Fara í efni

Ritað undir samstarfssamning milli Sveitarfélagsins Stykkishólms og Snæfells

10.10.2025
Fréttir

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Stykkishólms samþykkti í lok janúar nýjan samstarfssamning við aðalstjórn Ungmennafélagsins Snæfells um eflingu íþróttastarfs í sveitarfélaginu, að undangenginni mikilli vinnu og samráði. Samningurinn var undirritaður í hálfleik á fyrsta heimaleik meistaraflokks karla Snæfells á nýju keppnistímabili, fimmtudaginn 9. október, þegar liðið mætti Fylki. Snæfell vann öruggan sigur í gær og voru lokatölur leiksins 90-78.

Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri, og Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson, formaður Snæfells, rituðu undir samninginn. Áður en gengið var til undirritunar flutti Daniel Ali Kazmi, formaður körfuknattleiksdeildar Snæfells, stutta tölu þar sem hann fór yfir helstu áherslur samningsins og þýðingu hans fyrir félagið og samfélagið í heild.

Beint fjárframlag til Snæfells tvöfaldað í annað sinn á fjórum árum

Samningurinn gerir ráð fyrir að heildarumsvif framlags sveitarfélagsins til Snæfells nemi á bilinu 30–40 milljónum króna á ári, þar af 9,6 milljónum í beinu fjárframlagi. Það er nærri tvöföldun frá fyrri samningi sem undirritaður var árið 2021. Þá var jafnframt um að ræða rúmlega tvöföldun frá þeim samningi sem gilti áður. Þetta er því í annað skipti á fjórum árum sem sveitarfélagið tvöfaldar beint fjárframlag sitt til Snæfells.

Þessar hækkanir endurspegla annars vegar það metnaðarfulla starf sem unnið er innan Snæfells, og hins vegar áherslur sveitarfélagsins á mikilvægi hreyfingar, íþrótta og forvarna með öllum þeim jákvæðu samfélagslegu áhrifum sem slíkt starf hefur í för með sér.

Margvíslegur stuðningur við Snæfell

Samningurinn nær einnig til stuðnings til meistaraflokka Snæfells. Þar má nefna aðgengi að sundlaug án endurgjalds fyrir og eftir æfingar og leiki, þvott á búningum, matarúttekt í mötuneyti sveitarfélagsins og fleira.

Stærsti árlegi styrkur sveitarfélagsins til Snæfells er vegna aðstöðu og húsnæðis fyrir hvert samningsár og reiknast styrkurinn fyrir árið 2025, kr. 21.678.726,- en sveitarfélagið lætur aðalstjórn Snæfells í té afnot af húsnæði, skrifstofu- og félagsaðstöðu og íþróttamannvirki.

Í samningnum kemur fram að honum sé ætlað að efla samstarf sveitarfélagsins og ungmennafélagsins um eflingu íþróttastarfs í sveitarfélaginu með megináherslu á;

  1. Öflugt íþrótta-, forvarna- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni.
  2. Öflugt afreksstarf.
  3. Styrkja starf Snæfells.
  4. Efla félagsaðstöðu Snæfells

Samningurinn leggur áherslu á mikilvægi þess öfluga starfs sem fer fram innan Snæfells fyrir samfélagið í heild. En til þess að félagið geti ræktað hlutverk sitt styrkir sveitarfélagið það árlega með beinum og óbeinum fjárframlögum

Öflugt íþróttastarf hefur ríkt forvarnagildi

Forvarnagildi íþrótta hefur margsýnt sig og er samfélagið í Stykkishólmi því lánsamt að búa að því öfluga starfi sem Snæfell starfrækir. Íþróttir og hreyfing hafa ekki einungis heilsufarslega kosti í för með sér, heldur er starf íþróttafélaga einnig mikilvægt fyrir félagsmótun barna og ungmenna. Þar læra þau að vinna saman, bera virðingu fyrir öðrum og virða leikreglur. Allt eru þetta ómetanleg gildi sem stuðla að jákvæðri mótun einstaklinga og efla virkri þeirra til þátttöku í samfélaginu.

Í nýundirrituðum samning eru tíundaðar sameiginlegar áherslur sveitarfélagsins og Snæfells samfélaginu og íþróttalífi til heilla. Samningurinn gildir til 31. desember 2028 en hvor aðili um sig getur óskað eftir endurskoðun innan þess tíma.

Formaður Snæfells og bæjarstjóri rita undir samning. Mynd Bence Petö
Getum við bætt efni síðunnar?