Fara í efni

Ársreikningur Stykkishólmsbæjar 2020

Málsnúmer 2104022

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 398. fundur - 29.04.2021

Haraldur Örn Reynissson endurskoðandi Stykkishólmsbæjar og Gyða Steinsdóttir sérfræðingur í endurskoðun KPMG komu inn á fund.
Á 626. fundi bæjarráðs var lagður fram ársreikningur Stykkishólmsbæjar til fyrri umræðu. Á fundinum samþykkti bæjarráð að vísa ársreikningi til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Bæjarstjóri gerði grein fyrir helstu áhrifum ársins 2020 á fjárhag bæjarins og helstu lykiltölum. Þá komu Haraldur Örn Reynissson, endurskoðandi Stykkishólmsbæjar, og Gyða Steinsdóttir inn á fund og gerðu grein fyrir ársreikningi Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2020 og svöruðu spurningum.

Helstu lykiltölur eru eftirfarandi:
Rekstrarniðurstaða A og B hluta var neikvæð um 74,6 millj. kr. og rekstrarniðurstaða A hluta var neikvæð um 167,4 millj. kr., en rekstrarniðurstaða A-hluta er óvenjuleg á árinu 2020 vegna einskiptis gjaldfærslu í kjölfar eftirgjafar á kröfu gagnvart Dvalarheimilinu.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2020 námu 1.698,5 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A- bæjarsjóð og B- hluta stofnanir og fyrirtæki, en þar af námu rekstrartekjur A-hluta, þ.e. bæjarsjóðs, 1.345,7 millj. kr.

Rekstrargjöld A og B hluta námu 1.577,9 millj. kr. Þar af námu rekstrargjöld A-hluta bæjarsjóðs 1.328,5 millj. kr.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar lækkar frá því að vera 195,3 millj.kr. árið 2019 í 99,2 millj.kr. árið 2020. Handbært fé í árslok 2020 er kr. 96,9 milljónir.

Skuldaviðmið A og B- hluta er 112% árið 2019, en er árið 2020 122% af skatttekjum, var árið 2018 er 120% af skatttekjum. Rekstrarjafnvægi áranna 2018-2019-2020 er jákvætt um 11,4 miiljónir kr.


Bæjarstjórn samþykkir að vísa ársreikningi Stykkishólmsbæjar til seinni umræðu í bæjarstjórn.

Til máls tóku:HH,JBJ,HÖR og GS
Haraldur og Gyða véku af fundi.

Bæjarstjórn - 399. fundur - 12.05.2021

Á 626. fundi bæjarráðs var lagður fram ársreikningur Stykkishólmsbæjar til fyrri umræðu. Á fundinum samþykkti bæjarráð að vísa ársreikningi til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Á 398. fundi bæjarstjórnar var samþykkt að vísa ársreikningi Stykkishólmsbæjar til seinni umræðu í bæjarstjórn.

Á 627. fundi bæjarráðs var ársreikningur samþykktur og honum vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur Stykkishólmsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2020 ásamt lokaeintaki endurskoðunarskýrslu.

Ársreikningur Stykkishólmsbæjar er gerður í samræmi við sveitarstjórnarlög, lög um ársreikninga og reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga og auglýsingar ráðuneytis sveitarstjórnarmála um reikningsskil sveitarfélaga. Vísað er til yfirferðar endurskoðenda við fyrri umræðu þann 30. apríl síðastliðinn. Engar breytingar hafa orðið á ársreikningnum frá fyrri umræðu. Endurskoðandi Stykkishólmsbæjar mun árita ársreikninginn með fyrirvaralausri áritun.

Bæjarstjóri gerir grein fyrir helstu atriði ársreiknings Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2020:

