Nýárspistill bæjarstjóra – Samfélag í vexti
Við áramót er gamall og góður siður að horfa um öxl og líta yfir farinn veg. Slík tímamót gefa okkur tækifæri til að þakka fyrir það sem áunnist hefur á liðnu ári, draga lærdóm af þeim áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir og ekki síst tilefni til að horfa björtum augum til framtíðar enda er full ástæða til.
Árið 2025 var viðburðarríkt í sveitarfélaginu, hvort sem litið er til menningar, tómstunda og/eða lista, atvinnumála eða framkvæmda og annarrar uppbyggingar í samfélaginu. Af hálfu sveitarfélagsins var megináhersla ársins að mæta vexti samfélagsins með nauðsynlegri innviðauppbyggingu, sér í lagi í ljósi stöðugrar íbúafjölgunar síðastliðinna tíu ára, og leggja þannig um leið traustan grunn að áframhaldandi framþróun sveitarfélagsins.
Margt var um að vera á árinu og ógerningur að gera öllu skil í einum pistli, en hér verður leitast við að draga fram nokkra markverða þætti ársins 2025.
Viðburðaríkt menningarár
Fjölmargir menningarviðburðir voru haldnir á árinu, bæði stórir og smærri, og endurspegla þeir lifandi og fjölbreytt menningarlíf í sveitarfélaginu.
Þorrablót var haldið að gömlum sið í febrúar 2025 og hefur blótið farið stækkandi með ári hverju. Eftir að það var flutt í íþróttamiðstöðina er rýmra um gesti og hefur þátttakendum fjölgað verulega á síðustu árum, líkt og íbúum í sveitarfélaginu. Viðburðir sem áður töldu um 250 gesti eru nú orðnir vel á fimmta hundrað. Aukið rými hefur jafnframt gefið þorrablótsnefndinni færi á að útfæra skemmtiatriðin með fjölbreyttari hætti og er umgjörðin í kringum blótið orðin hin glæsilegasta. Metnaðurinn sem þar endurspeglast lýsir vel þeim gildum og þeim metnaði sem býr í samfélaginu – og samfélög sem byggja á slíkum grunni eru öflug og kraftmikil. Það sem þó vegur þyngst er að þorrablótin veita okkur, ekki síst í gegnum skemmtiatriði og sögur sem sagðar eru um samferðarfólk með léttum og skoplegum hætti, nýja sýn á samfélagið og styrkja þannig tengsl okkar hvert við annað.
Rokkhátíðin Sátan fór fram í byrjun júní í annað sinn og tókst vel til. Viðtökur skipuleggjenda og gesta bera með sér að hátíðin standist væntingar og rúmlega það og má því gera ráð fyrir að hún sé komin til að vera. Norðurljósahátíðin var haldin á árinu, en hún fer fram annað hvert ár til skiptis við Danska daga. Hátíðin heppnaðist vel og voru hjónin frá Hraunhálsi, þau Jóhannes Eyberg Ragnarsson og Guðlaug Sigurðardóttir, heiðruð fyrir öflugt framlag sitt til menningarmála og söguvarðveislu í sveitarfélaginu.
Í nóvember voru 180 ár liðin frá því að Árni Thorlacius hóf samfelldar veðurfarsmælingar í Stykkishólmi sem hafa staðið óslitið síðan. Af því tilefni var efnt til málþings sem var haldið í Vatnasafninu 11. október síðastliðinn. Í kjölfar málþingsins var opnuð sýning í Norska húsinu, með verkum listamanna undir þemanu Vendipunktar. Markmið hennar var að brúa bil milli samfélags og vísinda og skapa samtal þar á milli. Hera Guðlaugsdóttir átti veg og vanda að viðburðinum en verkefnið var meðal annars styrkt af Safnaráði, Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Sveitarfélaginu Stykkishólmi. Listsýningin og málþingið, sem bar titilinn Andvarinn í himinsfari, var afar vel heppnuð, fróðleg og vel við hæfi við þessi tímamót.
Fjallkonan, aflraunakeppni kvenna, fór fram í júní í Snæfellsbæ og Stykkishólmi. Keppnin var fyrst haldin árið áður og tóku þá margar af sterkustu konum landsins á honum stóra sínum. Mikil ánægja var með keppnina og mætti því fylking hraustra kvenna aftur til leiks á liðnu ári.
