Fara í efni

Vilt þú niðurfelld leikskólagjöld í desember?

17.11.2023
Fréttir

Í tengslum við vinnu sveitarfélagsins um styrkingu leikskólans í Stykkishólmi samþykkti bæjarstjórn Stykkishólms tillögu skóla- og fræðslunefndar, að á þessu skólaári verði lokað í leikskólanum 22. desember og 2. janúar og foreldrar beðnir um að skrá börn sín sérstaklega ef þau hyggjast nýta leikskólavistun milli jóla og nýárs. Þá samþykkti bæjarstjórn jafnframt á sama grundvelli að foreldrum gefist færi á því að fá leikskólagjöld fyrir desembermánuð felld niður gegn því að velja aðra af tveim leiðum hér að neðan:

  • Leið 1:
    Börn eru frá leikskóla í eina viku fyrir eða eftir sumarfrí og dymbilviku, samtals átta daga. Elstu börnin væru frá leikskóla vikuna fyrir sumarfrí í ljósi þess að þau færast í grunnskóla eftir sumarfrí.
  • Leið 2:
    Börn lengja sumarfríið um tvær vikur í annan hvorn endann eða viku í hvorn enda, samtals tíu auka frídagar. Elstu börnin færu þá í sumarfrí tveimur vikum fyrir almennt sumarfrí í ljósi þess að þau færast í grunnskóla eftir sumarfrí.

Vakin er athygli á að um er að ræða tilfærslu á gjöldum að hluta til. Í stað þess að fá felld niður gjöld þá daga sem börn mæta ekki til leikskóla samkvæmt Leið 1 og Leið 2, fá foreldrar öll leikskólagjöld í desember felld niður í staðinn (gjöld fell niður fyrir heilan mánuð gegn því að börnin séu frá leikskóla í 8 eða 10 daga á árinu 2024, eftir hvor leið er valin). Þannig fá foreldrar gjöld fyrir fleiri daga niðurfelld en ella.  

Þá er sérstaklega bent á að áður var tilkynnt um að fæðisgjald myndi ekki falla niður í desember, en ákveðið hefur verið að fella jafnframt fæðisgjald niður fyrir desembermánuð fyrir þá sem velja annað hvort Leið 1 eða Leið 2 til viðbótar við áður tilgreinda tilfærslu á gjöldum og koma þannig enn frekar til móts við foreldra. Svo dæmi sé tekið um barn í 8 tíma vistun þá þarf hvorki að greiða leikskólagjald (kr. 37.707) né fullt fæði (kr. 11.126), samtals kr. 48.833 gjaldfrelsi í desember. Á móti verður leikskólagjöld óbreytt þá 8 daga (kr. 18.028 miðað við sömu forsendur) eða 10 daga (kr. 22.535 miðað við sömu forsendur) sem barn er ekki í leikskóla á umræddum tíma á árinu 2024. Gjaldtaka verður felld niður í desember vegna lokunar 2. janúar og 22. desember hjá þeim sem nýta ekki leiðirnar hér fyrir ofan (kr. 4.507  m.v. sömu forsendur og hér að framan). 

Þeir sem hyggjast nýta þjónustu leikskólans á milli jóla og nýárs 2023 greiða þó fyrir fæðisgjald þá daga. Að sama skapi greiða þeir sem ekki velja Leið 1 og Leið 2 fæðisgjald í desember.

Foreldrar sem hyggjast nýta þessi úrræði eru minntir á að bæði þarf að skrá í daga með lágmarksstarfsemi, þ.e. dagana 27.-29. desember, og tilkynna um val á Leið 1 eða Leið 2 fyrir 22. nóvember næstkomandi.

Sveitarfélagið er meðvitað um að upp geta komið sérstök tilvik sem þarf að leysa og þá eru þau mál afgreidd hverju sinni eftir þörfum.

Áhersla á styrkingu leikskólastarfs í Stykkishólmi

Undanfarin ár hefur leikskólastarf á Íslandi tekið nokkrum breytingum. Árið 2020 var stofnaður starfshópur á vegum menntamálaráðherra sem skilaði af sér lokaskýrslu árið 2021 um styrkingu leikskólastigsins. Hópurinn lagði fram fjölþættar tillögur um hvernig efla megi skólastarf á leikskólastigi. Í þessu sambandi samþykkti bæjarstjórn Stykkishólms á 7. fundi sínum 8. desember 2022 að hefja sérstaka vinnu við styrkingu leikskólastarfs í sveitarfélaginnu ásamt aðgerðaráætlun strax á nýju ári til eflingar á starfsemi skólans, m.a. með áherslu á bætt starfsskilyrði, stöðuleika og aðbúnaði starfsfólks, og ná þannig að styrkja leikskólastarfið í víðum skilningi og bæta enn frekar það góða starf sem þar er unnið.

Sveitarfélagið fékk í kjölfarið til liðs við sig Önnu Magneu Hreinsdóttur, aðjunkt við Háskóla Íslands, til að vinna skýrslu um styrkingu leikskólastigsins í sveitarfélaginu ásamt aðgerðaráætlun. Í tengslum við vinnu við styrkingu leikskólastarfs í Stykkishólmi var m.a. efnt til samráðsfundar í ágúst síðastliðnum, en sá fundur var mjög vel sóttur. Fundurinn var opinn og öllum frjálst að skrá sig og taka þátt í vinnunni. Þátttakendum fundarins var skipt upp í hópa og ræddi hver hópur styrkleika, veikleika, ógnir og tækifæri í leikskólastarfi í Stykkishólmi. Í kjölfar fundar vann Anna Magnea Hreinsdóttir fyrrnenda skýrslu um styrkingu leikskólans í Stykkishólmi ásamt aðgerðaráætlun. Skýrsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan

Í skýrslunni kemur fram að brýnt sé að finna leiðir til að laða fleiri fagmenntaða leikskólakennara að leikskólanum. Meðal þeirra hugmynda sem ræddar hafa verið er aukin samræming vinnutíma og leyfa á stigunum tveimur, sem og að bæta aðstöðu. Eins þarf að skapa starfsfólki leikskólans aukið svigrúm til faglegrar samvinnu, til dæmis með fjölgun starfsdaga. Áríðandi er að skólastefnan sé virk og að henni sé fylgt eftir.

Skóla- og fræðslunefnd lagði til á 9. fundi sínum að á þessu skólaári verði lokað 22. desember og 2. janúar og foreldrar beðnir um að skrá börn sín sérstaklega ef þau hyggjast nýta leikskólavistun milli jóla og nýárs. Þá lagði nefndin einnig til að foreldrum gefist færi á því að fá leikskólagjöld fyrir desembermánuð felld niður eins og kynnt er hér að ofan. Bæjarstjórn samþykkti tillögurnar en með þeim gefst stjórnendum leikskóla betur kostur á því að mæta kröfu kjarasamninga um betri vinnutíma leikskólakennara og skipuleggja starfið og mönnun útfrá nýtingu leikskólans.

Skýrsla - Styrking leikskólans í Stykkishólmi - Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt HÍ

Leikskólinn í Stykkishólmi
Getum við bætt efni síðunnar?