn.



Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að kynna fyrirliggjandi vinnslutillögur að deiliskipulagi fyrir annars vegar Hamraenda og hins vegar Kallhamar, sbr. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga, samhliða því að kynnt verði vinnslutillaga að breytingu á Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 vegna stækkunar athafnarsvæðis við Hamraenda og grænna iðngarða við Kallhamar, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga.
Lagt fram til kynningar.

4.Breiðafjarðarferjan Baldur

Málsnúmer 2011013Vakta málsnúmer

Lögð fram niðurstaða í útboði Vegagerðarinnar um rekstur Breiðafjarðarferju 2025-2028.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd bíður nýjan rekstraraðila velkominn í Stykkishólms og óskar honum velfarnaðar við rekstur ferjunnar, enda skiptir það samfélagið hér höfuðmáli að vel takist til við rekstur ferjunnar. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd hvetur til þess að rekstur Særúnar haldi áfram í Stykkishólmi, enda verið burðarstoð í ferðaþjónustu í Stykkishólmi um áratugaskeið.

Atvinnu og nýsköpunarnefnd vill beina því til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Vegaerðarinnar að nauðsynlegt sé að ríkið fjárfesti í þjónustuaðstöðu í Stykkishólmshöfn í tengslum við starfsemi ferjunnar. Slík aðstaða í Stykkishólmshöfn er nauðsynleg til að tryggja samfellu í þjónustu og myndi hún fylgja með í útboði ríkisins hverju sinni.

5.Frumvarp til laga um sýslumann

Málsnúmer 2504002Vakta málsnúmer

Lagt fram frumvarp til laga um sýslumann sem er til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Í frumvarpinu er lagt til að landið verði gert að einu þjónustuumdæmi. Markmiðið með sameiningu má í grófum dráttum flokka í þrennt. Í fyrsta lagi að gera þjónustu við almenning eins góða og hægt er. Í öðru lagi að hámarka nýtingu þess fjármagns sem ráðstafað er til reksturs sýslumanns og verkefna hans. Í þriðja lagi að vinna markvisst að þeim markmiðum sem stefnt er að í byggðaáætlun og stefnuáherslu ríkisstjórnar, þar á meðal að efla og standa vörð um grunnþjónustu hins opinbera.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd hefur áhyggjur af því að störf muni með tímanum sogast á höfuðborgarsvæðið eins og sagan hefur margoft sýnt. Í ljósi þess vantraust sem ríkir í þessum efnum treystir atvinnu- og nýsköpunarnefnd sér ekki til þess að styðja við frumvarið.

6.Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjald

Málsnúmer 2504003Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018 (Mál nr. S-62/2025), sem atvinnuvegaráðuneyti kynnti til samráðs og umsagnar 25. mars til 3. apríl 2025, ásamt umsögn sveitarfélagsins. Þá eru lögð fram umsögn stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga við drög að frumvarpi um breytingar á veiðigjaldi, en með umsögninni er einnig samantekt gagna frá KPMG og bókun stjórnar, ásamt umsögn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.
Atvinnumálanefnd staðfestir umsögn sveitarfélagsins.

Samþykkt með þremur atkvæðum Ásmundar Sigurjóns Guðmundssonar, Arnars Geirs Diego Ævarssonar og Viktoríu Líf Ingibergsdóttir, fulltrúa H-listans.

Lárus Ástmar Hannesson og Heiðrún Höskuldsdóttir, fulltrúar Í-listans, sitja hjá við afgreiðslu málsins.


Bókun fulltrúa Í-lista:
Á Íslandi eru öflugar útgerðir sem er stjórnað af metnaði og framsýni. Rekstrarniðurstaða útgerðanna sýnir að svo er. Eigið fé hefur aukist verulega, hagnaður er mikill og eigendur hafa getað greitt út arð af starfseminni auk þess að fjárfesta í óskildri starfsemi sem er hvorutveggja jákvætt. Til að reka samfélag þarf tekjur. Mikil umræða hefur verið undanfarin ár um arð af auðlindum þjóðarinnar til eigenda. Við teljum það sjálfsagða og jákvæða þróun að stjórnvöld stefni á að innheimta aukin og sanngjarnan arð af auðlindum og styðjum því þessar fyrirætlanir. Þessi aðgerð er liður í því að aukin sátt verði um þessa mikilvægu starfsemi. Við teljum það einnig mjög jákvætt að fyrirhugað er að nýta þetta aukna fjármagn til uppbyggingar á innviðum svo sem vegakerfi landsins og er ekki vanþörf á.
Lárus Ástmar Hannesson
Heiðrún Höskuldsdóttir

7.Staða háls- og bakdeildar í Stykkishólmi

Málsnúmer 2504007Vakta málsnúmer

Á St.Franciskusspítala í Stykkishólmi er starfrækt háls- og bakdeild sem annast greiningu og meðferð háls- og bakvandamála og þjónustar allt landið, en á deildinni starfa, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingur og aðrir starfsmenn. Um er að ræða mikilvæga þjónustu fyrir landsmenn alla og þar með gegnir deildin þýðingarmiklu þjóðhagslegu hlutverki, ásamt því að vera mikilvægur vinnustaður í Stykkishólmi. Í ljósi mikilvægi deildarinnar fyrir land og þjóð er nauðsynlegt að tryggja deildinni viðeigandi aðbúnað og fjármuni þannig að deildin geti oxið og dafnað landinu til heilla.
Atvinnumálanefnd leggur til við bæjarráð að haldinn verði sameiginlegur fundur atvinnumálanefndar og bæjarráðs með stjórnendum háls- og bakdeildar í Stykkishólmi þar sem farið verður yfir stöðu deildarinnar í Stykkishólmi og þá framtíðarmöguleika sem deildin hefur til eflingar og vaxtar.

