Fara í efni

Hundagarðurinn Stellulundur opinn

16.06.2023
Fréttir

Unnið hefur verið að undirbúningi hundagerðis í Stykkishólmi undanfarin ár af hálfu sveitarfélagsins. Umræður um hundagerði voru til að mynda áberandi í umhverfisgöngum bæjarstjóra árin 2019 og 2021 og ljóst að mikill áhugi íbúa var fyrir slíku gerði. Í kjölfar samráðs við íbúa samþykkti bæjarstjórn staðsetningu fyrir hundagerði í Stellulundi, við aðkomuna að Arnarborg.

Eftir að staðsetning og stærð lá fyrir var ljóst að ekki var um hefðbundið hundagerði að ræða heldur gróinn og myndarlegan hundagarð þar sem menn og hundar geta komið saman og notið góðra stunda saman í fallegu umhverfi.  Undanfarið hafa svo starfsmenn Þjónustumiðstöðvar unnið baki brotnu að því að girða fyrir hundagarðinn.  Svæðum fyrir lausagöngu hunda fer fjölgandi víða um land og þykir í dag sjálfsögð þjónusta við hundaeigendur í sveitarfélögum sem þar sem lausaganga hunda er óheimil. Með tilkomu svæðisins geta hundaeigendur í sveitarfélaginu og gestir sleppt hundum sínum lausum á öruggu svæði til að hitta aðra hunda og leika lausum hala.

Hundagarðurinn Stellulundur er ríflega 3500 fermetrar að stærð og líklega sá stærsti á Vesturlandi og með þeim stærstu á landinu. Svæðið hefur lengi verið kallað ýmist Stellulundur eða Kiddalundur en þau hjón Stella og Kiddi, Ingveldur Sigurðardóttir og Kristinn Gestsson, gróðursettu á sínum tíma tréin á svæðinu sem er afar skjólgott í dag. Þótti því við hæfi að halda nafninu til haga.

Hundagarðurinn Stellulundur er nú opinn

Girðingavinnu er nú lokið og búið að koma fyrir bekkjum og borðum á svæðinu. Garðurinn var opnaður í dag, 16. júní, og voru það Jakob Björgvin, bæjarstjóri og Gísli Pálsson, formaður umhverfis- og náttúruverndarnefndar, ásamt starfsmönnum Þjónustumiðstöðvar sem opnuðu svæðið fyrir almenningi eins og sjá má á myndinni sem fylgir þessari frétt. Hundagarðurinn stendur nú opinn fólki og hundum.

Hundaeigendur eru hvattir til að ganga vel um svæðið og hirða upp eftir hundana sína innan svæðis sem utan. Minnt er á taumskyldu utan svæðis og að hundur er ávallt á ábyrgð eiganda síns.

Enn er minniháttar frágangur eftir á svæðinu, m.a. á eftir að bera efni í göngustíg frá bílaplani að garðinum en gengið verður frá því á næstu dögum. Garðurinn er í þróun og eru því allar ábendingar vel þegnar en þeim má beina á stykkisholmur@stykkisholmur.is

Kolfinnur ánægður með Hundagarðinn

Á myndunum hér að neðan sést Kolfinnur, fyrsti gestur Hundagarðsins, spóka sig um í blíðunni og taka svæðið út. Ekki var annað að sjá en að sá ferfætti væri hæstánægður með nýjustu viðbótina við útivistarsvæði í sveitarfélaginu.

Jan, Ingvar, Gísli, Jakob Björgvin og Jón Beck
Getum við bætt efni síðunnar?