Auk þess fóru fram fjölmargar aðrar hátíðir og viðburðir á árinu, þar á meðal Júlíana – hátíð sögu og bóka, Hræðileg helgi, Stykkishólmur Cocktail Week, Skotthúfan sem hélt upp á 20 ára afmæli sitt á síðasta ári og Tónlistarhátíðin Heima í Hólmi, svo fátt eitt sé nefnt.
Íbúar aldrei fleiri og umfangsmiklar framkvæmdir til að mæta því
Í sveitarfélaginu hefur verið stöðug íbúafjölgun síðustu 10 árin og ef íbúaþróun heldur áfram sem fram horfir má gera ráð fyrir að íbúafjöldi Stykkishólms og Helgafellssveitar nái sögulegu hámarki á árinu 2026. Það er ánægjulegt hversu margir hafa flutt til okkar, en það kallar á uppbyggingu innviða til samræmis við það og áframhaldandi ábyrga stefnu sveitafélagsins í þessum efnum. Það er óhætt að segja að á árinu 2025 hafi verið ár framkvæmda að mæta m.a. þessari jákvæðu íbúaþróun.
Víkurhverfið tók stakkaskipum á síðasta ári og eru nú fyrstu íbúar fluttir í hverfið, en gera má ráð fyrir að þeim fjölgi hratt á komandi misserum. Fimm íbúðir eru nú á sölu í hverfinu og mun Brák íbúðafélag auglýsa sínar íbúðir til leigu á næstunni, svo eitthvað sé nefnt. Þá má gera ráð fyrir að Stólpi ehf. hefji framkvæmdir við byggingu tíu nýrra íbúða á móti Brákar húsunum á næstu mánuðum og þá er ungt fólk jafnframt að byggja sér ný einbýlishús í hinu nýja hverfi (til viðbótar við íbúðarhúsnæði í byggingu á öðrum svæðum, t.d. í Hjallatanga). Það er því bjart yfir Stykkishólmi enda staðfestir þessi uppbygging þá trú sem fólk hefur á samfélaginu hér.
Miklar breytingar voru gerðar á húsnæðismálum Grunnskólans í Stykkishólmi, en unnið var markvisst að því á árinu að bæta aðbúnað og innviði skólans. Meðal annars var ráðist í framkvæmdir sem fólu í sér samtals um 350 fermetra viðbyggingar. Þær skiptast í nýjar kennslustofur og kennslurými, um 200 fermetrar, sem tengdar eru við núverandi byggingu grunnskólans og ný rými fyrir tómstunda- og æskulýðsstarf, m.a. fyrir Regnbogaland, um 150 fermetrar, sem tengd eru við Íþróttamiðstöð Stykkishólms. Markmið sveitarfélagsins með þessum framkvæmdum er að mæta aukinni rýmisþörf skólans og bæta vinnuaðstöðu kennara og starfsfólks. Ný og endurbætt rými gera skólanum kleift að skipuleggja kennslu, stoðþjónustu og frístundastarf með fjölbreyttari, nútímalegri og sveigjanlegri hætti. Nemendur munu einnig njóta aukins rýmis og betri aðstöðu til náms, sköpunar og samveru, sem stuðlar að aukinni vellíðan, virkni og enn jákvæðari skólabrag. Húsnæðin taka sig prýðilega vel út og hafa reynst dýrmæt viðbót við húsakost skólans og tómstundastarf sveitarfélagsins. Auk þess var lyfta sett upp í Grunnskólanum í Stykkishólmi á árinu, sem hefur staðið til frá byggingu skólans, sem mun bæta aðgengi og tryggja betri aðstöðu fyrir alla nemendur og starfsmenn.
Sundlaug Stykkishólms tók jafnframt miklum og jákvæðum breytingum á árinu. Nýtt snjóbræðslukerfi var lagt frá fataklefum að pottunum, skipt var um alla potta og glænýjum sauna- og innfrarauðum klefa var komið fyrir á bakkanum. Mikil aðsókn hefur verið í sundlaugina frá breytingunum enda aðstaðan með besta móti. Þá var lagt nýtt parket á íþróttagólfið í Íþróttamiðstöð Stykkishólms.