8.Ríkisstörf í Stykkishólmi

Málsnúmer 2411031Vakta málsnúmer

Störf á vegum ríkisins í Stykkishólmi voru tekin til umræðu á 4. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd krafðist þess að ríkið standi vörð um störf á vegum ríkisins í Stykkishólmi en þeim hefur fækkað á síðustu 10 árum þrátt fyrir að ríkisstörfum hafi fjölgað á Vesturlandi sem og á landsvísu. Nefndin taldi ljóst að ríkið hafi ekki staðið sig sem skyldi í að fjölga ríkisstörfum á landsbyggðinni, a.m.k. ekki í Stykkishólmi. Vísaði nefndin að öðru leyti til fyrri ályktana og umsagna sveitarfélagsins vegna þessa. Bæjarstjórn staðfesti, 30. fundi sínum, afgreiðslu atvinnu- og nýsköpunarnefndar.



Til fundar við atvinnu- og nýsköpunarnefnd mæta Páll S. Bryjanrsson og Vífill Karlsson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi til að ræða þróun starfa á vegum ríkisins í sveitarfélaginu.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd minnir enn og aftur á að meðan að íbúum hefur fjölgað umtalsvert í Stykkishólmi á síðustu 10 árum meðan hefur ríkisstörfum fækkað á sama tíma. Atvinnu- og nýsköpurnarnefnd telur brýnt að snúa þessari þróun við án tafar. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd vísar að öðru leyti til fyrri ályktana um málið.

9.Stykkishólmur í sókn - Efling atvinnulífs í Stykkishólmi

Málsnúmer 2107012Vakta málsnúmer

Lagt fram skilabréf starfshóps um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi ásamt lokaskýrslu þar sem tíundaðar eru tillögur hópsins atvinnulífi í Stykkishólmi til framdráttar. Á 4. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar benti nefndin á að starfshópur um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi skilaði af sér skýrslu árið 2022. Þar sem m.a. er lögð áhersla á frekari nýtingu svæðisbundinna náttúruauðlinda á sjálfbæran hátt og það verði gert með því að efla rannsóknir á lífríki sjávar. Til þess verði stofnað Þekkingar- og rannsóknarsetur við Breiðafjörð sem hafi það að meginmarkmiði að stuðla að auknu klasasamstarfi einstaklinga, atvinnulífs, stofnana og opinberra aðila þannig að stuðla megi að jákvæðri samfélags- og byggðaþróun á svæðinu, byggða á svæðisbundnum styrkleikum. Í sama streng tekur stýrihópur um framtíð verndarsvæðis Breiðafjarðar í skýrslu frá júní 2024. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd fagnaði stuðningi Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við verkefnið og lagði áherslu á mikilvægi þess að það verði stofnað á vormánuðum 2025 í samræmi við stuðning ráðuneytisins þar um. Bæjarstjórn staðfesti, á 30. fundi sínum, afgreiðslu atvinnu- og nýsköpunarnefndar.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd þakkar verkefnastjóra fyrir greinargóða kynningu og hvetur til þess að þekkingarnetið verði stofnað á þessu ári.

10.Efling Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) í Stykkishólmi - Skipulag og mönnun heilsugæslu- og bráðaþjónustu HVE á svæðinu

Málsnúmer 2208031Vakta málsnúmer

Á 2. fundi bæjarráðs sveitarfélagsins var lagður fram tölvupóstur frá forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands þar sem greint er frá áhyggjum af mönnun yfirlæknisstöðu heilsugæslusviðs á Snæfellsnesi, en ekki bárust umsóknir í stöðuna sem var auglýst í tvígang árið 2020. Á fundinum lagði bæjarráð áhrslu á mikilvægi þess að auglýst sé eftir yfirlækni til starfa við heilsugæsluna og sjúkrahúsið í Stykkishólmi og í framhaldi af því eða á sama tíma séu auglýstar stöður heimilislækna með starfstöðvar í öðrum þéttbýliskjörnum á Snæfellsnesi. Ljóst er að sífellt erfiðara er að manna stöður heilbrigðisstarfsfólks, m.a. stöðu lækna og hjúkrunarfræðinga, og í því ljósi er mikilvægt að fara yfir stöðu á skipulagi og mönnun heilsugæslu- og bráðaþjónustu á starfssvæði HVE á svæðinu. Þá er að nýju lögð fram tillaga að eflingu HVE í Stykkishólmi.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd leggur til við bæjarráð að óskað verði eftir sameiginlegum fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar, velferðar- og jafnréttismálanefndar og bæjarráðs með forstjóra HVE varðandi stöðu á skipulagi og mönnun heilsugæslu- og bráðaþjónustu svæðinu, þ.m.t. stöðu á ráðningu yfirlæknis til starfa við heilsugæsluna og sjúkrahúsið í Stykkishólmi.

11.Löndunarþjónusta í Stykkishólmshöfn

Málsnúmer 2504011Vakta málsnúmer

Tekið til umræðu staða löndunarþjónustu við Stykkishólmshöfn í sumar.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd leggur áherslu á mikilvægi löndunarþjónustu fyrir atvinnulífið í Stykkishólmi og hvetur hlutaaðeigandi til að leita allra leiða til þess að tryggja áfram þá þjónustu í Stykkishólmshöfn.

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?