Fara í efni

Pottasvæðið opnað að nýju í Sundlaug Stykkishólms

05.07.2025
Fréttir

Undanfarið hafa staðið yfir umfangsmiklar framkvæmdir á sundlaugarsvæðinu í Stykkishólmi, sem margir íbúar og gestir hafa eflaust tekið eftir. Stærstur hluti vinnunnar fór fram neðanjarðar, þar sem meðal annars var lagt nýtt snjóbræðslukerfi undir hellulögnina og unnið að endurbótum á lagnakerfum.

Aðgengi að sundlaugarsvæðinu hefur verið opnað í áföngum eftir því sem verkinu hefur miðað áfram. Útisvæðið opnaði að nýju 5. júní síðastliðinn, en pottasvæðið var áfram lokað meðan unnið var að því að fjarlægja eldri potta og koma fyrir nýjum og rúmbetri pottum með tilheyrandi breytingum á lagnaleiðslum, yfirborði og kerfum.

Nú er framkvæmdum við nýju pottana lokið og pottasvæðið opið á ný. Þar má nú finna tvo nýja potta – annars vegar hefðbundinn klórpott og hins vegar pott með hinu einstaka heilsuvatni sem við í Stykkishólmi státum af, en sá pottur er heitari. Báðir pottarnir eru hærri frá jörðu en hinir voru, sem bætir aðgengi fyrir alla gesti. Þó að stærstur hluti verksins hafi farið fram undir yfirborði eru breytingarnar á pottasvæðinu afar sýnilegar. Þá lyfta endurlagðar hellur svæðinu öllu upp og ný umgjörð vaðlaugarinnar setur jafnframt svip sinn á svæðið. Snjóbræðslukerfið mun síðan sanna gildi sitt þegar kólnar á ný.

Framundan er uppsetning á nýjum sauna- og infrarauðum klefa, sem bætist við aðstöðu sundlaugarinnar um miðjan mánuð. Þar sem öll undirbúnings- og jarðvinna hefur þegar verið unnin, mun sú framkvæmd ganga hratt og greiðlega fyrir sig.

Nýir heitir pottar í sundlaug Stykkishólms.
Getum við bætt efni síðunnar?