Lys op for stop
Nú þegar skammdegið færist yfir er gott að huga að sýnileika og draga fram endurskinsmerkin, jafnt börn sem fullorðnir. Með því að gera sig sýnilega með endurskinsmerkum auka gangandi og hjólandi vegfarendur eigið öryggi. Ökumenn sjá þá vegfarendur fyrr og eru því líklegri til að stoppa þegar þörf er á, eða eins og daninn segir gjarnan Lys op for stop! Raunar var það strætisvagnafyrirtækið Sydtrafik sem kastaði þessum frasa fram til að hvetja viðskiptavini sína til að láta meira á sér bera við stoppistöðvar. En dönsk skólabörn gripu frasan á lofti og nota óspart til að hvetja til notkunar endurskinsmerkja almennt.
Þá vekur skammdegið jafnan athygli á þeim ljósastaurum sem sinna ekki tilgangi sínum sem skildi en sveitarfélagið hefur fengið nokkrar ábendingar um ljóslausa staura hér og þar í bænum. Sveitarfélagið tók við umsjón ljósastaura af Rarik árið 2019 og var fljótlega byrjað að skipta út gömlum lömpum og LED lampar settir í staðinn. Þetta bætir lýsingu og sparar rekstrakostnað á götulýsingu í Stykkishólmi umtalsvert. Búið er að LED-væða víða í bænum en það verkefni er enn í gangi. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar er nú unnið að því að lagfæra þá staura sem er ljóslausir.