---
Rekstrarniðurstaða Stykkishólmbæjar (A og B hluta) samkvæmt ársreikningi sveitarfélagsins árið 2020 er neikvæð um 74,6 millj. kr. og rekstrarniðurstaða A hluta var neikvæð um 157 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi, en rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 120,6 millj. kr. Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2020 var gert ráð fyrir 78,4 millj. kr. í rekstrartapi og 121 millj. kr. fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld, en fjárhagsáætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 78,4 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða A hluta var neikvæð um 167,4 millj. kr. en áætlanir með viðaukum höfðu gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 155,9 millj. kr. Varðandi neikvæða rekstrarniðurstöðu A hluta er rétt að taka fram að á árinu 2020 var samþykktur viðauki í bæjarstjórn sem fól í sér framlag Aðalsjóðs til Dvalarheimilisins í Stykkishólmi að fjárhæð 153,6 millj. kr. til uppgjörs á skuldum heimilisins gagnvart Aðalsjóði. Skuld þessi er til komin vegna fjármögnunar Aðalsjóðs á rekstrarhalla einingarinnar um all nokkurt skeið. Bæjarstjórn hafði á árinu 2018 áður fært til gjalda í Aðalsjóði varúðarniðurfærslu að fjárhæð 86 millj. kr. í samræmi við mat á innheimtanleika kröfunnar. Einsýnt þótti, í ljósi niðurstöðu sambærilegra mála á árinu 2020, að ekki væru líkur á að krafan innheimtist og því var tekin sú ákvörðun að veita fyrrgreint framlag til heimilisins. Að teknu tilliti til áhrifa þessa á rekstur A hluta Stykkishólmsbæjar á árinu 2020 væri rekstrarniðurstaða A hluta neikvæð um 99,8 millj. kr. Þrátt fyrir að rekstrarniðurstaða Stykkishólmsbæjar sé neikvæð á árinu 2020 þá náði sveitarfélagið þeim markmiðum sem sett voru í fjárhagsáætlun með viðaukum fyrr árið.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2020 nam 852,2 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta um 884,1 millj. kr.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2020 námu 1.698,5 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A- bæjarsjóð og B- hluta stofnanir og fyrirtæki, en þar af námu rekstrartekjur A-hluta, þ.e. bæjarsjóðs, 1.322,6 millj. kr. Rekstrargjöld A og B hluta námu 1.577,9 millj. kr. Þar af námu rekstrargjöld A-hluta bæjarsjóðs 1.325,7 millj. kr.

Álagningarhlutfall útsvars var 14,52%. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki var 0,41%. Í B-flokki var álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall og í C-flokki var álagningarhlutfallið 1,57%, en sveitarstjórnir hafa heimild til að hækka álagningarhlutfall í A og C-flokki um allt að 25%. Útsvartekjur urðu lægri vegna covid-19 en fasteignagjöld gáfu hærri tekjur sem helgast m.a. af fjölgun fasteigna á síðasta ári.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar var um 23 millj. hærra í lok árs frá því sem áætlanir gerðu ráð fyrir, en lækkar þó frá því að vera 195,3 millj. kr. árið 2019 í 99,2 millj.kr. árið 2020. Handbært fé í árslok 2020 var kr. 96,9 millj. kr.

Hafnarsjóður var rekin með u.þ.b. 5,3 millj. kr. rekstrarafgangi sem stafar að mestu af aflagjalda og annarra umsvifa. Fráveita var rekin með 20,1 millj. kr. rekstrarafgangi sem er einnig nokkur hækkun á milli ára. Varðandi aðrar B-hluta stofnanir er rekstrarniðurstaða þeirra með þeim hætti hjá búsetu- og þjónustuíbúðum er neikvæður rekstrarafgangur sem nemur 2,4 millj. kr. og rekstrarafkoma Dvalarheimilis aldraðra í Stykkishólmi var jákvæð um 146,5 milljónir kr., sem stafar af niðurfellingu skulda við bæjarsjóð sem tekjufærist hjá Dvalarheimili, eins og fram kemur hér að framan. Aftur á móti er jákvæð rekstrarafkoma af félagslegar íbúðum sem nam um 0,3 millj. kr.

Heildarfjárfesting A og B hluta á árinu 2020 nam 173,6 millj. kr., en áætlanir með viðaukum höfðu gert ráð fyrir 180 millj. kr. fjárfestingu á árinu 2020. Lántökur námu 310 millj. kr. og afborganir langtímalána námu 196,5 millj. kr. Helstu fjárfestingar ársins 2020 voru: framkvæmdir við gangstéttar, stígagerð og ýmsar endurbætur á gatnamannvirkjum að fjárhæð 85,4 millj.kr., lagfæring og uppbygging á Íþróttamiðstöð og öðrum íþróttamannvirkjum að upphæð 20,4 millj.kr., lóð við grunnskóla og Amtbókasafn lagfærð fyrir 13 milljónir kr., endurbætur húsnæði Grunnskólans 6,4 millj.kr. og lagfærðar búseturéttaríbúðir fyrir 9,9 milljónir. Samtals var framkvæmt fyrir 173,6 milljónir kr. Vísast til kynningar bæjarstjóra við fyrri umræðu hvað varðar fjárfestingarverkefni ársins 2020.

