Fara í efni

Slökkviliðið í Stykkishólmi hélt upp á 110 ára afmæli

13.02.2024
Fréttir

Þann 10. febrúar síðastliðinn voru liðin 110 ár síðan stofnað var formlegt slökkvilið í Stykkishólmi en reglugerð um slökkvilið var sett þann dag árið 1914. Haldið var upp á þennan merka áfanga í húsnæði slökkviliðsins í Stykkishólmi á 112 daginn 11. febrúar síðastliðinn. Buðu þá slökkviliðsmenn og aðrir viðbragðsaðilar gestum að koma og skoða bíla og búnað á svæðinu og þiggja afmælisköku í tilefni dagsins. Þá voru fyrrum slökkvistjórar heiðraðir í tilefni dagsins og þeim fært gyllt barmmerki slökkviliðsins að gjöf. En það voru þeir, Þorbergur Bæringsson, Högni Bæringsson Álfgeir Marinósson og Hannes Gunnarsson sem voru heiðraðir.

Einar Þór Strand, slökkviliðsstjóri, flutti ávarp fyrir viðstadda þar sem hann rakti sögu burnavarna í Stykkishólmi. En sagan nær aftur til 1881 þegar fyrsta samþykkt um varnir gegn eldsvoðum var gerð en hún náði einkum til þess að sjá til þess að reykháfar væru hreinsaðir eða sótaðir tvisvar á ári. Í ávarpi sínu tíundaði Einar fyrstu skref sem stigin voru í brunavarnarmálum í Stykkishólmi og þann bílaflota sem liðinu hefur fylgt í gegnum tíðina. En fyrsti bíll slökkviliðsins var Chevrolet árgerð 1946 sem slökkviliðið eignaðist árið 1950. Í dag er aðalbíll slökkviliðsins Bens árgerð 1998 sem keyptur var frá Hollandi árið 2012. Árið 2017 var síðan keyptur MAN mjólkurbíll frá Þýskalandi, árgerð 2008, til að nota sem tankbíl til vatnsflutninga.

Þá benti Einar einnig að það sem huga mætti að til að bæta slökkvistarf á svæðinu enn fremur. Í því sambandi nefndi hann fyrst að slökkviliðið þyrfti að eiga körfu- eða stigabíl. Þá mætti huga að því að byggja nýja slökkvistöð, eða björgunarmiðstöð, endurnýja fyrsta dælubíl liðsins og síðast en ekki síst þyrfti að bæta vatnsöflun í dreifbýlinu. Það mætti gera með lagna- eða dælubíl með um 1500 til 2000 metrum af slöngum og einnig setja brunahana á vatnslögnina til bæjarins þar sem hún er aðgengileg nálægt vegi.

 

Ræðu slökkviliðsstjóra má lesa í heild sinni hér að neðan.

Saga brunavarna í Stykkishólmi nær aftur til 1881 þegar fyrsta samþykkt um varnir gegn eldsvoðum var gerð. Þá var ákveðið að ráða sótara og kaupa handa honum tól og tæki og að það ætti að sóta alla reykháfa tvisvar á ára einnig virðist sem eitthvað hafi verið keypt af strigafötum til að hafa tiltækar en formlegt slökkvilið var samt ekki stofnað.

Skömmu áður eða 1874 var fyrsta slökkviliðið á Íslandi stofnað en það var Slökkvilið Reykjavíkur og það næsta á Ísafirði 1883. Það er svo ekki fyrr en eftir stórbruna á Akureyri 1901 sem menn hefjast handa um að stofna slökkvilið og eru stofnuð lið á Seyðisfirði, Akureyri, Hafnarfirði, og Keflavík á næstu árum. Í byrjun árs 1914 eru svo sofnuð tvö lið, 14. janúar í Vestmannaeyjum og 10. febrúar hérna í Hólminum sem sýnir hversu framalega menn voru í hugsun í þessum málum. Þessar dagsetningar eru miðaðar við að þegar reglugerð um eldvarnir og slökkvilið voru gefnar út en það er nokkuð ljóst að menn voru farnir að huga að þessum málum fyrr því fyrsti slökkviliðsstjórinn var skipaður 1913 og var það M. Th. Möller póstafgreiðslumaður. Þarna haustið 1913 kemur svo fyrsta dæla slökkviliðsins, handdæla sem enn er til og er hérna til sýnis. Síðan árið 1933 kemur mótordæla sem líka er til. Fyrsti bílinn kemur síðan 1950 og er það Chevrolet árgerð 1946 sem byggður var af Erlendi Halldórssyni í Hafnarfirði en hann byggði um það bil 17 svipaða bíla til notkunar víðsvegar um Ísland. Árið 1969 kemur svo næsti bíll Bedford árgerð 1953, er reyndar sagður 1963 í pappírum en það gengur ekki upp þar sem síðasti bíllinn af þessari gerð var byggður 1956. Árið 1995 kom svo Bens, 1982 árgerð, sem enn er í notkun, Árið 2012 var keyptur 1998 árgerð af Bens frá Hollandi sem er okkar aðal bíll í dag, það er vert að geta þess að með honum kom hitamyndavél sem var ein af þeim fyrstu á landinu. Árið 2017 var síðan keyptur MAN mjólkurbíll, árgerð 2008, frá Þýskalandi til að nota sem tankbíl til vatnsflutninga og er hann einnig enn í notkun. Einnig á slökkviliðið tvær lausar dælur.

