Fara í efni

Miðstöð öldrunarþjónustu fær nafnið Höfðaborg

01.11.2023
Fréttir

Sunnudaginn 8. október sl. var formleg opnun á Miðstöð öldrunarþjónustu og bauð miðstöð öldrunarþjónustu í því tilefni til grillveislu að Skólastíg 14. Veislan heppnaðist vel og var margt um manninn. Í veislunni var nafnasamkeppni fyrir miðstöðina sett í loftið sem stóð opin í viku og gafst þá fólki kostur á því að leggja fram tillögur að nöfnum. Í kjölfarið tók þar til gerð nefnd við boltanum og valdi úr fimm álitlegustu tillögurnar og efndi til kosninga þeirra á milli.

Nefndin var skipuð þeim Klaudiu S. Gunnarsdóttur, formanni velferðar- og jafnréttismálanefndar, Hildi Láru Ævarsdóttur, formanni öldungaráðs, Halldóru F. Sverrisdóttur, formanni Aftanskins og Guðrúnu Hörpu Gunnarsdóttur, starfsmanni miðstöðvar öldrunarþjónustu.

Þau nöfn sem nefndin taldi álitlegust og fólki bauðst að kjósa á milli voru eftirfarandi:

  • Klöpp - Vísar í húsin sem voru rifin þegar núverandi hús var byggt.
  • Iðan - Vísar til fólks sem hefur gengið í gegnum öldusjó á lífsleiðinni.
  • Zetan - Vísar í félagsmiðstöðina X-ið. Zetan kemur á eftir Xinu.
  • Stuðlaberg - Vísar til stöðugleika og öryggis.
  • Höfðaborg - Húsið stendur uppi á höfða með útsýni til allra átta.

Þátttaka í kosningu á nafninu var mjög góð en rúmlega 500 manns tóku þátt í kosningunni. Það nafn sem var hlutskarpast hlaut 62% atkvæða, en atkvæði skiptust nokkuð jafnt milli hinna fjögurra, eða á milli 5-15% atkvæða hvert um sig. Þannig að niðurstaðan var afgerandi.

Nafnið Höfðaborg var hlutskarpast

Jakob Björgvin bæjarstjóri tilkynnti svo niðurstöðuna á opnum viðburði á Skólastíg 14 miðvikudaginn 1. nóvember. Nafnið Höfðaborg var hlutskarpast og var því niðurstaðan að miðstöð öldrunarþjónustu, að Skólastíg 14, skuli bera nafnið Höfðaborg. Það var Pálína Guðný Þorvarðardóttir sem átti tillöguna að nafninu og var hún sérstaklega heiðruð fyrir.

Í ávarpi sínu fór bæjarstjóri yfir áherslur sveitarfélagsins í málefnum eldra fólks. Kom þar meðal annars fram að eitt forgangsverkefnum síðasta kjörtímabils hafi verið að marka stefnu sveitarfélagsins í málefnum 60 ára og eldri. Í því sambandi hafi verið horft til breyttrar aldurssamsetningar samfélagsins og þróunar í þeim efnum auk þess sem búið var að taka ákvörðun um uppbyggingu og flutning á starfsemi hjúkrunarheimilisins frá Skólastíg að Austurgötu. 

"Við byrjuðum á nokkrum aðgerðum á síðasta kjörtímabili tengdum áherslum bæjarstjórnar á bætta þjónustu við eldra fólk. Í upphaf þess kjörtímabils réðum við tómstunda- og æskulýðsfulltrúa með sérstaka áherslu á tómstundir eldra fólks. Við hófum Heilsueflingu 60 ára og eldri, sem vakið hefur athygli um allt land fyrir gott og öflugt starf, enda undir stjórn öflugs fólk, sem stýrir og heldur utan um það verkefni af miklum metnaði og hefur sýnt ákveðna forystu í þessum efnum. Við útfærðum með nýjum hætti hvernig við getum boðið íbúum 67 ára og eldri í sveitarfélaginu frítt í sund. Fórum í framkvæmdir við Skólastíg 14, bæði að utanverðu, þ.e. bílastæði, gatnaframkvæmdir og frágang á lóð og bættum aðgengi, og hófum að endurnýja búseturéttaríbúðir. Þá byrjuðum við með akstursþjónustu eldri borgara og margt margt fleira" - sagði Jakob Björgvin.

Árið 2021 skipaði bæjarstjórn jafnframt starfshóp til að ramma inn stefnu sveitarfélagsins í málefnum 60 ára og eldri. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu á vormánuðum 2022 og í skýrslu starfshópsins var sett fram heiðstæð stefna með 45 aðgerðum og þeirri stefnu vinnur sveitarfélagið eftir í dag.

"Sveitarfélagið hefur sýnt að það hefur ríkan metnað til þess að efla þjónustu við eldra fólk í sveitarfélaginu og eitt af áherslumálum í þessari stefnumörkun frá því í fyrra, sem unnið er nú eftir undir forystu Rannveigar Ernudóttur, forstöðukonu miðstöðvarinnar, var að Skólastígur 14 yrði félags- og þjónustumiðstöð fyrir eldra fólk eða einskonar hjarta öldrunarþjónustu í Stykkishólmi og Helgafellssveit. Með stofnuninni erum við m.a. að taka fyrsta skrefið í átt að markvissri vinnu við að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu eldra fólks í sveitarfélaginu og þannig að sýna ákveðna forystu í þessum málaflokki. Við höfum einfaldlega metnað til þess að bjóða upp á góða þjónustu fyrir eldra fólk í sveitarfélginu og í því sambandi erum einmitt að fara að fagna formlega á morgun, fimmtudaginn 2. nóvember, stórum áfanga í uppbygginu á þjónustu við eldra fólk á svæðinu þegar formleg opnun á nýju og glæsilegu hjúkrunarheimili í Stykkishólmi fer fram, en allt eru þetta liðir í því að bæta þjónustu við eldra fólk í sveitarfélaginu". 

Að lokum óskaði bæjarstjóri viðstöddum til hamingju með nafnið Höfðaborg og bauð viðstöddum að þiggja kaffi og kökusneið af þessu tilefni.

Pálína Þorvarðardóttir heiðruð fyrir nafnatillöguna sem þótti best.
Getum við bætt efni síðunnar?