Umfangsmiklar malbikunarframkvæmdir stóðu yfir í lok september þegar Aðalgata var malbikuð frá Bónus að afleggjara Búðanesvegar. Einnig var malbikaður stór hluti Borgarbrautar, allt Víkurhverfið og minni blettir hér og þar um bæinn. Þá var ráðist í töluverðar framkvæmdir við Aðalgötuna í Stykkishólmi í júlí þegar skipt var út gamalli fráveitulögn áður en nýtt malbik fór á götuna, ásamt lagnaframkvæmdum við Borgarbraut og víðar. Framkvæmdin var umfangsmikil og fór eflaust ekki framhjá neinum sem átti leið um Hólminn á meðan framkvæmdum stóð.
Á árinu var ráðist í hraðatakmarkandi aðgerðir á Silfurgötu til að mæta ákalli íbúa um að bæta umferðaröryggi, en ákall um bætt umferðaröryggi kom m.a. fram í umhverfisgöngu á árinu 2019. Áfram verður horft til umferðaröryggis í áherslum sveitarfélaginu á komandi misserum og árum á grunni fyrirliggjandi vinnu.
Allt þetta og margt fleira var ráðist í á árinu.
Áherslur bæjarstjórnar gagnvart ríkinu skiluðu árangri
Á árinu 2025 beitti bæjarstjórn sér af krafti fyrir uppbyggingu þjóðvega sem liggja að og í sveitarfélaginu. Snemma á árinu funduðu sveitarstjórnir á Vesturlandi með Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, vegna hættuástands á vegum á Vesturlandi. Það skilaði sér í stórbættum fjárframlögum til viðhalds vega á Vesturlandi, ekki síst Snæfellsnesvegar milli Stykkishólms og Borgarness.
Bæjarstjórn lagði þunga áherslu á árinu á mikilvægi skelbóta, fyrst gangvart matvælaráðherra og síðar gagnvart innviðaráðherra eftir að málflokkurinn færðist til þess ráðuneytis. Voru á árinu send fjöldi ályktana og áskorana á bæði innviðaráðherra og þingmenn vegna málsins, sem fylgt var eftir á ótal fundum.
Þá hefur bæjarstjórn margoft fjallað um málefni Skógarstrandarvegar og mikilvægi hans. En vegurinn er nú loks forgangsverkefni í samgönguáætlun og mun sveitarfélagið halda áfram að fylgja málinu fast eftir gagnvart Alþingi, innviðaráðherra og Vegagerðinni.
Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu á árinu 2025 að krafa ríkisins um að eyjar og sker við landið verði þjóðlendur eigi ekki við rök að styðjast, en bæjarstjórn hafði andmælt harðlega áformum ríkisins í þeim efnum. Landey, Þórishólmi og Súgandisey, svo einhverjar eyjur séu nefndar, verða því áfram í eigu sveitarfélagsins.
Innviðagjald á skemmtiferðaskip var lækkað undir lok árs. Bæjarstjórn, á grunni vinnu atvinnu- og nýsköpunarnefndar Stykkishólms, hafði ítrekað bent á það hversu neikvæð áhrif umrætt gjald myndi koma til með að hafa á komur skemmtiferðaskipa sem raungerðist á árinu. Hefur gjaldið nú verið lækkað og mun það skýrast fljótlega hver komi til með að vera langtímaáhrif þessarar vegferðar ríkisins.
Að lokum er rétt að minnast á að sveitarfélagið tók á móti Ríkisstjórn Íslands í ágúst sl., en ríkisráðsfundur var haldinn í Stykkishólmi ásamt því að ríkisstjórnin fundaði með sveitarstjórnarfólki á Vesturlandi og heimamönnum. Ríkisstjórnin bauð jafnframt félagsmönnum Aftanskins og öðru eldra fólki í sveitarfélaginu til kaffisamsætis á Höfðaborg. Heimsókn ríkisstjórnarinnar gekk mjög vel og þakkaði forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar kærlega fyrir góðar móttökur og sérstaklega skemmtilega samkomu með eldra fólki í Stykkishólmi.
