Fara í efni

Sátan hefst í dag

05.06.2025
Fréttir Lífið í bænum

Sátan er þriggja daga rokkhátíð sem haldin er í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi dagana 5. - 7. júní. Hátíðin var fyrst haldin í fyrrasumar og tókst vel til. Hátíðin leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt úrval af fremstu rokkhljómsveitum Íslands. Tónleikar hefjast í íþróttamiðstöðinni kl. 16:00 dagana þrjá og standa fram yfir miðnætti. Óhætt er því að gera ráð fyrir blómlegu mannlífi í Stykkishólmi næstu daga. Meðal hljómsveita sem koma fram á hátíðinni í ár eru Sororicide, Brain Police, The vintage caravan og Skálmöld.

Enn er hægt að fá miða á hátíðina á sátan.is.

Samningur undirritaður

Fyrr í vikunni undirritaðu Jakob Björgvin, bæjarstjóri, og Lilja Ýr Víglundsdóttir, forsvarsmaður Glapræðis ehf., sem heldur hátíðina, sakomulag vegna Sátunnar. Í samkomulaginu er m.a. kveðið á um leigukostnað vegna þeirra innviða sem félagið leigir af sveitarfélaginu. En bæjarsjórn samþykkti að veita félaginu 50% afslátt af gjaldskrá vegna leigunnar í ár og 25% afslátt á næsta ári. Með því leitast bæjarstjórn eftir því styðja við fjölbreytta viðburða- og hátíðadagská í Stykkishólmi enda Sátan sannarlega góð viðbót í blómlega menningarflóru sveitarfélagsins.

Heimamenn hjálpa til

Fjölmargir heimamenn leggja lóð sín á vogaskálarnar og koma að hátíðinni með einum eða öðrum hætti, svo sem með því að aðstoða við undirbúning og frágang eða sinna gæslu á tónleikum. Á myndinni hér að neðan má sjá Sigurð Grétar festa upp stærðarinnar merkingu á íþróttahúsið til að tryggja að tónleikagestir rati í rétt hús.

Miðasala hefur gengið vel en nú þegar hafa selst yfir 600 miðar á hátíðina og enn töluverð hreyfing á miðasölunni. Á meðal þeirra sem hafa tryggt sér miða eru rokkunnendur frá öllum landslutum, erlendir gestir sem koma sérstaklega til landsins til að upplifa Sátuna í Stykkishólmi og auðvitað Hólmarar og Snæfellingar sem kjósa að njóta ljúfra tóna þeirra listamanna sem spila á hátíðinni komandi daga.

Guðni Th. Jóhannesson á dagská

Auk tónleikana sem fram fara í íþróttamiðstöðinni verða minni hliðarviðburðir, svokölluð off-venue dagskrá. Þessi dagskrá fer að mestu fram á Fosshótel Stykkishólmi á tónleikadögum, frá hádegi fram að tónleikum kl. 16:00. Á off-venue dagskránni koma fram hinir ýmsu listamenn sem ræða um tónlist, hljóðfæraleik, skapandi hugsun og fleira. Meðal þeirra sem fram koma er Guðni Th. Jóhannesson, fyrrum forseti Íslands, Snæbjörn Ragnarsson, úr Skálmöld, og Gunnar Sauermann, úr Metal Hammer, sem ræða áhrif sagnfræðinnar á tónlist og menningu. 

Hægt er að kynna sér off-venue dagskrá Sátunnar hér.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá Sátunni í fyrra.

Sigurður Grétar hjálpsamur að vanda.
Getum við bætt efni síðunnar?