Fara í efni

Fullt hús á stórtónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands

11.03.2024
Fréttir Lífið í bænum

Síðastliðinn fimmtudag, 7. mars, mætti Sinfóníuhljómsveit Íslands í Stykkishólm og hélt stórtónleika í íþróttamiðstöðinni. Áhorfendastúkan var þétt setin auk þess sem töluverður fjöldi sat niðri í sal og naut tónleika, ætla má að hátt í 500 manns hafi mætt á tónleikana. Auk Sinfóníuhljómsveitarinnar komu fram um 80 söngvarar úr Snæfellskum kórum sem fluttu með sveitinni þrjú hugljúf íslensk tónverk.

Áður en tónleikar hófust ávarpaði bæjarstjóri tónleikagesti þar sem hann bauð sveitina velkomna og fagnaði því sérstaklega að þjóðarhljómsveit Íslendinga legði land undir fót til að auðga tónmenningu landans. Bæjarstjóri fór í stuttu máli yfir ríka sögu tónlistarstarfs í Stykkishólmi og minnti á að nú í ár eru liðin 80 ár frá stofnun Lúðrasveitar Stykkishólms og 60 ár frá stofnun Tónlistarskóla Stykkishólms. Í ræðu sinni minntist bæjarstjóri einnig Sæbjörns Jónssonar sem hóf sitt tónlistanám í Stykkishólmi og lék með Lúðrasveit Stykkishólms, en síðar Sinfóníuhljómsveit Íslands í 35 ár. Að lokum færði bæjarstjóri framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar og kórstjórnendum blóm í þakklætisvott.

Morguninn eftir léku ljúfir tónar Sinfóníunnar um eyru yngri hlustenda þegar sveitin flutti tónlistarævintýrið um Maxímús Músíkús fyrir leik- og grunnskólanema af Snæfellsnesi. Sögumaðurinn Valur Freyr Einarsson leikari sagði þá söguna um músina Maxa, sem rambaði á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og kynntist töfrum tónlistarinnar. Fullt hús barna hlustaði af ákafa á söguna sem náði svo hápunkti þegar músin sjálf steig á svið. Það var Hólmarinn Elín Margrét Sigurðardóttir, nemandi í 4. bekk sem fór með hlutverk Maxímus og stóð sig með miklu prýði.

Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hólminum.
Getum við bætt efni síðunnar?