Önnur samfélagsmál árið 2025
Fjölmörg önnur stóðu uppúr á nýliðnu ári. Má þar á meðan nefna eftirfarandi:
- Af vettvangi Eyrbyggjusögufélagsins voru fyrstu sporin tekin í Eyrbyggjurefil haustið 2025.
- Ritað var undir nýjan samstarfssamning milli Sveitarfélagsins Stykkishólms og Umf. Snæfells þar sem stuðningur sveitarfélagsins við félagið var aukinn svo um munar.
- Snæfell náði góðum árangri í 1. deildinni og hreif Hólmara og Snæfellinga alla með sér.
- Árið 2025 var að hlýjasta í Stykkishólmi frá upphafi mælinga, áður hafði árið 2016 verið það hlýjasta.
- Hólmarar tók til hendinni á stóra plokkdeginum í apríl og plokkuðu í nánasta umhverfi af krafti.
- Aðstaða fyrir gesti tjaldsvæðis var stórbætt þegar ný viðbygging golfskálans var tekin í notkun.
- Samþykkt var að hefja samningaviðræður við Skipavík um umfangsmikla uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Víkurhverfi.
- Félagsheimilið Skjöldur hefur vaxið í vinsældum eftir að aðstaðan var bætt og fjárfest í búnaði. Mikil aðsókn er í að halda viðburði og veislur í húsinu.
- Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga hefur fært aðsetur sitt í Stykkishólmi frá sýsluskrifstofunni í Höfðaborg.
- Nýr sóknarprestur hefur tekið til starfa í Stykkishólmsprestakalli. Vil ég nýta þetta tækifæri og bjóða Hildu Maríu Sigurðardóttur velkomna til starfa. Þá vil ég skila kæru þakklæti til séra Gunnars Eiríks Haukssonar fyrir sitt framlag til samfélagsins okkar.
- Björgunarsveitin Berserkir hélt á dögunum upp á 50 ára afmæli og bauð félagið gestum og gangandi að þiggja kaffiveitingar af því tilefni.
- Boðað var til kvennaverkfalls í Stykkishólmi líkt og víða annarsstaðar um landið í október. Sveitarfélagið tók sem fyrr undir þau meginmarkmið kvennaverkfalls að hefðbundin kvennastörf, jafnt launuð sem ólaunuð, skuli meta að verðleikum.
- Annar fundur bæjarstjórnar unga fólksins fór fram í maí 2025. Bæjarstjórn unga fólksins er skipuð ungmennum úr ungmennaráði sem sjá um fundarstjórn og undirbúning fundar. Á fundinum kynntu fulltrúar bæjarstjórnar unga fólksins áherslumál sín og bæjarfulltrúar brugðust við.
- Nýtt skilti til minningar um vesturfara var afhjúpað á höfninni í Stykkishólmi. Skiltið er unnið í samvinnu við ættfræðifélagið Icelandic Roots. Félagið hefur það að markmiði að heiðra og halda á lofti sögu vesturfara og hjálpa fólki í Norður-Ameríku, og annars staðar í heiminum, að finna og efla tengsl sín við Ísland.
Skipulags- og umhverfismál
Umhverfisganga bæjarstjóra var gengin í september. Með göngunni er íbúum m.a. gefinn kostur til að koma ábendingum á framfæri og hafa þannig áhrif á eigið umhverfi. Þátttaka var góð og fjöldi góðra ábendinga komust til skila og nýtast bæjarfulltrúum og starfsfólki sveitarfélagsins á komandi tímum.
Undanfarið hefur mikil breyting orðið á hafnarsvæði við Skipavík. Sveitarfélagið auglýsti í lok síðasta sumars að til stæði að ráðast í tiltekt á svæðinu. Greint var frá áherslu hafnarstjórnar á að fegra og snyrta hafnarsvæðið við Skipavíkurhöfn, sér í lagi hvað varðar óhreyfða báta og vagna sem liggja jafnvel undir skemmdum. Sveitarfélagið fór þess á leit við eigendur báta og lausafjármuna á svæðinu að þeir fjarlægðu eigur sínar sem stóðu utan lóða á svæðinu og hefur svæðið tekið stakkaskiptum síðan.
