Unnsteinn Logi Eggertsson ráðinn í stöðu launafulltrúa
Unnsteinn Logi Eggertsson hefur verið ráðinn í stöðu launafulltrúa hjá Sveitarfélaginu Stykkishólmi. Staðan var auglýst í desember síðastliðinn. Alls sóttu sex manns um stöðuna.
Unnsteinn Logi lauk háskólaprófi frá Tækniskólanum sem iðnrekstrarfræðingur í desember 1997. Lengst af hefur Unnsteinn sinnt rekstri í ferðaþjónustu með gistingu, golfvallar- og veitingarekstri og býr að reynslu sem nýtist vel í nýju starfi. Í dag sinnir Unnsteinn stöðu framkvæmdastjóra hjá GF (Golfklúbburinn Flúðir) og fer með yfirumsjón með daglegum rekstri klúbbsins, sinnir launamálum, gerð ráðningasamninga ofl.
Þá býr Unnsteinn einnig yfir reynslu af málefnum sveitarfélaga en hann sat í sveitarstjórn Hrunamannahrepps 2014-2018 og hefur setið í ýmsum fastanefndum sveitarfélagsins ásamt samstarfsnefndum á vettvangi sveitarfélagana á Suðurlandi.
Frá 1. janúar 2015 hefur Ríkharður Hrafnkelsson gengt stöðu mannauðs- og launafulltrúa hjá sveitarfélaginu en hann lætur af störfum 27. mars næstkomandi. Rikka eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu samfélagsins og gott samstarf. Þá er Unnsteini Loga óskað til hamingju með nýju stöðuna og velfarnaðar í starfi. Gert er ráð fyrir að Unnsteinn Logi hefji störf fyrir sveitarfélagið um miðjan marsmánuð.