Umhverfisganga bæjarstjóra
Umhverfisganga verður í Stykkishólmi dagana 15. til 18. september. Ástæða þess að gangan er í seinna falli þetta árið er að ákveðið var að bíða eftir að nýjir starfsmenn væru komnir til starfa og búnir að kynnast starfseminni áður en farið væri í umhverfisgönguna. Í göngunni mun bæjarstjóri ásamt öðrum fulltrúum sveitarfélagsins, ganga með íbúum um hverfi Stykkishólms og huga að nánasta umhverfi. Tilgangur með umhverfisgöngunni er að efna til samtals um nánasta umhverfi, hvað megi betur fara í frágangi og umhirðu bæjarins, auk þess að miðla upplýsingum um fyrirhugaðar framkvæmdir.
Síðasta ganga var árið 2021
Lagt er upp með að boða til umhverfisgöngu annað hvert ár en hún féll niður árið 2023 af óviðráðanlegum ástæðum. Síðast var umhverfisganga í Stykkishólmi því árið 2021 og þar áður árið 2019. Fjölmargar gagnlegar ábendingar bárust í þeim göngum og margt búið að gera sem íbúar bentu á. Aðrar ábendingar hafa einnig nýst vel og hafðar að leiðarljósi í ýmsum framkvæmdum.
Umferðaröryggi íbúum hugleikið
Í báðum göngum var umræða um umferðaröryggi áberandi en einnig var íbúum umhugað um leikvelli, gangstéttir og gönguleiðir í umhverfisgöngunni. Frá síðustu göngu hefur umferðaröryggisáætlun Stykkishólms verið samþykkt og hraðahindrunum komið fyrir á Silfurgötu í samræmi við hana. Nýr leikvöllur var tekinn í notkun á Garðaflöt og ráðist í endurbætur á leikvelli við Lágholt. Framundan er svo vinna við endurbætur á leikvelli á Skúlagötu en stefnt er að því að hann verði kominn í gott stand fyrir næsta vor. Þá hefur sveitarfélagið undanfarið lagt ríka áherslu á að bæta gönguleiðir innan- sem utanbæjar. Sveitarfélagið hefur undanfarið átt gott samstarfi við Skógræktarfélag Stykkishólms vegna uppbyggingar á gönguleiðum í Grensás sem tekið hafa miklum framfaraskrefum.
Gerum góðan bæ betri
Íbúar eru hvattir til að mæta og taka þátt í að gera góðan bæ enn betri. Gangan hefst mánudaginn 15. september kl. 16:30 við gatnamót Borgarbrautar og Skúlagötu. Gengið verður þá um Borgarbraut, Flatir og Víkurhverfi en kl. 18:00 hefst seinni ganga kvöldsins sem fer frá sama stað en þá verður gengið um Skúlagötu, Ægisgötu, Tangagötu og Austurgötu. Frá mánudeginum til fimmtudagsins verða tvær göngur sem hefjast á þessum tímum, 16:30 og 18:00. Nánari uplýsingar má finna hér að neðan og á meðfylgjandi mynd (hægt er að smella á myndina til að stækka hana).
Mánudagur 15. september
Kl. 16:30. Borgarbraut, Flatir & Víkurhverfi (mæting við gatnamót Borgarbrautar og Skúlagötu)
Kl. 18:00 Skúlagata, Ægisgata, Tangagata & Austurgata (mæting við gatnamót Borgarbrautar og Skúlagötu)
Þriðjudagur 16. september
Kl. 16:30 Aðalgata, Víkurgata, Laufásvegur, Hafnargata & Smiðjustígur (mæting við Bónus)
Kl. 18:00 Skólastígur, Frúarstígur, Bókhlöðustígur, Höfðagata & Þvervegur (mæting við Hólmgarð/Pylsuvagn)
Miðvikudagur 17. september
Kl. 16:30 Silfurgata, Reitarvegur & Sæmundarreitur (mæting við hafnargötu/Silfurgötu)
Kl. 18:00 Lágholt, Árnatún & Sundabakki (mæting við Lágholt/Silfurgötu)
Fimmtudagur 18. september
Kl. 16:30 Nesvegur, Nestún, Neskinn, Ásbrú & Ásklif (mæting við Orkuna/Þ.B. Borg)
Kl. 18:00 Hjallatangi, Tjarnarás, Búðarnes, Búðarnesvegur & Móholt (mæting við bakaríið)
