Strandveiðar hófust í dag
Strandveiðar hófust í dag, 5. maí, en 30 bátar með heimahöfn í Stykkishólmi hafa fengið standveiðileyfi. Alls hefur Fiskistofa gefið út 779 leyfi til strandveiða á landinu fyrir þetta sumar. Báturinn Jón afi var fyrstur til að landa í Stykkishólmi á tólfta tímanum nú í morgun og vigtaði aflinn 934 kg. Hverjum strandveiðibát er heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Heimilt er að veiða á handfæri allt að 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa á strandveiðum. Fiskmarkaður Íslands sinnir löndunarþjónustu í Stykkishólmi fyrir strandveiðar.
Óhætt er að gera ráð fyrir blómlegu mannlífi á höfninni í sumar. Matvagnarnir verða á sínum stað og grásleppuveiðar á Breiðafjarðarmiðum hefjast svo 20. maí samkvæmt venju.