Þarna í upphafi voru menn ekkert að spara í mannafla og voru, eftir því sem ég kemst næst, 36 til 38 menn í liðinu en 1934 var búið að fækka niður í 20 til 25... kannski vegna þess að þá var komið véldæla, það þurfti nefnilega 6 menn á handdæluna og skipta á ca 5 mínútna fresti þannig að dælan ein tók 18 menn til að virka vel í einhvern tíma. Í dag eru í liðinu 20 til 25 á hverjum tíma.

Eitt er að eiga bíla og dælur en annað að komast í vatn og hér í Stykkishólmi var í raun skortur á vatni til slökkvistarfa viðvarandi þangað til vatnsveitan úr Svelgsárhrauni kom en hún var að fullu tekin til starfa árið 1977. Fram að því sjór í raun eina örugga slökkvivatnið sem kannski getur stundum skemmt meira en bjargað.

Varðandi annan búnað þá er svolítið erfiðara að finna upplýsingar en reikna má með að fyrstu reykköfunartækin hafi komið um svipað leyti og Bedfordinn eða um 1969 hugsanlegt er þó að menn hafi eitthvað notað venjulegar gasgrímur með síu fyrir þann tíma. Þegar ég kem hingað 1995 þá eru í notkun 4 reykköfunartæki sem er öll búið að taka úr notkun en í dag erum við með 14 tæki í notkun.

Árið 1998 komu svo fyrstu klippur til björgunar úr bílflökum og aðrar 2018.

Hlífðarbúnaður starfsamanna slökkviliðsins hefur einnig tekið stakkaskiptum frá því að menn mættu í eigin fötum og fengu kannski hjálm á höfuðið yfir að í dag er hver og einn með sinn eldgalla frá toppi til táar. Einnig hafa fjarskipti verið bætt verulega og er það verkefni enn í gangi. Það að reka slökkvilið er dýrt og mönnum finnst það stundum óþarfi því það kviknar jú aldrei í... En þegar áfallið gerist þá viljum við öll að það komi hjálp.

Núna er það einkum fernt sem „brennur“ á hjá okkur hérna í Hólminum í sambandi við brunavarnir og slökkvilið og það er að fá körfu eða stigabíl fyrir liðið, byggja nýja slökkvistöð/björgunarmiðstöð, endurnýja fyrsta dælubíl og síðast en ekki síst að koma okkur upp búnaði til að geta bætt vatnsöflun í dreifbýlinu það er lagna/dælubíl með ca 1500 til 2000 metrum af slöngum og líka setja brunahana á vatnslögnina til bæjarins þar sem hún er aðgengileg nálægt vegi.

Það er samt ekki bara tól og tæki sem gera brunavarnir góðar, eitt er að við hugum öll að okkar eigin vörnum eins og að hafa reykskynjara á heimilum, einn í hverju rými, hafa slökkvitæki á heimilinu og eldvarnarteppi og svo framvegis. Og síðast en ekki síst fara varlega með opinn eld svo sem kerti.

Svo er auðvitað að eiga góða rafvirkja.

Því er kannski rétt að enda á sögunni um rafvirkjana í Stykkishólmi.

Dag einn þegar Bensó var og hét og iðnaðarmenn komu þangað í hálftíu kaffi þá kom hálfbúi þangað inn og spurði hvernig hann gæti fengið rafvirkja í hvelli. Inni sátu tveir rafvirkjar og þögðu stíft... þannig að hálfbúinn ítrekaði spurninguna og enn ekkert svar... þangað til Emil spurði „liggur þér mikið á?“ Hálfbúinn svaraði „já ég verð að fá rafvirkja í hvelli“. Þá svaraði Emil „já, þá skaltu bara fara að læra rafvirkjun!“

En sagan er ekki búin enn því nokkrum mánuðum seinna var ég á Ísafirði þar sem menn sátu saman í kaffi (skal tekið fram þetta voru allt karlmenn) og voru að ræða rafvirkja eða öllu heldur skort á þeim. Þá sagði einn. „Vitið þið hvað þeir segja í Stykkishólmi.. (og eyrun á mér fóru að blakta) Þeir segja að ef þig vantar rafvirkja og þér liggur mikið á þá ferðu og finnur konu og semur við hana um að búa til rafvirkja“.

Þegar ég hafði sagt Emil þessa viðbót þá sagði hann að ekki mætti segja þessa sögu nema svona.

 - Ræða Einars Strand, slökkviliðsstjóra, í tilefni af á 110 ára afmæli liðsins 10. febrúar 2024.

Getum við bætt efni síðunnar?