Fara í efni

Lys op for stop

08.01.2024
Fréttir

Nú þegar snjórinn hefur bráðnað niður er myrkrið í morgunsárið enn meira en áður. Erfitt getur verið að sjá gangandi og hjólandi vegfarendur þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða. Nú er því rétti tíminn til að draga upp endurskinsmerkin ef þau eru enn ofan í skúffu, jafnt börn sem fullorðnir.

Með því að gera sig sýnilega með endurskinsmerkum auka gangandi og hjólandi vegfarendur eigið öryggi. Ökumenn sjá þá vegfarendur fyrr og eru því líklegri til að stoppa þegar þörf er á, eða eins og daninn segir gjarnan Lys op for stop! Raunar er það strætisvagnafyrirtækið Sydtrafik sem kastaði þessum frasa fram til að hvetja viðskiptavini sína til að láta meira á sér bera við stoppistöðvar. En dönsk skólabörn gripu frasan á lofti og nota óspart til að hvetja til notkunar endurskinsmerkja almennt.

Staðsetning endurskinsmerkja

Samkvæmt Samgöngustofu er best að hafa endurskinsmerki á eftirfarandi stöðum:

  • Fremst á ermum
  • Hangandi meðfram hliðum
  • Á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum

Þá virkar endurskin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau. Því fyrr og betur sem ökumenn greina óvarða vegfarendur þeim mun minni líkur eru á að slys verði.

Getum við bætt efni síðunnar?