Fara í efni

Umferðaröryggi bætt á Silfurgötu

30.07.2025
Fréttir

Í umhverfisgöngum bæjarstjóra sem hófust árið 2019 kom fram ákall um bætt umferðaröryggi í Stykkishólmi. Áður hafði verið bent á það á fundum skóla- og fræðslunefndar að rýna þyrfti þetta málefni sérstaklega m.t.t. umferðaröryggis á skólasvæðum. Frá þeim tíma hefur sveitarfélagið Stykkishólmur lagt ríka áherslu á að bæta umferðaröryggi í sveitarfélaginu og unnið markvisst að fjölmörgum úrbótum á því sviði, m.a. með bættum göngu- og tengistígum víðsvegar um bæinn.

Vorið 2022 var umferðaröryggisáætlun sveitarfélagsins samþykkt en víðtækt samráð við íbúa átti sér stað við gerð áætlunarinnar. Í áætluninni er m.a. lagt til að vinna gegn umferðarhraða á Silfurgötu með hraðahindrunum.

Sveitarfélagið hefur undanfarið, í samvinnu við VSÓ, kannað leiðir til að bæta umferðaöryggi á Silfurgötu með hraðatakmarkandi aðgerðum. Starfsmenn sveitarfélagsins munu setja upp umferðaröryggisbúnað í götunni (umferðareyjar/þrengingar) nk. föstudag, 1. ágúst. Með því er leitast eftir að auka öryggi bæði gangandi og akandi vegfarenda eins og best verður á kosið.

Silfurgatan í Stykkishólmi
Getum við bætt efni síðunnar?