Fara í efni

Opnunarhátíð Norðurljósa fer fram í kvöld

23.10.2025
Fréttir Lífið í bænum

Menningarhátíðin Norðurljósin verður haldin í áttunda sinn í Stykkishólmi dagana 22.-26. október. Opnunarhátíð fer fram í kvöld, fimmtudagskvöld, en þar mun Stjörnu Sævar fræða viðstadda um almyrkann 2026 sem margir bíða af mikilli eftirvæntingu. Boðið verður upp á glæsileg tónlistaratriði og venju samkvæmt fer fram heiðrun fyrir framlag til lista- og menningarmála í Stykkishólmi.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2010 og hefur verið haldin annað hvert ár síðan. Menningarhátíðin er yfirleitt haldin í október eða nóvember og lífgar upp á dimma vetrardaga þar sem bæjarbúum og gestum gefst tækifæri til að gleðjast saman og njóta menningarviðburða. Hátíðin er að mestu helguð tónlist, leiklist og myndlist. Markmiðið hefur ætíð verið að hátíðin sé sjálfbær og að heimamenn sjái að mestu um skemmtiatriðin. Með það að markmiði auglýsti undirbúningsnefndin á dögunum eftir áhugasömum aðilum til að troða upp á hátíðinni. Undirbúningsnefndina skipa þær Hjördís Pálsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Snæfellinga- og Hnappdæla og Vatnasafns og Nanna Guðmundsdóttir, forstöðumaður Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi.

Dagskráin í ár verður þéttskipuð og fjölbreytt en lagt er upp úr því að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Dagská hátíðarinnar má sjá hér að neðan.

Miðvikudagur 22. október

17:00-20:00 Kram: Bleikur dagur í Kram.

 

Fimmtudagur 23. október

12:00 Grunnskólinn í Stykkishólmi: Stjörnu Sævar fræðir nemendur um almyrkvann sem verður 12. ágúst 2026.

13:00-16:00 Norska húsið - BSH: Sýningin Vendipunktar, sem sett var upp í tilefni 180 ára afmælis veðurmælinga Árna Thorlaciusar.

16:30 Skipavík verslun: Kökubasar 9. bekkjar - fjáröflun fyrir útskriftarball.

18:00 Hólmgarður: Ljósahátíð leikskólans, lýsum upp myrkrið og eigum saman fallega stund í nafni vináttu og kærleika.

20:00 Stykkishólmskirkja: Opnunarhátíð, tónlistaratriði, heiðrun, Stjörnu Sævar segir okkur allt sem við þurfum að vita um almyrkann 2026. Enginn aðgangseyrir.

 

Föstudagur 24. október

13:00-16:00 Norska húsið - BSH: Sýningin Vendipunktar, sem sett var upp í tilefni 180 ára afmælis veðurmælinga Árna Thorlaciusar.

14:00 Amtsbókasafnið: Kvennaverkfall - Stundin er runnin upp ! Konur og kvár ganga út frá störfum sínum kl. 14:00 og hittast á Amtsbókasafninu. Kjarnakonur segja frá, boðið uppá kaffi og með því, og horft á beint streymi frá baráttufundi á Arnarhóli. Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur.

19:15 Íþróttamiðstöðin: Körfuboltaleikur, Snæfell - Þór AK. 1. deild karla.

21:00 Fosshótel: Músik bingó Fanneyjar - kvöld fullt af fjöri og góðri tónlist! Í stað þess að kalla út tölur eru spiluð vinsæl lög sem þú þarft að þekkja. Komdu með vinunum, njóttu tónlistarinnar og sjáðu hvort þú náir BINGÓ! Glæsilegir vinningar. Miðaverð: 1500 kr. (þrjú spjöld innifalin). Miðar seldir við hurð og 18 ára aldurstakmark. Eitt mesta stemningskvöld ársins – og þú ætlar að mæta!

 

Laugardagur 25. október

11:00-11:30 Íþróttamiðstöðin: Meistaraflokks stúlkur- og piltar verða með opið hús.

12:00-14:00 Amtsbókasafnið: Listasmiðja, Heiðrún Jensdóttir býður upp á listasmiðju fyrir börn á öllum aldri.

12:00-15:00 Norska húsið - BSH: Sýningin Vendipunktar, sem sett var upp í tilefni 180 ára afmælis veðurmælinga Árna Thorlaciusar.

12:00-17:00 Lions húsið: Markaður.

