Fara í efni

Samráðsfundur um styrkingu Leikskólans í Stykkishólmi

06.07.2023
Fréttir

Þann 15. ágúst nk. verður efnt til fundar um styrkingu leikskólastarfs í Stykkishólmi. Fundurinn er opinn og öllum frjálst að skrá sig og taka þátt í vinnunni. Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku, neðst í fréttinni er skráningarhnappur.

Markmið sveitarfélagsins er að eiga skóla og frístundastarf sem einkennist af fjölbreyttu og skapandi starfi þar sem stöðugt er unnið að umbótum af metnaði. Vellíðan barna og starfsfólks, einstaklingsmiðað nám og góður námsárangur skal vera í fyrirrúmi. Þá skal efla samstarf innan og á milli skólanna og frístundastarfsins, við samfélagið og heimilin. Áhersla er lögð á fagmennsku, góðar starfsaðstæður, gagnkvæma virðingu, jafnrétti, mannréttindi og lýðræðislega starfshætti. Þá skiptir máli að nýta þau sóknarfæri sem felast í að tengja námið einstöku umhverfi og atvinnulífi í sveit og bæ, fjölbreyttri og um margt einstakri náttúru, nálægð við strönd, eyjar og haf og merkilegri og viðburðaríkri sögu.

Mikilvægt er að skólastefna Stykkishólms sé virk og að henni sé fylgt eftir. Liður í því er að efna til samráðsfunda um skólastefnuna þar sem rætt er um ákveðna þætti hennar, verkefnum forgangsraðað og aðgerðaráætlun gerð.

Fundur um styrkingu leikskólastarfs verður haldinn þriðjudaginn 15. ágúst kl. 12-16 í Leikskólanum í Stykkishólmi.

Dagskrá:

12:00 – 12:30 Hádegisverður
12:30 – 13:00 Um leikskólastarf í Stykkishólmi – Inngangserindi
13:00 – 13:40 Umræður á borðum um helstu styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri í leikskólastarfi í Stykkishólmi
13:40 – 14:20 Niðurstöður kynntar úr umræðuhópum
14:20 – 14:40 Kaffi
14:40 – 15:10 Forgangsröðun verkefna út frá niðurstöðum úr umræðuhópum
15:10 – 16:00 Aðgerðaráætlun til tveggja ára gerð og kynnt.

Tækifæri og áskoranir

Góð starfsaðstaða er í leikskólanum, skólinn um margt vel búinn og starfsumhverfið fjölbreytt og fallegt. Börnunum líður vel, starfið er fjölbreytt og uppeldisstarf markvisst. Leikur, sjálfstyrking, málörvun og skapandi starf eru í öndvegi í leikskólastarfinu þar sem m.a. er byggt á fjölgreindakenningu Howards Gardners og nálgun, sem sótt er til hugmyndafræði Reggio Emilia stefnunnar, þar sem áhersla er á val, könnunaraðferðir og skapandi vinnu barnanna með opinn efnivið. Ný aðstaða, listasmiðja, skapar leikskólanum svigrúm til að efla enn frekar skapandi starf. Útinám hefur verið eflt og hefur einn af kennurum leikskólans sérhæft sig í útikennslu og fer reglulega með hópa í skógræktina í nágrenni skólans. Leikskólinn hefur sett sér metnaðarfulla skólanámskrá og mótað læsistefnu til ársins 2025.

Styrkja þarf leikskólann, bæta starfsaðstæður og skapa aukinn skilning og samstöðu um mikilvægi fyrsta skólastigsins og virðingu fyrir því. Leita allra leiða til að laða að fleira fagmenntað starfsfólk að leikskólanum, sem og að styðja ófaglært starfsfólk til menntunar. Tryggja þarf starfsfólki leikskólans aðgang að lögbundinni leikskólaráðgjöf og efla stoð- og skólaþjónustu. Mikilvægt er að efla tölvu- og tækjabúnað. Bæta kennslu barna af erlendum uppruna og barna með sértæka námserfiðleika. Efla trú nemenda á eigin námsgetu og áhuga þeirra á námi, m.a. lestraráhuga. Efla samstarf heimila og skóla, sem og að skapa aukinn skilning á þýðingu menntunnar og þá sérstaklega mikilvægi leikskólastigsins.

Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn. Smelltu á hnappinn hér að neðan til að skrá þig á fundinn og taka þátt í vinnunni.

Skráning á fund

Getum við bætt efni síðunnar?