Skólar
Sveitarfélagið Stykkishólmur rekur leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla skv. lögum og reglum þar að lútandi.
Grunnskólinn í Stykkishólmi
Skólahald á sér langa sögu í Stykkishólmi, árið 1896 var fyrsta skólahúsið byggt og formlegur rekstur barnaskóla hófst. Barnaskólinn í Stykkishólmi tók svo til starfa árið 1935 í nýju húsnæði á Skólastíg og þar var allt skólastarf þar til nýtt skólahús við Borgarbraut 6 var vígt 1986. Til að byrja með var kennt í báðum skólunum, yngri nemendur í þeim gamla og eldri nemendur í þeim nýja, en árið 2009 var allt skólahald fært yfir í skólann við Borgarbraut þar sem yngsta- mið- og efsta stig nemenda er nú.
Í Grunnskóla Stykkishólms er kennt í tíu bekkjardeildum í 1. - 10. bekk og boðið er upp á lengda viðveru fyrir börn í 1. - 4. bekk. Skólastarfið tekur mið af Aðalnámskrá og skólastefnu sveitarfélagsins. Lagt er upp með gott samstarf á milli fjölskyldu og skóla og að útskrifa glaða, samvinnufúsa og sjálfstæða einstaklinga, samanber einkunnarorðin sem eiga einnig samsvörun í skammstöfun skólans GSS.
Einkunnarorð: Gleði – Samvinna – Sjálfstæði
Netfang: grunnskoli@stykk.is
Leikskólinn í Stykkishólmi
Í Stykkishólmi hefur verið rekinn leikskóli frá árinu 1957. Systurnar í St. Franciscusreglunni sáu um reksturinn til 1980, og eftir það í samstarfi við sveitarfélagið sem kom að rekstrinum með fjárframlögum. Það fyrirkomulag hélt sér til 1997 þegar sveitarfélagið tók alfarið við rekstrinum. Árið 2007 flutti leikskólinn í núverandi húsnæði og er nú fjögurra deilda skóli sem býður upp á vistun frá 12 mánaða aldri fram að grunnskólagöngu. Deildirnar heita Bakki, Vík, Nes og Ás og eru nemendur nú yfir 80 talsins.
Einkunnarorð: Virðing – Gleði – Kærleikur
Netfang: leikskoli@stykkisholmur.is
Tónlistarskóli Stykkishólms
Tónlistarnám á sér einnig langa og merkilega sögu í Stykkishólmi og var tónlistarskóli stofnaður árið 1964. Skólinn er nú staðsettur í gamla barnaskólanum að Skólastíg 11 en yngstu nemendur í forskóla stunda sitt nám í grunnskólanum. Tónlistarskólinn býður upp á fjölbreytt nám og vel menntaða kennara auk þess sem lúðrasveit er starfandi á vegum skólans.
Netfang: tonlistarskoli@stykkisholmur.is
Fjölbrautarskóli Snæfellinga
Fjölbrautarskóli Snæfellinga er staðsettur í Grundarfirði en sveitarfélögin á Snæfellsnesi í nafni Jeratúns ehf eiga og reka húsnæði skólans.
Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga
Byggðasamlag sveitarfélaganna Eyja- og Miklaholtshrepps, Grundarfjarðarbæjar, Snæfellsbæjar og Sveitarfélagsins Stykkishólms rekur Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga (FSS).
Hlutverk stofnunarinnar er að annast skólaþjónustu við grunn- og leikskóla aðildarsveitarfélaganna ásamt því að annast alla félagsþjónustuþætti og málefni barnaverndar á þjónustusvæðinu.
Stofnunin annast einnig rekstur málaflokks fatlaðs fólks og er í þeim málaflokki hluti Þjónustusvæði Vesturlands bs.
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi er staðsett í Stykkishólmi og er til húsa í Ráðhúsi Stykkishólms, Hafnargötu 3.