Fara í efni

Kvennaverkfall í Stykkishólmi

23.10.2025
Fréttir

Boðað er til kvennaverkfalls föstudaginn 24. október nk. Sem fyrr tekur Sveitarfélagið Stykkishólmur undir þau meginmarkmið kvennaverkfalls að hefðbundin kvennastörf, jafnt launuð sem ólaunuð, skuli meta að verðleikum. Það er jafnframt ekkert launungarmál að starfsemi sveitarfélagsins skerðist verulega án vinnuframlags kvenna. Sveitarfélagið mun ekki draga af launum starfsfólks sem tekur þátt í kvennaverkfallinu í samráði við sinn stjórnanda.

Á 37. fundi bæjarráðs var lagt fram erindi frá framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025 þar sem sveitarfélög hvött til að leggja sitt af mörkum til að minnast 50 ára afmælis kvennafrídagsins og styðja við þá viðburði sem verða í gangi af þessu tilefni í sveitarfélaginu.

Bæjarráð lagði áherslu á að sveitarfélagið vilji leggja sitt af mörkum til að greiða götu kvenna og kvára úr hópi starfsfólks þennan dag. Bæjarráð samþykkti framlagða tillögu í því sambandi og hefur því nú verið komið á framfæri við forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins.

Kvennaverkfall í Stykkishólmi

Skipuleggjendur kvennaverkfallsins í Stykkishólmi hafa hvatt konur og kvár til að ganga út frá störfum sínum og hittast á Amtsbókasafninu í Stykkishólmi kl 14:00 föstudaginn 24. október. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá:

  • Saga kvennabaráttunnar í Stykkishólmi verður rifjuð upp með frásögnum nokkurra kvenna úr bænum.
  • Sýnd verða myndbönd frá grunnskólanemum sem tengjast viðburðinum.
  • Þátttakendum býðst að njóta kaffiveitinga á staðnum.
  • Að því loknu verður horft saman á beint streymi frá baráttufundi á Arnarhóli í Reykjavík.

Feður, afar og frændur hvattir til að sækja börnin

Leikskólinn í Stykkishólmi verður opinn eins og vant er en leikskólastjórnendur hafa þó í hyggju að senda sem flestar konur á fundinn á bókasafninu. Leikskólastjórnendur hafa því óskað eftir því að feður, afar eða frændur sæki sín börn snemma á föstudaginn til að styðja við kvennaverkfallið. Þeir sem hafa tök á þessu eru beðnir um að láta stjórnendur vita.

Getum við bætt efni síðunnar?