Fara í efni

Nýtt nafn sveitarfélagsins samþykkt

27.01.2023
Fréttir

Fimmtudaginn 26. janúar samþykkti bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar nýtt nafn sveitarfélagsins. Haldin var hugmyndasamkeppni sl. sumar þar sem öllum var gefin kostur á að senda inn sína hugmynd að nafni á sveitarfélagið, alls bárust 73 tillögur. Bæjarstjórn samþykkti að senda átta álitlegar tillögur til umsagnar Örnefnanefndar. Af þeim nöfnum sem Örnefnanefnd fékk til umsagnar taldi nefndin nöfnin Þórsnesþing, Stykkishólmsbær og Sveitarfélagið Stykkishólmur falla best að nafngiftahefð í landinu.

Á níunda fundi bæjarstjórnar, 26. janúar, var nafnið Sveitarfélagið Stykkishólmur samþykkt.

Ávarp forseta bæjarstjórnar og umræður á fundinum

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar, hélt greinargott ávarp á fundinum þar sem farið var yfir ferli sameiningarinnar. Hér að neðan má lesa ávarp forseta bæjarstjórnar:

„Sveitarfélagið Stykkishólmsbær, áður Stykkishólmshreppur, átti í raun um 130 ára sögu, en saga Helgafellssveitar var mun lengri enda var grunnurinn að stofnun Stykkishólmshrepps lagður á seinnihluta 19. aldar þegar fram komu hugmyndir um skiptingu Helgafellssveitar upp í tvö sveitarfélög og þá á grunni sóknarskiptingar þess tíma, þ.e. Stykkishólmssókn og Helgafells- og Bjarnarhafnarsóknir. Þá voru aðrir tímar og á þessum árum var hugsunin t.d. sú að hafa sveitarfélög minni til þess að hafa betri yfirsýn yfir aðflutt og bjargarlaus fólk. Var formlega gengið frá skiptingunni árið 1892 þar sem Helgafellssveit hin forna var skipt upp í tvö sveitarfélög.

Þegar fulltrúar Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar ákváðu að hefja formlega sameiningaviðræður var ljóst að tvö nágranna sveitarfélög voru að hefja á jafnréttisgrunni formlegt samtal um kosti og áskoranir sameiningar sveitarfélaganna. Lauk þeirri vegferð með því að 26. mars 2022 samþykktu um níutíu og tvö prósent íbúa í Stykkishólmi tillöguna og sjötíu og níu prósent í Helgafellssveit. Þannig hefur verið sagt að með sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga á síðasta ári hafi Helgafellssveit hin forna verið að taka aftur yfir hinn unga Stykkishólmshrepp.

Sameining þessara sveitarfélaga átti sér einnig sýna forsögu enda hafði sameining Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar verið samþykkt í atkvæðagreiðslu árið 1994, í Stykkishólmi með yfirgnæfandi meirihluta en í Helgafellsveit var hún samþykkt með 24 atkvæðum á meðan 22 höfnuðu sameiningu. Sú atkvæðagreiðsla hins vegar dæmd ógild vegna of þunnra kjörseðla. Í kjölfarið var hún endurtekin árið eftir og þá var sameiningin felld á jöfnum atkvæðum í Helgafellssveit. Var því sameining Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar, sem samþykkt hafði verið 1994, afturkölluð árið 1995 eftir endurtekna atkvæðagreiðslu um sameiningu. Í ljósi forsögunnar var afar ánægjulegt að nauðsynleg sátt myndaðist meðal íbúa beggja sveitarfélaga um sameininguna á síðasta ári.

Innviðaráðherra staðfesti þann 4. apríl sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar í eitt sameinað sveitarfélag og tók sameiningin formlega gildi sunnudaginn 29. maí 2022, en þá tók jafnframt nýkjörin bæjarstjórn við sameinuðu sveitarfélagi Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar.

Ljóst var að bæjarstjórn þyrfti að taka ákvörðun um nafn á hinu nýja sameinaða sveitarfélagi. Var sett á laggirnar söfnun hugmynda um nafn sameinaðs sveitarfélags Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar og var hugmyndasöfnunin var öllum opin. Allar tillögur birtust nafnlaust á vefsvæði og tekið fram að sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags tæki endanlega ákvörðun um heiti sveitarfélagsins. Alls bárust 73 tillögur og voru helstu tengingarnar samkvæmt tillögunum, með einhverjum útfærslum, við Stykkishólm, Þórsnes, Helgafellssveit og Breiðafjörð.

Á 2. fundi bæjarstjórnar sameinaðs sveitarfélags voru lagðar fram hugmyndir að nafni sameinaðs sveitarfélags sem bárust í samráðsgátt og samþykkti bæjarstjórn samhljóða að senda eftirfarandi nöfn til umsagnar hjá Örnefnanefnd.

 • Þórsnesþing
 • Stykkishólmsbær
 • Stykkishólmsbær og Helgafellssveit
 • Stykkishólmur og Helgafellsveit
 • Helgafellssveit
 • Sveitarfélagið Stykkishólmur
 • Breiðafjarðarbær
 • Breiðafjarðarbyggð

Af þeim nöfnum sem Örnefnanefnd fékk til umsagnar taldi hún nöfnin Þórsnesþing, Stykkishólmsbær og Sveitarfélagið Stykkishólmur falla best að nafngiftahefð í landinu.

