Fara í efni

Bæjarstjórn krefst aðgerða af hálfu innviðaráðherra vegna skelbóta

27.11.2025
Fréttir

Á 42. fundi bæjarstjórnar Stykkishólms 27. nóvember 2025 voru lögð fram gögn vegna skel- og rækjubóta og stöðu þeirra mála. Einnig voru lagðar fram ályktanir 23. fundar bæjarráðs frá 20. júní 2024 og 26. fundar bæjarstjórnar frá 27. júní 2024 þar sem minnt var á að bæjarstjórn Stykkishólms hafur ávallt lagt þunga áherslu á mikilvægi skelbóta fyrir atvinnulífið í Stykkishólmi og þar með samfélagið í heild. Í því sambandi var vísað til fyrri ályktana bæjarstjórnar.

Ráðherra og þingmenn hvattir til að leita allra leiða

Í fyrrnefndum ályktunum var tekið fram að talsmenn útgerða við Breiðafjörð, sem hafa nýtt skelbætur, hafi sent forsætisráðherra og matvælaráðherra erindi um að fyrirtækin fái fulla heimild til þess að nýta skelbæturnar áfram svo sem verið hefur. Jafnframt hafi talsmenn fyrirtækjanna sent inn lögfræðiálit sem sýnir með skýrum hætti að verði skelbætur felldar niður bótalaust er um eignaupptöku að ræða. Í því sambandi var ítrekuð afstaða sveitarfélagsins að verði skelbæturnar felldar niður muni það skaða mjög starfsemi fyrirtækja í Stykkishólmi sem fara með 82.85% skelbótanna og valda miklum samdrætti í atvinnulífinu í Stykkishólmi sem er með öllu óásættanlegt. Matvælaráðherra og þingmenn kjördæmisins voru að lokum hvattir til þess að leita allra leiða til þess að tryggja að skelbæturnar verði veittar áfram eða gerðar upp með því að fyrirtækin fái sinn hlut í skelbótunum og geti nýtt hann við veiðar á bolfiski svo sem verið hefur.

Á 28. fundi sínum ítrekaði bæjarstjórn Stykkishólms fyrri ályktanir og lagði þunga áherslu á mikilvægi þess að sanngjörn og farsæl niðurstaða fáist í þetta mikilvæga mál sem fyrst.

„Óásættanlegt að málið hafi dregist svo lengi“

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd tók, á 4. fundi sínum, undir ályktun bæjarstjórnar Stykkishólms um að skelbætur verði veittar áfram.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd ítrekaði jafnframt áherslu sína með að handhafar skelbóta fái í stað bótanna varanlegan nýtingarrétt í aflahlutdeild sem verði án framsalsréttar og krafa um veiðar og vinnslu bundin við þá staði við Breiðafjörð þar sem veiðarnar fóru fram á sínum tíma, í samræmi við tillögu 3.1.6. í niðurstöðu starfshóps um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi, dags. 17. mars 2022.

Á 6. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar ítrekaði nefndin fyrri afstöðu sína og bæjarstjórnar um að skelbætur séu ein af grunnstoðum atvinnulífs og byggðafestu í Stykkishólmi og verði áfram veittar fyrirtækjum við Breiðafjörð og að handhafar skelbóta fái í stað bótanna varanlegan nýtingarrétt í aflahlutdeild sem verði án framsalsréttar og krafa um veiðar og vinnslu bundin við þá staði við Breiðafjörð þar sem veiðarnar fóru fram á sínum tíma. Nefndin hafnaði alfarið öllum áformum um að skelbætur verði skertar eða lagðar niður, enda væri slíkt verulega skaðlegt fyrir atvinnulíf sveitarfélagsins, tekjur þess og samfélagið í heild.

Tugir starfa í húfi

Nefndin lýsti alvarlegum áhyggjum af því að reglugerð um skelbætur hefur enn ekki verið gefin út og telur óásættanlegt að málið hafi dregist svo lengi. Þá benti nefndin á að ráðherra hefur ekki átt samráð við sveitarfélagið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, þótt um sé að ræða eitt mikilvægasta byggðamál sem snertir sveitarfélagið, þar sem tugir starfa eru í húfi.

Nefndin áréttaði að þingmenn kjördæmisins, og sérstaklega ráðherra sem jafnframt er þingmaður Norðvesturkjördæmis, verði að standa vörð um hagsmuni samfélagsins í Stykkishólmi og láta sig málið varða. Ef ætlunin er, eins og framganga ríkisins gefur sterklega til kynna, að fella skelbæturnar niður, verður ráðherra að horfast í augu við alvarleika þeirrar ákvörðunar. Það er óhugsandi og í raun algjörlega óásættanlegt að slík aðgerð yrði framkvæmd á ráðherravakt þingmanns kjördæmisins.

Nefndin skoraði á innviðaráðherra, sem fer með málaflokkinn, og þingmenn kjördæmisins að bregðast tafarlaust við, tryggja útgáfu reglugerðar án frekari tafa og vinna að farsælli og sanngjarnri niðurstöðu sem tryggir að skelbætur haldist áfram í Stykkishólmi og rekstraröryggi fyrirtækja og samfélags verði ekki stefnt í hættu.

Bæjarstjórn tók, Á 42. fundi sínum þann 27. nóvember, undir og staðfesti ályktun atvinnu- og nýsköpunarnefndar.

Stykkishólmur
Getum við bætt efni síðunnar?