Fara í efni

Nemendur á miðstig Grunnskólans vinna góðverk

06.11.2023
Fréttir

Hluti nemenda í Grunnskóla Stykkishólms á miðstigi, þ.e. 5.-7. bekkur, hafa valið sér áfanga sem hefur það að markmiði að vinna góðverk fyrir samborgara sína. Þessi föngulegi hópur klæðir sig vel upp og heldur út hvernig sem viðrar alla mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 8:10 til 9:30 næstu tvær vikurnar. Hópurinn hefur það markmið eitt að vinna góðverk svo sem eins og að skafa forst af bílrúðum, salta bílaplön og stéttir fyrir eldri borgara, fara út með rusl, viðra hunda og annað slíkt. Hópurinn óskar nú eftir aðstoð við að finna verkefni en þeir sem luma á verkefnum sem gætu hentað hópnum eru hvattir til að hafa samband við Siggu Lóu, kennara hópsins, í síma 899-4151 eða netfang: siggaloa1@gmail.com.

Eitt af forgangsverkefnum skólastefnu sveitarfélagsins er áhersla á að tengja nám og samfélag og gera skólastarfið sýnilegra. Í stefnunni er einnig lögð áhersla á að efla þekkingu nemenda á sögu og umhverfi sveitarfélagsins. Jafnframt leggur stefnan áherslu á aukið samstarf skólabarna og eldri borgara, m.a. með verkefnum þar sem kynslóðirnar hittast og fá tækifæri til að læra af hvorri annarri. Verkefnið fellur því vel að skólastefnunni.


Þessi unga dama fór út með ruslið til að spara starfsfólki Ráðhússins sporin.

Nemendahópurinn kíkti í Ráðhúsið og gerði grein fyrir verkefninu
Getum við bætt efni síðunnar?