Nefndin lagðist gegn nöfnunum

 • Stykkishólmsbær og Helgafellssveit
 • Stykkishólmur og Helgafellssveit
 • Breiðafjarðarbær
 • Breiðafjarðarbyggð

Bæjastjórn samþykkti í kjölfarið að boða til íbúafundar vegna nafns á nýja sveitarfélaginu þar sem kynnt yrði greinargerð Örnefnanefndar og boðið til samtals um niðurstöðu Örnefnanefndar og fyrirliggjandi tillögur. Sá fundur var haldinn 3. desember 2022 og var vel sóttur. Á fundinum sköpuðust gagnlegar og góðar umræður um nafn hins sameinaða sveitarfélags.

Á 7. fundi bæjarstjórnar, sem fram fór eftir að íbúafundur var halinn, kom fram að bæjarfulltrúar væru sammála því að tvö nöfn kæmu til greina, Sveitarfélagið Stykkishólmur eða Stykkishólmsbær.

Að þessu sögðu er það mín persónulega skoðun, eftir að hafa tekið fjölmörg samtöl við íbúa og heyrt ákall þeirra á íbúafundi sem haldinn var vegna málsins og eftir að hafa rætt málið ítarlega við aðra bæjarfulltrúa að það færi betur á því að nýtt nafn á hinu nýja sameinaða sveitarfélagi verði Sveitarfélagið Stykkishólmur, meðal annars vegna þess að það nafn heldur rótgrónu nafni Stykkishólms á lofti ásamt því að gefa til kynna að hér sé ekki aðeins um þéttbýlt svæði að ræða heldur einnig dreifbýli.“

Erla Friðriksdóttir, bæjarfulltrúi, kvaddi sér jafnframt hljóðs í kjölfar ávarps forseta bæjarstjórnar og gerði grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Í máli Erlu kom fram að hún hefði viljað sjá þessar þrjár tillögur sem Örnefndanefnd mælti með, þ..e. Sveitarfélagið Stykkishólmur, Stykkishólmsbær og Þórsnesþing, fara í íbúakosningu, en af þeim tveimur tillögum sem eftir standa þá hefði nafnið Stykkishólmsbær það þó framyfir hitt nafnið að það væri ódýrara að halda því þar sem ekki þyrfti að skipta m.a. um heiti sveitarfélagsins á bréfsefnum eða á merkjum sem sett hafa verið upp. Þá séu fyrirhugaðar aðrar sameiningar innan tíðar og mun nafnið væntanlega taka þá aftur breytingum þegar þær ganga í gegn. Að þessu sögðu lýsti Erla Friðriksdóttir stuðningi við nafnið Stykkishólmsbær.

Kosið um tvær tillögur

Tvær tillögur að nafni lágu fyrir fundinum og því ekki kosið um eitt nafn umfram annað, heldur greiddu bæjarfulltrúar atkvæði um hvort nafnið yrði fyrir valinu með handauppréttingu og eftir eigin sannfæringu.

Tillögurnar voru, sem áður segir, Sveitarfélagið Stykkishólmur og Stykkishólmsbær

Samkvæmt niðurstöðu atkvæðagreiðslu fékk nafnið Sveitarfélagið Stykkishólmur 4 atkvæði en nafnið Stykkishólmsbær 3 atkvæði og var samkvæmt því nýtt samþykkt nafn: Sveitarfélagið Stykkishólmur.

Að lokum las Hrafnhildur upp bókun H-lista um afstöðu bæjarfulltrúa listans til málsins. Bókunin var eftirfarandi.

Bókun H- lista

Á íbúafundi sem haldinn var vegna nafns á hinu nýja sameinaða sveitarfélagi þar sem kynnt var greinargerð Örnefnanefndar og íbúum boðið til samtals um niðurstöðu og fyrirliggjandi tillögur hennar kom fram sterkt ákall um að kenna hið sameinaða sveitarfélag við Stykkishólm. Í kjölfar þess fundar hafa bæjarfulltrúar H-listans fundið fyrir ákalli um, sérstaklega fá íbúum í dreifbýli, að nafnið Stykkishólmsbær endurspegli ekki nægjanlega vel hið sameinaða sveitarfélag. Hefur meðal annars verið bent á að eftirliðurinn bær eigi frekar við um þéttbýli rétt eins og að sveit eigi við um dreifbýli. H-listinn telur að með nafninu Sveitarfélagið Stykkishólmur sé betur komið til móts við þessi sjónarmið og nái jafnframt betur utan um hið sameinaða sveitarfélag. Gefur það nafn til kynna að í sveitarfélaginu sé ekki aðeins um þéttbýlt svæði að ræða heldur einnig dreifbýli. Þá liggur fyrir að óformlegar viðræður eru um sameiningu sveitarfélaga eru á svæðinu sem myndi leiða til þess að nafnið tæki aftur breytingum, en þar sem sveitarfélagið mun vera kennt við Stykkishólms mun ekki felast í því nein breyting á lénum eða öðrum þáttum hvað varðar kostnað við hið nýja nafn. Nafnið Sveitarfélagið Stykkishólmur er jafnframt í samræmi við umsögn Örnefnanefndar sem taldi fara vel á því að kenna nýsameinað sveitarfélag við Stykkishólm og samkvæmt Örnefnanefnd samræmis það nafn meginsjónarmiðum örnefnanefndar um nöfn sveitarfélaga.

Bæjarfulltrúar H-listans:
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir
Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir
Ragnar Ingi Sigurðsson
Þórhildur Eyþórsdóttir

Sveitarfélagið Stykkishólmur
Getum við bætt efni síðunnar?