Fara í efni

Viðauki 2 við Fjárhagsáætlun 2022-2025

Málsnúmer 2208016

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar - 2. fundur - 18.08.2022

Lagður fram viðauki 2 við fjárhagsáætlun 2022-2025.
Bæjarráð samþykkir viðauka 2 við fjárhagsáætlun 2022-2025.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar - 4. fundur - 22.09.2022

Lagður fram viðauki 2 við fjárhagsáætlun 2022-2025.

Vegna umræðu á meðal bæjarfulltrúa er málið lagt fram til staðfestingar í bæjarstjórn til að eyðu óvissu um fullnaðarákvörðun málsins.
Til að taka af allan vafa um þetta formsatriði er með staðfestingu bæjarstjórnar verið að eyða óvissu um réttmæti afgreiðslu bæjarráðs. Með vísan til þessa staðfestir bæjarstjórn umrædda afgreiðslu bæjarráðs varðandi viðauka 2 við fjárhagsáætlun 2022-2025.

Samþykkt með fjórum atkvæðum H-lista og þrír fulltrúar Í-lista sátu hjá.

Til máls tóku:HH,JBJ og HG


Bókun Hauks Garðarsonar, bæjarfulltrúa:
Undirritaður óskaði eftir því að málið yrði tekið á dagskrá bæjarstjórnar. Það var tekið fyrir á 2. bæjarráðsfundi þann 18.08.2022 en fellur ekki undir heimild til fullnaðarafgreiðslu skv. 33 gr. Samþykktar um stjórn Stykkishólmsbæjar um heimild bæjarráðs til fullnaðarákvörðunar.

“Bæjarráði er heimil fullnaðarafgreiðsla mála, þegar bæjarstjórn er í sumarleyfi, sem ekki varða verulega fjárhag bæjarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur milli bæjarráðsmanna eða við bæjarstjóra um slíka afgreiðslu.?

Um er að ræða tæpar 192,5 milljónir kr. lakari rekstrarniðurstöðu Stykkishólmsbæjar og varðar afgreiðslan því verulega fjárhag bæjarsjóðs eða stofnana hans og því þarf að taka málið fyrir í bæjarstjórn.

Íbúalistinn
Haukur Garðarsson


Bókun bæjarfulltrúa Í-lista:
Á fyrstu bæjarstjórnarfundum sameinaðs sveitarfélag var lögð fram ný fjárhagsáætlun og svo fyrsti viðauki við hana til að nálgast rétta stöðu fyrir sameinað sveitarfélag Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar. Sú vinna heldur nú áfram í 2. viðauka og mun væntanlega halda áfram á næstu fundum. Heildar áhrif 2. viðauka er 192.486.476 kr. lakari rekstrarniðurstaða en í 1. viðauka. Helstu breytingar nú eru annars vegar leiðrétting á áætlun um tæpar 46,5 milljónir án verðbólguáhrifa fyrir rekstur hjúkrunarrýma sem nú eru komin í rekstur hjá HVE og hins vegar verulega aukinn kostnaður vegna fjármagnsgjalda vegna hækkunar verðbólgu að upphæð ríflega 136,5 milljónir. Verðbólga í þessum viðauka er áætluð 9,3% en í upphaflegu áætlun var gert ráð fyrir 3,3%. Verðbólga stendur nú í 9,7%.

Í þessum viðauka er veltufé frá rekstri, sem er það fé sem reksturinn skilar í afborganir lána og framkvæmdir, um 59 milljónir, afborganir lána eru hins vegar 203 milljónir og því vantar 144 milljónir upp á að standa undir afborgunum. Búið er að taka 100 milljónir í lán á árinu en áætluð lántaka er 295 milljónir.

Enn á eftir að fara yfir margt í þessari áætlun og leggjum við áherslu á að endurskoða þarf framkvæmdaáætlunina og fjárfestingahreyfingar með tilliti til efnahagsaðstæðna enda er þar gert ráð fyrir ýmsum tekjum og fjárfestingum upp á hundruð milljóna sem ljóst er að ekki verður af á árinu.

Þar sem að framlagður viðauki er „verk í vinnslu“ og lýsir enn ekki nógu vel núverandi stöðu sameinaðs sveitarfélags, kjósum við að sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Íbúalistinn
Haukur Garðarsson
Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir
Ragnar Már Ragnarsson


Bókun bæjarstjóra:
Varðandi fyrri bókun Hauks Garðarssonar, bæjarfulltrúa, þá bendir bæjarstjóri á að í samskiptum vegna þessa máls kemur orðrétt fram í tölvupósti frá bæjarfulltrúanum 13. september sl. að hann sé ekki að biðja um að málin verði tekin fyrir aftur. Bæjarstjóri setti því málið á dagskrá bæjarstjórnarfundar í samráði við forseta bæjarstjórnar þar sem formleg ósk um að málin yrðu tekin fyrir barst ekki til þess að eyða meintri óvissu.

Varðandi bókun Í-lista þá bendir bæjarstjóri á að í viðaukanum er um 136 millj. kr. viðbót vegna hærri verðbólgu en áætlun gerði ráð fyrir, sem verið var að uppfæra til samræmi við þann raunveruleika sem við blasir á árinu (leiðrétta fyrir verðbólgu ársins), og um 46 millj. kr. vegna Dvalarheimilisins/hjúkrunarheimilisins í samræmi við samning við Heilbrigðisráðuneytið sem búið var að samþykkja í bæjarstjórn. Bæði atriði þessi atriði, sem eru eru ekki stefnumarkandi ákvarðanir, í raun formsatriði sem verið er að færa inn í viðaukann og gefa gleggri mynd af fjárhagsstöðu sveitarfélagins. Eftir sitja 9,4 millj. kr. sem óhætt er að fullyrða að séu ekki verulegar fjárhæðir í þessu sambandi.

Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson,
bæjarstjóri
Getum við bætt efni síðunnar?