Fara í efni

Stjórnun stuðningsþjónustu færist til Félags- og skólaþjónustu í tengslum við Gott að eldast

07.05.2025
Fréttir Þjónusta

Bæjarstjórn samþykkti á 5. fundi sínum þann 28. apríl sl. að færa ábyrgð og stjórnun á stuðningsþjónustu í sveitarfélaginu skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (heimaþjónustu o.fl.) til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, en stýring þjónustunnar hefur undanfarin ár farið fram á Höfðaborg. Yfirfærslan mun taka gildi frá og með 1. júní nk.

Þessi ákvörðun byggir á samþykktum breytingum á skipulagi á þjónustu við eldra fólk í tengslum við þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu Gott að eldast. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á daglegum rekstri eða þjónustu á Höfðaborg, enda áhersla á að tryggja megi áfram sambærilegt þjónustustig við eldra fólk á Höfðaborg eins og það var fyrir breytingarnar.

Gott að eldast verkefnið

Sumarið 2023 auglýstu félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið eftir svæðum til að taka þátt í þróunarverkefnum um samþætta heimaþjónustu. Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi f.h sveitarfélaga í landshlutanum óskuðu eftir þátttöku í þróunarverkefninu í nafni aðgerðaáætlunar stjórnvalda um þjónustu við eldra fólk, Gott að eldast. Var Sveitarfélagið Stykkishólmur eitt af þeim sveitarfélögum sem sóttist eftir að taka þátt í verkefninu.

Skilyrði fyrir þátttöku var að heilbrigðisstofnun sem rekur heimahjúkrun og sveitarfélög (aðilar) sem reka stuðningsþjónustu séu sammála um að einn aðili reki samþætta heimaþjónustu á tilteknu svæði; sveitarfélag, heilbrigðisstofnun eða að þau feli í sameiningu þriðja aðila rekstur þjónustunnar.

Var umsókn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi samþykkt og farið í markvissa vinnu við innleiðingu á verkefninu, m.a. skipuð verkefnastjórn. Verkefnastjórn hefur fundað nokkuð reglulega ásamt því að samþykkt var ákveðin tímalína í verkefninu með upphafstímasetningu á því hvenær samtalið væri að hefjast á hverjum stað fyrir sig:

  • Vor 2024 – Borgarbyggð og Skorradalur
  • Haust 2024 – Akranes og Hvalfjarðarsveit
  • Janúar 2025 – Ólafsvík, Grundarfjörður, Stykkishólmur og Eyja- og Miklaholtshreppur
  • Vor 2025 – Dalabyggð

Stjórnun stuðningsþjónustu færð á einn stað – Áfram sama þjónustustig

Samkvæmt verkáætlun Gott að eldast hefur lengi verið stefnt að því að ljúka samræmingu á Snæfellsnesi á vormánuðum 2025, en Snæfellsnes skilgreint sem eitt svæði í Gott að eldast verkefninu. Eitt af því sem legið hefur fyrir er að setja samræmdar reglur og samþykktir á Snæfellsnesi.

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga hefur leitt vinnu við gerð sameiginlegra reglna um stuðningsþjónustu fyrir öll sveitarfélög á Snæfellsnesi. Lögð var áhersla á mikilvægi samræmdra reglna fyrir allt svæðið þegar kemur að innleiðingu á Gott að eldast á Snæfellsnesi, til að tryggja jafnræði í þjónustu og koma í veg fyrir mismunun gagnvart þeim íbúum sem nýta sér þjónustu hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga.

Breytingin er því liður í samþættingu þjónustu sveitarfélaga á Snæfellsnesi og felur í sér að stjórnun og ábyrgð á stuðningsþjónustu færist til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga. Í framangreindri tilfærslu felst m.a. ábyrgð á stjórnun og rekstri stuðningsþjónustu skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og ábyrgð á daglegum störfum í málaflokknum, svo sem umsjón með umsóknarferlum, þjónustu, markmiðasetningu og gæðastarfi fyrir málaflokkinn sem og innleiðingu stefnumótunar. Þá munu önnur tilfallandi verkefni, sem falla undir málaflokkinn einnig flytjast til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga. Vegna þess að stjórnunarleg ábyrgð hefur færst til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga hefur starf forstöðumanns Höfðaborgar verið lagt niður frá og með 1. júní nk. og 25% staða verkefnisstjórnunar í heimaþjónustu, en sá hluti sem snýr að stöðugildum í heimaþjónustu verður endurmetin af hálfu Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga. Auk þess verða önnur verkefni Höfðaborgar flutt til annarra eininga innan stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Starfsfólk sem sinnir stuðningsþjónustu mun áfram hafa starfstöð á Höfðaborg en starfi þeirra verður stýrt af Félags- og skólaþjónustunni. Áfram mun félagsstarfi jafnframt vera sinnt af starfsfólki Höfðaborgar og önnur þjónusta Höfðaborgar sú sama, enda áhersla á að tryggð muni vera áfram sambærilegt þjónustustig við eldra fólk á Höfðaborg eins og hún er veitt í dag.

Getum við bætt efni síðunnar?