Skuldir A og B hluta við lánastofnanir nema 1.962,8 millj. kr. og skiptast í langtímalán að fjárhæð 1.781,6 millj. kr og næsta árs afborganir langtímalána að fjárhæð 181,2 millj. kr. Þar af nema skuldir A hluta 1.622,1 millj. kr. Langtímaskuldir sveitarfélagsins hafa hækkað árinu 2020, en afborganir af lánum á síðasta ári námu 196,5 millj. kr. og ný lán á árinu námu 310 millj. kr.

Skuldaviðmið A og B- hluta er 122% árið 2020, en viðmiðið sveitarstjórnarlaga miðast við að skuldir séu hærri en 150% af tekjum. Til samanburðar var skuldaviðmið sveitarfélagsins 112% árið 2019, 120% árið 2018 og 138% árið 2017. Skuldahlutfall A og B hluta sveitarfélagsins var 148% árið 2020, samanborið við 134% árið 2019, 144% árið 2018 og 144% árið 2017. Rekstrarjafnvægi áranna 2018-2019-2020 er jákvæð um 11,4 milljónir, en áranna 2017-2019 var það jákvætt um 77,2 milljónir kr. og 2016-2018 jákvætt um 40,3 milljónir kr. Samkvæmt framangreindu er ljóst Stykkishólmsbær vel innan þeirra fjárhagslegu viðmiða sem sveitarstjórnarlög, reglugerðir þeim tengdum og öðrum viðmiðum sem leggja þær kvaðir á sveitarfélög að standast jafnvægisreglu og skuldareglu sveitarstjórnarlaga, þrátt fyrir að þær reglur hafi tímabundið verið afnumdar vegna COVID-19.

Covid-19 heimsfaraldurinn sem gengið hefur yfir undanfarna mánuði hefur haft veruleg áhrif á mörgum sviðum um allan heim þar með talið efnahagsleg. Enn ríkir óvissa um endanleg áhrif faraldursins s.s. vegna þess að ekki er vitað hve lengi hann mun vara og hver áhrifin munu verða eftir að honum lýkur. Áhrif faraldursins á rekstur sveitarfélagsins fólust meðal annars í lægri útsvarstekjum, endurgreiðslu á þjónustugjöldum vegna skerðingar þjónustu, í einhverjum tilfellum frestun innheimtu fasteignagjalda og annarra tekna auk þess sem aukning var á útgjöldum sem rekja má með beinum hætti til áhrifa Covid-19 og sóttvarnaraðgerða. Ljóst er að áhrifa faraldursins mun gæta inná árið 2021 og mögulega til næstu ára en það er mat stjórnenda að rekstrarhæfi sveitarfélagsins sé óskert.

----

Ársreikningur 2020 var borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hefur á fundi sínum í dag 12. maí 2021 afgreitt ársreikning fyrir bæjarsjóð og B-hluta fyrirtæki bæjarins vegna ársins 2020 að loknum tveimur umræðum í bæjarstjórn og umfjöllun í bæjarráði. Löggiltur endurskoðandi bæjarins hefur kynnt athugun sína á fjárreiðum bæjarins og sett fram ábendingar og lagt mat á reikninginn í endurskoðunarskýrslu sem liggur fyrir sem fylgiskjal með ársreikningnum.

Um einstaka liði í ársreikningi er vísað til skýrslu endurskoðanda og skýringar við ársreikninginn sem verður birtur á heimasíðu bæjarins.

Bæjarfulltrúar og bæjarstjóri árituðu síðan ársreikninginn.


Bókun bæjarfulltrúa H-listans vegna ársreiknings
Í upphafi faraldurs gerði bæjarstjórn ásamt stjórnendum sveitarfélagsins áætlun um áhrif faraldursins á rekstur sveitarfélagsins og tóku viðaukar síðasta árs mið af þessum áætlunum. Samkvæmt niðurstöðu ársins, sem birtist í þessum ársreikningi, má sjá að sú stefna var raunsæ og niðurstaða í samræmi við áætlanir. Bæjarfulltrúar H-listans fanga því að sveitarfélagið hafi náð þeim markmiðum sem sett voru í fjárhagsáætlun með viðaukum fyrir árið. Við undirrituð viljum þakka starfsfólki bæjarins fyrir að standa vel að rekstri sveitarfélagsins á árinu 2020, við erfiðar aðstæður, og fyrir þeirra framlag á erfiðum tímum vegna COVID-19. Að öðru leyti vísa bæjarfulltrúar H-listans til yfirferðar og bókunar bæjarstjóra, í fyrri og seinni umræðu, og fyrirliggjandi gögn.

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir
Gunnlaugur Smárason
Guðmundur Kolbeinn Björnsson
Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir


Til máls tóku:HH,LÁH,SIM og JBJ

Getum við bætt efni síðunnar?