Fara í efni

Eyberg og Guðlaug heiðruð á opnunarhátíð Norðurljósa

24.10.2025
Fréttir Lífið í bænum

Menningarhátíðin Norðurljósin er haldin í áttunda sinn í Stykkishólmi nú um helgina. Opnun hátíðarinnar fór fram í Stykkishólmskirkju í gær, fimmtudag, og var það Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar setti hátíðina og flutti ávarp.

Opnunarhátíðin var vel sótt og skemmtiatriðin framúrskarandi. Norðurljósahátíðin hefur ætíð miðað að því að heimafólk skemmti sér og öðrum en í gær komu fram Friðrik og Birta Sigþórsbörn, Jón Dagur Jónsson, Bence Petö og László Petö. Þá kom einnig fram Sævar Helgi Bragason, sem gjarnan er kallaður Stjörnu Sævar, og fræddi viðstadda um almyrkann 2026.

Jóhannes Eyberg Ragnarsson og Guðlaug Sigurðardóttir heiðruð

Líkt og á fyrri Norðurljósahátíðum veitti bæjarstjórn viðurkenningu fyrir framlag til lista-, menningar- og samfélagsmála í sveitarfélaginu. Það var Hrafnhildur Hallvarðsdóttir sem kom fram fyrir hönd bæjarstjórnar og ávarpaði salinn. En að þessu sinni voru það hjónin Jóhannes Eyberg Ragnarsson og Guðlaug Sigurðardóttir sem hlutu viðurkenningu fyrir sitt öfluga framlag til menningarmála og söguvarðveislu í sveitarfélaginu.

Hér að neðan má lesa ávarp Hrafnhildar frá athöfninni.

Líkt og á fyrri Norðurljósahátíðum þykir okkur við hæfi að veita fólki sem sett hefur svip sinn á lista- og menningarmál sveitarfélagsins viðurkenningu fyrir sinn hlut.

Að þessu sinni hefur verið ákveðið að heiðra tvo einstaklinga sem vill svo skemmtilega til að deila sama heimilisfangi. Um er að ræða hjón sem á öðrum vettvangi hafa fengið Heiðursviðurkenningu fyrir vinnusemi og þrautseigju í starfi á sviði landbúnaðar.

Hjónin eru búsett á Hraunhálsi í Helgafellssveit og hafa rekið þar blómlegt bú í yfir 40 ár. Bú þeirra var m.a. útnefnt sem fyrirmyndarbú nautgripabænda BÍ.

Þótt þau hafi hætt með kýrnar árið 2023 stunda þau nú sauðfjárbúskap með tæplega hundrað kindur og hafa einnig náð góðum árangri og fengið verðlaun fyrir þann búskap.

Samhliða búskapnum hafa þau lagt gríðarlega vinnu í að varðveita sögu sveitarinnar og hefur þetta orðið að miklu áhugamáli. Þau eru að byggja upp söguminjasafn á bænum algjörlega að eigin frumkvæði. Þau hafa innréttað vélaskemmu með bókasafni og aðstöðu til funda þar sem sögulegir munir, skjöl og fundargerðarbækur frá bæjum í sveitinni eru varðveitt. Þar má meðal annars finna fyrstu dráttarvélina sem kom á Snæfellsnes, árgerð 1929, auk annarra gripa.

Þau eru einnig virk í félagsmálum, eru í stjórn Eyrbyggjusögufélagsins, sem var stofnað árið 2021 með það að markmiði að auka áhuga á Eyrbyggjasögu. Félagið hefur staðið fyrir sögugöngum um sögustaði og leshringjum um söguna og síðata verkefnið er að standa fyrir því að saumaður verði refill um Eyrbyggju. Metnaður þeirra fyrir að varðveita sögu og menningu Helgafellssveitar er því til mikillar fyrirmyndar.

Ég vil biðja hjónin Guðlaugu Sigurðardóttur og Jóhannes Eyberg Ragnarsson að koma hingað upp og taka við viðurkenningu frá bæjarstjórn Sveitarfélagsins Stykkishólms.

Þétt skipuð dagskrá

Dagskráin Norðurljósanna í ár er afar vegleg en hún hefur verið borin út í öll hús og er fólk hvatt til að kynna sér hana vel og njóta helgarinnar. Dagskránna má eining finna hér.

Eyberg og Guðlaug voru heiðruð á opnunarhátíð Norðurljósa 2025
Getum við bætt efni síðunnar?