Fara í efni

Slökkviliðið býður til afmælisveislu á 112 daginn

07.02.2024
Fréttir Lífið í bænum

Þann 10. febrúar næstkomandi verða liðin 110 ár síðan stofnað var formlegt slökkvilið í Stykkishólmi en reglugerð um slökkvilið var sett þann dag árið 1914. Fyrsta brunadælan kom í Stykkishólmi haustið 1913 og er hún enn til og varðveitt af slökkviliðinu. Fyrsta samþykkt um brunavarnir er nokkuð eldri eða frá 22. febrúar 1881 en hún náði einkum til þess að sjá til þess að reykháfar væru hreinsaðir eða sótaðir tvisvar á ári.

Daginn eftir afmæli slökkviliðsins, þann 11. febrúar, sem jafnframt er 112 dagurinn, mun slökkviliðið aka hring um bæinn kl. 13:00 og taka að því loknu á móti gestum og gangandi á slökkvistöðinni að Nesvegi 1a. Boðið verður upp á kaffi og kökur auk þess sem búnaður slökkviliðsins og viðbragðsaðila verður til sýnis. Börn eru sérskalega boðin velkomin, enda oft áhugasöm um störf og búnað slökkviliðs og viðbragðsaðila. En aðrir viðbragðsaðilar verða jafnframt á svæðinu í tilefni af 112 deginum.

112 dagurinn

112 dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu.
112 er samræmt neyðarnúmer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að minna á að aðeins þarf að kunna þetta einfalda númer til þess að fá aðstoð í neyð.

Markmiðið með 112-deginum er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs þeirra og samhæfingar.

Þema 112 dagsins að þessu sinni er öryggi á vatni og sjó og miðar að því að vekja fólk til vitundar um öryggi í og við vötn: í sundlaugum, náttúrubaðstöðum, við sjósundstaði, við hafnarveiðar og á sjó.

112 dagurinn í Stykkishólmi 2019
Getum við bætt efni síðunnar?