Skipulagsmál eru oft á tíðum áberandi í starfi sveitarfélaga enda koma þau okkur öllum við. Á liðnu ári var skipulag fyrir Agustsonreitinn klárað. Sama gildir um skipulag fyrir atvinnusvæði við Hamraenda og Kallhamar og loks fór af stað vinna við nýtt aðalskipulag sveitarfélagsins, það fyrsta fyrir sameinað sveitarfélag.
Enn ein rósin bættist í hnappagat okkar Snæfellinga þegar nesið var útnefnt fyrsti UNESCO vistvangurinn á Íslandi. Snæfellsnes hefur lengi verið þekkt fyrir öflugt samstarf, ríka umhverfisvitund og sterka tengingu íbúa við náttúruna. Snæfellsnes hefur m.a. áunnið sér alþjóðlega umhverfisvottun EarthCheck í yfir 20 ár.
Á síðasta ári lagði sveitarfélagið áfram áherslu á göngustíga og umhverfisverkefni, sem hafa verið megin áhersla sveitarfélagsins undanfarin 5-6 ár, en þau verkefni styðja einnig við þá jávæðu ímynd sem Stykkishólmur státar af. Meðal annarra verkefna sem hafa verið unnin má nefna endurbætur á opnum svæðum og uppbygging göngustíga, m.a. í skógræktinni og tengileiðir innan þéttbýlis. Þá hafa ný blómabeð, trjágróður og ný græn svæði í bland við áður nefndar framkvæmdir orðið til þess að bæjarmyndin hefur tekið framförum í ásýnd.
Þó framkvæmdir sveitarfélagsins skipti miklu máli, þá er það fyrst og fremst þáttur íbúanna sem skapar hér snyrtilegt umhverfi með þeirri jákvæðu ímynd sem því fylgir. Það er því vert að nota tækifærið og þakka ykkur, kæru íbúar, fyrir ykkar framlag í þessum efnum. Það er umhyggja ykkar fyrir húsum, görðum og nærumhverfi sem gerir bæinn okkar hlýlegan og fallegan og gerir hann að stað sem okkur þykir vænt um og er okkur öllum til sóma.
Á persónulegum nótum
Áramót eru oft tími uppgjörs. Þótt árið 2025 hafi verið viðburðarríkt í starfi, þá var það jafnframt ár sem kenndi mér að horfa á hlutina í nýju ljósi.
Í upphafi árs fengum við Soffía tækifæri til að taka þátt í Þorrablótsnefnd Stykkishólms. Þorrablótið, sem fór fram í byrjun febrúar eins og áður sagði, var bæði skemmtilegt og afar gefandi verkefni – í raun algjör forréttindi að fá að vinna með góðu og hæfileikaríku fólki að viðburði sem sameinar bæjarbúa með þeim hætti sem ég hef komið inn á fyrr í þessum pistli. Fyrst og síðast minnti þessi reynsla mig á hversu dýrmætt það er að búa í góðu og samhentu samfélagi.
Tveimur vikum eftir þorrablótið tók árið þó óvæntan snúning þegar Soffía mín veiktist alvarlega. Sá atburður hefur markað árið 2025 fyrir okkur fjölskylduna og minnt mig á það, af fullum þunga, hvað skiptir mestu máli í lífinu. Slíkir atburðir hafa óhjákvæmilega áhrif á mann inn á við, en hjálpa jafnframt til við að gera forgangsröðunina skýrari sem og að minna mann á að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og fyrir þá sem standa manni nærri – því ekkert í þessu lífi er sjálfsagt.
Áskoranir lífsins eru margvíslegar, en þær eiga það sammerkt að þeir sem takast á við þær af jákvæðni og þrautseigju koma að jafnaði sterkari út úr slíkri lífsreynslu. Ég er sannfærður um að þessi reynsla muni styrkja okkur sem persónur og það eitt er dýrmætt.
Við Soffía höfum fundið fyrir miklum hlýhug, skilningi og stuðningi á árinu og fyrir það erum við afar þakklát.
Með þakklæti fyrir samvinnu, samtöl og samveru á árinu 2025 óska ég íbúum sveitarfélagsins, sem og landsmönnum öllum, farsældar og gleði á nýju ári.




