Fara í efni

Sátan heppnaðist vel

11.06.2025
Fréttir Lífið í bænum

Tónlistarhátíðin Sátan fór fram dagana 5.-7. júní í Stykkishólmi og setti hún sannarlega svip sinn á bæinn. Hátíðin var fyrst haldin í fyrrasumar og tókst vel til en sama má segja um hátíðina nú í ár sem fór friðsamlega og vel fram.

Bærinn iðaði af mannlífi og var ekki annað að sjá en veitingastaðir og þjónustuaðilar í bænum hefðu í nægu að snúast á meðan hátíðin gekk yfir. Tjaldsvæðið var vel nýtt og mikið bókað á hótelum og gististöðum í Stykkishólmi og nágrenni í tengslum við hátíðina.

Lögreglan var áberandi eins og vant er þegar stórar tónlistarhátíðir fara fram, að sögn lögreglu fór hátíðin vel fram og engin vandræði á gestum hátíðarinnar. Jakob Björgvin, bæjarstjóri, setti hátíðina með stuttu ávarpi áður en tónleikar hófust á fimmtudeginum. Í ávarpi bæjarstjóra kom fram að Sátan væri frábær viðbót við þá fjölbreyttu menningarflóru sem samfélagið hér státar af. Þá sagði hann fátt annað en gott hafa heyrst eftir hátíðina í fyrra, bæði frá þeim sem komu að hátíðinni með einum eða örðum hætti, tónleikagestum og öðrum bæjarbúum. Umgengni var til fyrirmyndar og gestir Sátunnar aufúsugestir um allan bæ. Að lokum taldi bæjarstjóri öllum ljóst, eftir vel heppnaða hátíð í fyrra, að Sátan ætti sannarlega heima í Stykkishólmi.

Búið er að tilkynna dagsetningar fyrir hátíðina á næsta ári en þá verður Sátan haldin i Stykkishólmi dagana 4. - 6. júní 2026.

Stór hópur stendur að baki hátíðarinnar. Mynd af fb-síðu Sátunnar.
Getum við bætt efni síðunnar?