Fara í efni

Framkvæmdir í Súgandisey

23.08.2023
Fréttir

Eins og þekkt er hefur sveitarfélagið fengið rausnarlega styrki úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar og framkvæmda í Súgandisey. Í upphafi fékkst tæplega 4 milljóna króna styrkur fyrir hönnunarsamkeppni á útsýnisstað í Súgandisey, efnt var til samkeppni og varð tillagan Fjöregg hlutskörpust í þeirri keppni. Þegar vinningstillagan lá fyrir fékk sveitarfélagið tæpar 25 milljónir króna úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til deiliskipulagsgerðar og við gerð útsýnissvæðis á Súgandisey. Síðar fékk sveitarfélagið annan styrk, tæpar 16 milljónir, úr sjóðnum fyrir áframhaldandi vinnu í samræmi við vinningstillöguna.

Verkefnið er stórt og umfangsmikið og mikil hönnunarvinna að baki. Nú standa yfir framkvæmdir á eyjunni en unnið er að því að setja upp bogadregið handrið austanmegin á eyjunni sem gefur fólki kost á því að skoða Stöngina, bergdrangann, sem stendur austan við eyjuna. Framkvæmdin er liður í því að dreifa álagi á eyjunni þegar margir sækja hana á sama tíma og um leið auka öryggi gesta.

Fjöregg

Einhverjar tafir urðu í verkfræðihönnun fjöreggsins þar sem verkefnið er afar flókið og allt kapp lagt á að vanda til verka þannig að sem minnst rask verði á svæðinu. Verkefnið krafðist aðkomu sérfræðiútreikninga vegna burðarþols klapparinnar þar sem fjöreggið kemur til með að liggja en einnig var unnin sérstök verkfræðiúttekt á burðarvirki m.t.t. vindþols. Reiknað er með að fullnaðarhönnun liggi fyrir fljótlega og teikningar sendar til framleiðanda í kjölfarið. Vonir standa til að fjöreggið verði sett upp í Súgandisey næsta sumar.

Framkvæmdir hafnar

Eins og fram kom hér að ofan eru framkvæmdir hafnar á svæðinu og má hér að neðan sjá myndir af tillögunni eins og hún var sett fram í upphafi og stöðunni nú til samanburðar. Reiknað er með að handleiðarinn klárist í vikunni og í kjölfarið verði þétt með fleiri pílárum og gengið frá yfirborði.

Jón Aðalsteinsson að störfum í Súgandisey.
Getum við bætt efni síðunnar?