Fara í efni

Júlíana - hátíð sögu og bóka tíu ára

24.03.2023
Fréttir Lífið í bænum

Júlíana - hátíð sögu og bóka var sett við formlega opnunarhátíð í Stykkishólmskirkju í gær en hátíðin er nú haldin í tíunda sinn. Frá því hátíðin hófst árið 2013 hefur Hólmari verið heiðraður fyrir framlag til menningar- og framfaramála. Á opnunarhátíðinni í gær var Sturla Böðvarsson heiðraður fyrir framlag sitt til minjaverndar, skipulags- og samgöngumála í Stykkishólmi.

Jakob Björgvin bæjarstjóri flutti ávarp á setningarathöfninni í gær þar sem hann lýsti mikilvægi lista og menninga fyrir samfélög og því mikilvæga hlutverki sem hátíðin gegnir í því samhengi. Sérstaklega nefndi hann hve dýrmætt það er við þessa hátíð hversu náið samstarf hún hefur átt með samfélaginu, þ.m.t. fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélagsins.

"Það hefur til dæmis verið einstaklega ánægjulegt að fylgjast með því samstarfi sem hátíðin hefur átt við gunnskólann þar sem það hafa komið leiðbeinendur úr röðum skálda til að leiðbeina grunnskólabörnum með sköpun í ritlist. Þannig gefur hátíðin samfélaginu afar mikið til baka á svo mörgum sviðum sem er vert að þakka fyrir sérstaklega".

Að lokum færði bæjarstjóri Grétu Sigurðardóttur, upphafskonu Júlíönuhátíðarinnar, þakklætis- og virðingarvott fyrir hönd bæjarstjórnar og íbúa sveitarfélagsins og óskaði henni til hamingju með 10 ára afmæli hátíðarinnar.

Dagskrá hátíðarinnar er hlaðin fjölda áhugaverðra viðburða í ár og má gera ráð fyrir iðandi mannlífi í bænum um helgina. Ný og glæsileg heimasíða hátíðarinnar hefur verið sett í loftið en þar má finna dagskrá og ýmsar upplýsingar.

Sturla tekur við viðurkenningu frá Grétu.
Getum við bætt efni síðunnar?