Fara í efni

Bætt aðgengi í Stykkishólmi

12.06.2023
Fréttir

Í lok marsmánaðar kom aðili frá verkefninu römpum upp Ísland í Stykkishólm til að kanna þörf á römpum hjá einkafyrirtækjum í bænum. Tilgangur verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi. Haraldur Þorleifsson er hvatamaður verkefnisins.

Í dag og gær hafa nokkrir vaskir menn á vegum verkefnisins unnið hörðum höndum að því að rampa upp við Lyfju, Arion banka, Kram og Hárstofuna og bæta þar með aðgengi að þessum fyrirtækjum. Búið er að ganga frá við Lyfju og Arion banka með myndarlegri hellulögn sem tryggir hreyfihömluðum gott aðgengi að þessum þjónustuaðilum. Verið er að leggja loka hönd á hellulögn við Kram og Hárstofuna.

Félagarnir halda verkefninu áfram og vinna úti á nesi næstu daga en halda þó til hér í Hólminum og njóta alls þess góða sem Stykkishólmur hefur að bjóða að vinnudeginum loknum. 

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá Atla Frey frá Römpum upp Ísland, Klaudiu Gunnarsdóttir, formann velferðarnefndar ásamt Kristínu dóttir sinni, Hrafnhildi Hallvarðsdóttir forseta bæjarstjórnar og Jakob Björgvin S. Jakobsson bæjarstjóra.

Hægt er að kynna sér verkefnið Römpum upp Ísland nánar hér.

Aðgengi að þjónustuaðilum í Stykkishólmi bætt.
Getum við bætt efni síðunnar?