13:00-17:00 Tang og Riis: Góðir hálsar, Ingibjörg H. Ágústsdóttir opnar fuglasýningu.

13:00-16:00 Gamla kaupfélags frystihúsið: Holy Cow verslunin sprettur upp í vinnustofu Önnu Sigríðar. Fatnaður skart og allskonar framandi og fallegt.

13:00 Íþróttamiðstöðin: Körfuboltaleikur, Snæfell - Njarðvík 12. flokkur karla.

14:00-16:00 Hraunháls: Vetrarblót, Fyrstu sporin í Eyrbyggjusögurefil tekin! Spjallað um söguna, tónlist og kveðskapur.

14:00-16:00 Amtsbókasafnið: Kaffihús Lionskvenna.

16:30 Amtsbókasafnið: Kvennaraddir, Sunna Guðný Högnadóttir fjallar um skvísubókmenntir í femínísku samhengi.

20:00 Gamla kirkjan: Samsöngur. Komdu og syngdu af list í öruggu umhverfi! Kristbjörg Hermannsdóttir, Hólmgeir Þórsteinsson, Haukur Garðarsson, Valbjörn Snær Lilliendahl og Hafþór Guðmundsson leiða samsöng þar sem enginn verður dæmdur.

21:15 Smiðjustígur 3: Tónleikar, þrátt fyrir að vera ekki ársgömul ætlar hljómsveitin Skelbót frá Stykkishólmi að troða upp í annað sinn. Nú innandyra og standandi. Á meðan innviðaráðherra hugsar um úthlutun skelbóta hafa hljómsveitarmeðlimir Skelbótar verið að æfa sig í að spila lög á fjölmörgum tungumálum (þ.m.t. tungumáli ástarinnar). Endilega kíktu við og taktu þátt í skemmtana- og menningarlífi Hólmara. Skelbót skipa: Jón Sindri, Gísli Sveinn, Siggi Grétar, Nonni Mæju og Snæbjörn.

22:30 Narfeyrarstofa: Lifandi tónlist, Svenni Davíðs heldur uppi fjörinu!

 

Sunnudagur 26. október

11:30 Amtsbókasafnið: Ljósagull Húlladúllunnar – Ljósagull er hugljúf en spennandi ævintýri sem heillar alla fjölskylduna og hentar ungum börnum vel. Húlladúllan flytur frumsamið ævintýri og ljær því líf með tindrandi LED sirkusáhöldum af ýmsu tagi. Að sýningunni lokinni fá börnin að stíga inn á sviðið og leika að ljósagullum Húlladúllunnar. Sýningin tekur 15 mínútur í flutningi og leiktíminn á eftir stendur í 45 mínútur.

12:00-15:00 Norska húsið - BSH: Sýningin Vendipunktar, sem sett var upp í tilefni 180 ára afmælis veðurmælinga Árna Thorlaciusar.

13:00-17:00 Tang og Riis: Góðir hálsar, fuglasýning Ingibjargar H. Ágústsdóttur opin.

13:00 Íþróttamiðstöðin: Körfuboltaleikur, Snæfell - Vestri 10. flokkur stúlkna.

14:00 Amtsbókasafnið: Komdu og hannaðu þinn eigin húllahring undir stjórn Húlladúllunnar! Við skreytum húllahringi með flottum og litríkum límböndum og eignumst þannig frábært leikfang til að taka með heim! Svo sýnir Húlladúllan flott húllaatriði og kennir okkur allskonar skemmtileg húllatrix. Athugið að það er æskilegt að tíu ára og yngri mæti í fylgd foreldra eða eldri systkina, sem geta aðstoðað þau við að skreyta hringinn svo hann verði sem best heppnaður.

Þátttakendur greiða efniskostnað sem er 1500 krónur og fá húllahringinn sem þeir gera til eignar. Hringirnir eru settir saman sérstaklega fyrir hvern þáttakanda, svo þeir passi nýjum eiganda fullkomlega er forskráning nauðsynleg! Skráningform er á facebook síðu viðburðarins - Húlldúllan í Stykkishólmi. Sjálf húllahringjagerðin tekur um það bil hálftíma.

Opnunarhátíð:
Birta Sigþórsdóttir
Friðrik Sigþórsson
Bence Petö
Jón Dagur Jónsson
László Petö
Sævar Helgi Bragason

Svanborg og Gréta voru heiðraðar á opnunarhátíðinni 2024
Getum við bætt efni síðunnar?