Fara í efni

Jákvæð afkoma Sveitarfélagsins Stykkishólms samkvæmt ársreikningi 2024

31.05.2025
Fréttir

Rekstur Sveitarfélagsins Stykkishólms skilar hagnaði samkvæmt ársreikningi 2024 sem tekin var til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi þann 28. apríl sl. og jákvæðri rekstrarafkomu en áætlanir gerðu ráð fyrir. Endurspeglar ársreikningurinn að reksturinn sé að ná jafnvægi eftir krefjandi rekstrarumhverfi síðustu ár.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 286 millj. kr. og rekstrarniðurstaða án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var jákvæð um 180 millj. kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 22 millj. kr. en fjárhagsáætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 11 millj. kr.

Eigið fé sveitarfélagsins (heildareignir að frádregnum heildarskuldum) var 1.080 millj. kr. árið 2024, en var 903 millj. kr. árið 2023 og hækkaði því um 177 millj. kr. milli ára. Eignir sveitarfélagsins eru samkvæmt ársreikningi samtals 4.380 millj. kr. Heildarskuldbindingar eru um 3.300 millj. kr., en þar af eru langtímaskuldir við lánastofnanir 2.213 millj. kr.

Lántökur á árinu námu 280 millj. kr. og afborganir langtímalána voru 219 millj. kr., en lántökur ársins voru umfangsmeiri í ár en síðustu ár vegna uppbyggingu nýs Víkurhverfis. Til nánari upplýsinga og til samanburðar hefur heildarlántaka sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili (2022-2025) verið samtals um 540 millj. kr. á meðan fjárfestingar sveitarfélagsins á sama tímabili hefur verið um 760 millj. kr. Afborganir lántímalána á sama tímabili voru um 645 millj. kr.

Rekstrartekjur samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta námu 2.540 millj. kr. á árinu en þar af námu rekstrartekjur A hluta 2.305 millj. kr. Rekstrartekjur A og B hluta jukust um 4,6% milli ára. Rekstrargjöld jukust um 5,1% milli ára og eru 5,5% hærri en áætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir.

Skuldaviðmið A og B hluta Sveitarfélagsins Stykkishólmur í árslok 2024 var 109% og er langt undir lögbundnu hámarki sem er 150% samkvæmt sveitarstjórnarlögum, en rekstrarjöfnuður A og B hluta síðastliðinna þriggja ára er neikvæður um 98 millj. kr. Fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins gera ráð fyrir því að rekstrarjöfnuður nái jafnvægi í árslok 2025. Veltufé frá rekstri nam á árinu 2024 206 millj. kr. samanborið við 307 millj. kr. árið áður. Handbært fé í árslok nam 73 millj. kr. og lækkaði um 24 millj. kr. á árinu.

Það er ánægjulegt að rekstur sveitarfélagsins er að skila jákvæðari rekstrarafkomu og ná aftur jafnvægi þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi og mikla verðbólgu undanfarin ár. Við vorum komin með reksturinn í gott jafnvægi árið 2019 og höfum verið að vinna okkur til baka jafnt og þétt frá þeim tíma.

Yfir okkur hafa dunið þrjú stór áföll á um 20 ára tímabili sem hefur haft veruleg áhrif á fjárhag sveitarfélagsins, um margt meiri en hjá öðrum sveitarfélögum, og það endurspeglast glögglega í rekstrarniðurstöðum sveitarfélagsins síðustu 20 ára, en þar hefur sveitarfélagið einungis sex sinnum skilað hagnaði og voru fjögur af þeim skiptum á síðustu 10 árum. En nú bætum við einu ári við þessi sex með þessum ársreikningi sem við erum að skila af okkur og svo komum við til með að bæta við nokkrum jákvæðum rekstrarniðurstöðum við til viðbótar á næstu árum. Það er ekkert óvænt við þessa niðurstöðu enda er allt á brautum og í samræmi við þær áætlanir sem við vinnum eftir og bjartir tímar framundan hvað varðar fjárhag sveitarfélagsins, ef okkur gefst gæfa til þess að sýna áfram skynsemi og aga í rekstrinum.

Þannig er einnig ljóst að í stefnumörkun bæjarstjórnar hefur verið borin virðing fyrir stofnunum sveitarfélagsins og þeirri mikilvægu þjónustu sem þar er sinnt og reynt að komast hjá kollsteypum hjá þeim stofnunum með ófyrirséðum afleiðingum þegar áföll hafa dunið yfir og þannig fremur reynt á markvissan hátt að vinna sig út úr úr verkefninu með ábyrgum hætti og af yfirvegun með stjórnendum sveitarfélagsins. Þannig er stjórnað af skynsemi og af ábyrgð,“ segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi.

Í máli bæjarstjórans við yfirferð ársreiknings á fundi bæjarstjórnar kom jafnframt fram að áherslur bæjarstjórnar á árinu 2024 og á yfirstandandi ári áfram það sama, þ.e. að skapa áfram eftirsóknarvert umhverfi fyrir fólk og fyrirtæki, standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins, sérstaklega um hag barna og fjölskyldna þeirra og eldra fólks, og sækja af ábyrgð fram með samfélagslega mikilvægum fjárfestingum innviða sem komi til með að skapa svigrúm til eflingar samfélagsins á svæðinu á sama tíma og stefnt er að því að tryggja að skuldaviðmið og skuldahlutföll séu að lækka markvisst á tímabilinu. „Þessar áherslur og markmið bæjarstjórnar endurspeglast í fyrirliggjandi ársreikningi og samþykktum áætlunum, en það er alltaf áskorun frá degi til dags að tryggja að þessi markmið nái fram að ganga, en áfram þarf að leggja áherslu á ábyrga fjármálastjórnun þar sem gætt er aðhalds og ábyrgðar í rekstri sveitarfélagsins á sama tíma og þjónusta við íbúa verði eins og best verður á kosið. Bæjarstjórn og stjórnendur sveitarfélagsins þurfa að vera og eru vakandi fyrir ákveðnum þáttum í rekstri sem endurspeglast í þessum ársreikningi.

Ársreikning sveitarfélagsins má sjá hér fyrir neðan:

Getum við bætt efni síðunnar?