Fara í efni

Opnunartími Eldfjallasafns

Málsnúmer 2005036

Vakta málsnúmer

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd - 3. fundur - 22.05.2020

Á fundi bæjarráðs Stykkishólms, 14. maí sl., var óskað eftir umsögn atvinnu- og nýsköpunarnefndar um starfsemi Eldfjallasafnsins næsta vetur. Rætt var um starfsemi safnsins á undanförnum árum og kosti og galla þess að bæjarsjóður verji áfram fjármunum til starfseminnar.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd telur að þeim fjármunum sem bæjarsjóður ver í starfsemi Eldfjallasafnsins sé betur varið til stuðnings margra annarra framfaramála í Stykkishólmi. Starfsemi safnsins hefur ekki náð að þróast nægjanlega sem lifandi safn til að vera aðdráttarafl og stuðningur við ferðaþjónustu í Stykkishólmi. Nefndin leggur til við bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar að segja upp samningi við eiganda Eldfjallasafnsins og kanna aðra og betri möguleika á nýtingu húsnæðisins.

Safna- og menningarmálanefnd - 110. fundur - 15.06.2020

Til umræðu er opnunartími Eldfjallasafns fyrir sumarið 2020 og starfsemi næsta vetur.

Bæjarstjóri gerði á 613. fundi bæjarráðs grein fyrir fyrirkomulagi á sumaropnum safnanna. Stefnt er að eftirfarandi sumaropnun:

Norska húsið opið 11-17.
Vatnasafn opið 11-17 (með kóða).
Eldfjallasafn opið 13-17.

Á 613. fundi bæjarráðs fól ráðið bæjarstjóra að útfæra skipulag starfsemi Eldfjallasafnsins næsta vetur og leita umsagnar safna- og menningarmálanefndar, Eflingar Stykkishólms og atvinnu- og nýsköpunarnefndar.

Fyrir liggur bókun atvinnu- og nýsköpunarnefndar um málið og er hún framlögð, en á 614. fundi bæjarráðs var bókuninni vísað til umsagnar safna- og menningarmálanefndar.
Safna- og menningarmálanefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi opnunartíma og leggur til að safnið verði opið fyrir hópa næsta vetur. Nefndin vekur athygli á því að húsnæðið hefur verið nýtt til ýmisa viðburða allt árið umkring og hvetur til þess að slíkt verði gert áfram.

Safna- og menningarmálanefnd frestar umræðunni um bókun atvinnu- og nýsköpunarnenfndar til næsta fundar.

Safna- og menningarmálanefnd - 111. fundur - 04.11.2020

Safna- og menningarmálanefnd gerði ekki athugasemdir við opnunartíma eldfjallasafnsins sem til umræðu var á síðasta fundi nefndarinnar. Nefndin lagði til að safnið yrði opið fyrir hópa í vetur og vakti athygli á því að húsnæðið hefur verið nýtt til ýmisa viðburða allt árið umkring og hvatti jafnframt til þess að slíkt yrði gert áfram.

Fyrir liggur bókun atvinnu- og nýsköpunarnefndar um málið og er hún framlögð, en á 614. fundi bæjarráðs var bókuninni vísað til umsagnar safna- og menningarmálanefndar.

Safna- og menningarmálanefnd frestaði, á síðasta fundi sínum, umræðunni um bókun atvinnu- og nýsköpunarnenfndar til næsta fundar.

Hjördís Pálsdóttir gerir frekari grein fyrir málefnum Eldfjallasafns.
Safna- og menningarmálanefnd er ósammála bókun atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 3. fundi nefndarinnar, um að fjármunum sem bæjarsjóður ver í Eldfjallasafnið sé betur varið í aðra starfsemi. Ýmisir viðburðir hafa verið í Eldfjallasafninu í gegnum árin. Safna- og menningarmálanefnd spyr sig hvað er lifandi safn, eins og bókað er hjá atvinnu- og nýsköpunarnefnd, ef farið væri eftir bókun nefndarinnar væru flest söfn aflögð.

Safna- og menningarmálanefnd telur að það hafi verið mikinn feng fyrir Hólmara að fá safnið í bæinn. Safnmunir eru mjög verðmætir og fágætir, þ.a.m. listaverkin.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir forsögu safnsins og hvernig aðkomu bæjarins var háttað frá upphafi. Þá gerði bæjarstjóri grein fyrir fundi sem haldinn var með forsvarsmönnum Vulkan ehf. um stöðu safnsins, framtíð þess og ástand samkomuhússins sem hýsir safnið.

Safna- menningarmálanefnd leggur áherslu á verðmæti safnsins og gildi þess í menningarlegu-, vísindalegu- og sögulegu samhengi, bæði fyrir Stykkishólm, fyrir Snæfellsnes, sér í lagi jarðfræði svæðisins, og landið allt, enda er safnið einstakt lista- og vísindasafn. Nefndin hefur hins vegar bæði skilning á forgangsröðun Stykkishólmsbæjar, hvað varðar fjárfestingar næsta árs, og þeirri afstöðu Haraldar Sigurðsson, jarðfræðings, sem fram kemur í tilkynningu frá honum. Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin hvetur safna- og menningarmálanefnd bæjarstjórn og forsvarsmenn Vulkan ehf. til þess að leita allra leiða til þess halda safninu í Stykkishólmi, eins og ávallt var stefnt að yrði framtíðarstaðsetning safnsins, með það að leiðarljósi að finna þessu merkilega safni annan hentugri stað í Stykkishólmi.

Safna- og menningarmálanefnd - 112. fundur - 10.02.2021

Í bókun safna- og menningarmálanefndar undir málefnum Eldfjallasafnsins á síðasta fundi nefndarinnar hvatti safna- og menningarmálanefnd bæjarstjórn og forsvarsmenn Vulkan ehf. til þess að leita allra leiða til þess halda safninu í Stykkishólmi, eins og ávallt var stefnt að yrði framtíðarstaðsetning safnsins, með það að leiðarljósi að finna þessu merkilega safni annan hentugri stað í Stykkishólmi.

Forstöðumaður safna gerir grein fyrir málinu.
Farið var yfir stöðuna og eins og staðan er í dag er ekki gert ráð fyrir starfseminni í fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar.

Bæjarráð - 630. fundur - 19.08.2021

Bæjarstjóri fer yfir stöðu Eldfjallasafnsins í Stykkishólmi.
Bæjarstjóri gerir grein fyrir því að munir Eldfjallasafnsins hafa nú verið fluttir úr húsnæði Stykkishólmsbæjar við Aðalgötu 6 og ljóst að starfsemi safnsins er lokið í Stykkishólmi. Fyrir liggur að móta þurfi framtíðarsýn fyrir húsnæðið, Aðalgötu 6, en beðið er eftir verkfræðiskýslu um ástand húsnæðisins.

Vísað til frekari vinnslu í bæjarráði.
Getum við bætt efni síðunnar?