Gjaldtaka á bílastæðum við höfnina í Stykkishólmi
Gjaldtaka hefst á bílastæðum við höfnina í Stykkishólmi 30. júlí 2025
Sveitarfélagið Stykkishólmur hefur ákveðið að innleiða gjaldtöku fyrir bílastæði á tilteknum merktum svæðum við höfnina frá og með miðvikudeginum 30. júlí 2025. Tilgangur gjaldtökunnar er að bæta nýtingu bílastæða, stýra umferð og tryggja tekjur til að viðhalda og bæta aðstöðu á svæðinu.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Parka Lausnir ehf., sem annast rekstur, greiðslulausnir og innheimtu gjalda með rafrænum hætti. Greitt verður fyrir stæði með snjallforriti Parka, á vefnum www.parka.is eða með QR-kóða á staðnum. Gert er ráð fyrir að síðar verði settar upp tvær greiðsluvélar á svæðinu.
Þeir sem hafa heimild til að leggja án gjaldtöku, svo sem aðilar í vinnutengdum erindum, fá nánari leiðbeiningar um skráningu ökutækja í kerfið áður en gjaldtaka hefst.
Gjaldskráin er samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar og skiptist í þrjú svæði, en gjaldskylda er á tímabilinu 1. maí - 30. september. :
- P1 – Skammtímastæði: 500 kr. á klst fyrstu tvær klst, 200 kr. á klst eftir það.
- P2 – Langtímastæði: 1.500 kr. á dag fyrstu 7 dagana, 1.000 kr. á dag eftir það.
- PR – Hópbifreiðar: 2.200–4.200 kr. á dag eftir stærð ökutækis.
Eftirlit með greiðslu fer fram á vegum sveitarfélagsins, þar sem starfsmenn skanna bílnúmer og fletta upp hvort greitt hafi verið fyrir viðveru. Ef greiðsla liggur ekki fyrir, stofnast krafa í heimabanka eiganda ökutækis. MyParking ehf., dótturfyrirtæki Parka, annast útgáfu og innheimtu slíkra krafna í nafni Bílastæðasjóðs Stykkishólms. Vangreiðslugjald er 4.500 kr. með virðisaukaskatti.
Gjald er einungis innheimt ef ökutæki stöðvar innan gjaldskyldu svæðis. Stutt viðkoma eða akstur í gegnum svæðið án þess að leggja telst ekki gjaldskylt.
Framkvæmd gjaldtökunnar fer fram á skýrt afmörkuðum svæðum með skilmerkilegum merkingum. Á skiltum verða birtar upplýsingar um gjaldskrá og greiðslumáta. Allar almennar fyrirspurnir og þjónusta við notendur fara í gegnum þjónustuborð Parka, í gegnum netfangið parka@parka.is.
Þeir bílar sem búið er að leggja í stæði áður en gjaldtaka hefst þurfa ekki að greiða fyrir stæðið.
Hér að neðan má sjá merkingar sem komið hefur verið upp á hafnarsvæðinu, hægt er að smella á myndina til að stækka hana.
Hér að neðan má sjá hvernig gjaldskyldum svæðum er skipt upp, hægt er að smella á myndina til að stækka hana.

