Skógarstrandarvegur loksins forgangsverkefni í samgönguáætlun
Alþingi hefur nú til meðferðar tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026–2040 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun 2026–2030, en innviðaráðherra kynnti í dag áform ríkisstjórnarinnar á kynningarfundi sem bar yfirskriftina „Ræsum vélarnar“. Þar var lögð áhersla á að efla viðhald vega, hefja stórframkvæmdir og hraða uppbyggingu innviða um land allt.
Í fyrirliggjandi samgönguáætlun er Snæfellsnesvegur 54 um Skógarströnd loks settur í forgang hvað nýframkvæmdir varðar og gert ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum á veginum á næstu árum. Þá er verið að leggja grunn að lagfæringum og uppbyggingu á Stykkishólmsvegi inn í Stykkishólm, en það er tekið úr öðrum potti (ekki nýframkvæmdum).
Samkvæmt áætluninni verður ráðist í uppbyggingu og lagningu bundins slitlags á Snæfellsnesvegi á kaflanum Stykkishólmsvegur – Svelgsá á árunum 2026–2027, en uppbygging á þessum kafla var eitt af áherslumálum samstarfsnefndar í sameiningu Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar sem samþykkt var árið 2022. Áframhaldandi uppbygging er svo fyrirhuguð á Skógarstrandarvegi á árunum 2028–2030 og áfram á 2. og 3. tímabili samgönguáætlunar. Vegurinn er í dag malarvegur með sex einbreiðum brúm og hefur arðsemi framkvæmdanna verið metin jákvæð.
Heildarkostnaður við uppbyggingu Skógarstrandarvegar er metinn um 12,55 milljarða króna og 750 milljónir króna á kaflanum Stykkishólmsvegur – Svelgsá. Skógarstrandarvegur er eini stofnvegurinn á Vesturlandi sem enn er malarvegur, þrátt fyrir að vera hluti grunnnets samgöngukerfis landsins, og gegnir lykilhlutverki í tengingu milli byggðarlaga á svæðinu, m.a. Sveitarfélagsins Stykkishólms og Dalabyggðar. Vegurinn skiptir þar af leiðandi miklu fyrir ferðaþjónustu, atvinnulíf, vinnu- og skólasókn sem og almenna byggðafestu á svæðinu.
„Uppbygging sem mun bæta lífsgæði“
„Þetta er auðvitað mikilvægur áfangi fyrir íbúa í Stykkishólmi, Helgafellssveit og Dalabyggð og alla þá sem ferðast milli Snæfellsness og sunnanverðra Vestfjarða og Norðurlands, en sérstaklega fagna ég uppbyggingu vegarins innan sveitarfélagsins“ segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri. „Við hefðum þó viljað sjá mun meiri þunga í uppbygginguna á árunum 2028–2030. Við höfum ítrekað bent á að Skógarstrandarvegur eigi samkvæmt markmiðum samgönguáætlunar að vera í forgangi við ráðstöfun fjármuna. Nú blasir þó við áframhaldandi uppbygging sem mun bæta umferðaröryggi, stytta ferðatíma og skapa betri forsendur fyrir atvinnulíf og þjónustu á svæðinu, að frátöldum bættum búsetuskilyrðum þegar vegurinn verður fullbúinn með þverun Álftafjarðar.“
Áralöng vinna skilar árangri – Áfram áherslumál og þörf á að flýta framkvæmdum
Sveitarfélagið Stykkishólmur hefur um árabil, ásamt Dalabyggð og öðrum nágrannasveitarfélögum, með stuðningi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í gegnum Samgönguáætlun Vesturlands, unnið ötullega að því að koma uppbyggingu Skógarstrandarvegar á dagskrá. Bæjarstjórn og atvinnu- og nýsköpunarnefnd Stykkishólms hafa samþykkt fjölmargar ályktanir um málið, sveitarfélagið hefur unnið skýrslur og greinargerðir og komið þeim á framfæri við Vegagerðina og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, auk þess sem fjölmargar kynningar hafa verið gerðar fyrir þingmenn og ráðherra um mikilvægi vegarins sem hluta af grunnneti íslenskra samgangna.
Sveitarfélagið fagnar því að þessi sjónarmið endurspeglist nú í samgönguáætlun, en vinnunni er ekki lokið. Þrátt fyrir tímasetta áfanga í samgönguáætlun telur sveitarfélagið afar brýnt að fjármögnun og framkvæmdum verði flýtt, enda hefur ástand vegarins lengi verið óviðunandi og mikill samfélagslegur ábati af því að hefja uppbyggingu fyrr en endurspeglast í fyrirliggjandi samgönguáætlun.
„Við sjáum fyrir okkur að unnt sé að ráðast í ákveðna verkþætti fyrr, bæði með aukinni fjármögnun á fyrstu árum áætlunar og með því að hraða vinnu vegna undirbúnings við þverun Álftafjarðar,“ segir Jakob Björgvin, bæjarstjóri. „Þar munum við halda áfram að tala um mikilvægi vegarins, í nánu samstarfi og samvinnu við Dalabyggð.“
Sveitarfélagið mun áfram fylgja málinu fast eftir gagnvart Alþingi, innviðaráðherra og Vegagerðinni. Sérstök áhersla verður lögð á að framkvæmdir hefjist á tilgreindum tíma, að endanleg veglína verði unnin í nánu samstarfi við Dalabyggð og að lokið verði sem fyrst við valkostagreiningu og umhverfismat vegna þverunar Álftafjarðar þannig að hægt verði að uppfæra samgönguáætlun í kjölfarið í samræmi við niðurstöðuna.