Gjaldtaka á hafnarsvæðinu í Stykkishólmi
Fyrr í þessum mánuði hófst gjaldtaka við almenningssalerni á höfninni í Stykkishólmi. Salernin tvö eru mikið notuð af ferðamönnum og fáheyrt orðið að aðstaða sem þessi sé gjaldfrjáls eins og verið hefur í Stykkishólmi. Gjaldtaka á salernum og bílastæðum hefur aukist hratt á Íslandi undanfarin ár, hvort sem er innan bæjarmarka, við fjölsótta ferðamannastaði eða annarsstaðar.
Gjaldtaka fyrir bílastæði á höfninni í Stykkishólmi hefur verið til umræðu í stjórnsýslu sveitarfélagsins um nokkurt skeið en bæjarstjórn samþykkti samþykkt um bílastæðasjóð Stykkishólms og gjaldskrá bílastæðasjóðs á fundi sínum í júní 2024. Nú hefur verið samið við Parka lausnir ehf. um að sjá um gjaldheimtu fyrir bílastæði á hafnarsvæðinu sem hefst nú í sumar.
Til að byrja með verður komið upp skiltum og merkingum sem gefa til kynna að um gjaldskylt svæði sé að ræða. Greitt verður fyrir stæðin í Parka appinu en engin greiðsluvél verður á svæðinu fyrst um sinn. Eftirlit með svæðinu verður á höndum hafnarvarðar og öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins sem taka mildilega á málum fyrst um sinn. Í ljósi þess að svæðið er ekki hefðbundið bílastæði, heldur einnig atvinnusvæði þar sem t.d. bátaeigendur þurfa að komast að atvinnutækjum sínum hafa verið fundnar lausnir á því. Ekki er gert ráð fyrir að bátaeigendur greiði fyrir bílastæði. Gjaldtakan miðar fyrst og fremst að ferðafólki sem sem leggur bílum sínum á höfninni á meðan það skoðar bæinn, gengur upp í Súgandisey eða ferðast með Baldri. Þá verður einnig rukkað fyrir rútustæði.
Stóra bílastæðið við minnismerkið, á heimleið, verður langtímastæði, rútustæði verða á Stykkinu en önnur verða skammtímastæði. Greinargóð og skýr skilti verða sett upp á svæðinu svo þeir sem þar fari um átti sig vel á gjaldtökunni og fyrirkomulaginu.